Vötnin vakna

Vötnin Í helgargöngu umhverfis Vífilsstaðavatn laugardaginn 4. maí síðastliðinn sá ég tvo veiðimenn fá töku nær samtímis. Ég heilsaði upp á annan þeirra, Bjarka Má Jóhannsson, og fékk að mynda bleikjuna hans. Ég fékk stöngina hans lánaða sem viðmið. Bjarki afsakaði að hann væri því miður ekki með Scott STS 905/4 stöngina sína en ég get upplýst hann og aðra, sem eiga stangir á heimleið úr viðgerð, að þær verða í New York í næstu viku á leið til landsins. Stangirnar hafa tafist en slást í för með vörusendingu frá Fishpond sem er væntanleg. Á myndinni má sjá bleikju Bjarka. Á kynningarspjaldi við Vífilsstaðavatn segir að bleikjurnar þar verði allt að 40 sm langar en bleikja Bjarka sýnist lengri: Kuldinn í apríl hefur seinkað vatnaveiðinni en öll skilyrði voru til staðar þegar ég leit við í Hlíðarvatni 7. apríl og renndi seinni partinn. Ég fór um vatnið og ég held að allir hafi verið að fá fisk og yfirleitt vænan. Veðrið var yndislegt í Selvoginum þennan dag þótt það rigndi með hagléljum á Selvogsgötunni í Hafnarfirði. Vorflugan var að koma upp, stóra toppfluga sýndi sig og annað smærra mý var á sveimi. Þegar ég var búinn að missa tvo í Botnavíkinni á Héraeyra, sá ég mý að brjótast út og setti undir Toppflugupúpu Engilberts Jensen #12. Bleikjan á meðfylgjandi mynd tók hana með krafti: Hún reyndist 2,5 kg og 59 sm. Tveir himbrimar fögnuðu aflanum með mér. Synti annar baksund með fæturna upp og síðan flugsund á vængjunum yfir Botnavíkina með öldugangi. Þessir fimleikar spilltu veiðinni þarna í bili en tveir félagar úr Árbliki fengu 31 fisk út af Austurnesinu daginn eftir. Stærðarmetið þann daginn sló hins vegar María Petrína Ingólfsdóttir úr Stangaveiðifélagi Hafnarfjarðar. Bleikjan hennar var 2,6 kg og 62 sm. Tvær Toppflugur í þurrfluguútgáfu…                                                    …Og svo votfluguútgáfan sem fangaði bleikjuna. Ég vona að þessi hugvekja kveiki í mönnum að fara til veiða. Ef mönnum vantar tæki og tól bendum við á endurseljendur okkar og vörulistann okkar í vefversluninni ofarlega í vinstra dálki. Árni Árnason

NÝJUSTU FRÉTTIR