Enn ein verðlaunastöngin frá Scott

Jim Bartschi, forstjóri Scott Fly Rod Company í Bandaríkjunum, er vafalaust einn flinkasti stangarhönnuðurinn um þessar mundir. Hann nýtur einnig virðingar annarra í greininni og var nýlega kosinn formaður American Fly Fishing Trade Association – AFFTA. Á sýningu þeirra,  IFTD sýningunni í Denver í Colorado í síðasta mánuði vann nýja Sector-stöngin til verðlauna sem besta nýja stöngin til veiða í söltu vatni. Stöngin var einnig valin „Best of Show“ þ.e. besta nýja varan á sýningunni.


Stangir til veiða í söltu vatni eru sérstaklega hannaðar til þess að þola seltu þannig að stangarhlutar, sem geta skemmst, ryðgi ekki. Þá er vindurinn, sem fylgir opnu hafi, áskorun. Stöngin þarf að geta brugðist skjótt við og kastað línunni í meiri vindi en almennt gerist. Við þekkjum þessar aðstæður hér á landi enda hafa Scott stangirnar til veiða í söltu vatni, allt frá STS-stönginni, verið vinsælar hérlendis.

Radian-stöngin frá Scott vann til þessara verðlauna 2013. Hún er enn á toppnum, sem ein besta stöngin til veiða á laxi og urriða. Meridian-stöngin vann verðlaunin 2015 og GS-stöngin árið 2017. Þessi ferill sýnir að Scott vinnur verðlaunin án vandræða þegar fyrirtækið kemur með nýja stöng á markaðinn. En er eitthvað að marka þessi verðlaun?

Verðlaunin eru veitt fyrir nýjar vörur. Það segir ekki að eldri Scott stangir séu ekki enn í fremstu röð eins og dæmið um Radian-stöngina sýnir. Sýningargestir eiga þess kost að prufa að kasta með stönginni. Á sýningunni er tjörn með vatni sem gerir það mögulegt. Kjósendur hafa þess vegna betra tækifæri til þess að meta gripinn en á við um sumar aðrar vörur eins og t.d. flugulínur. Sýningargestir geta skoðað töskur og búnað frá Fishpond og metið hönnunina en atkvæði greitt nýrri flugulínu kann að byggjast á fyrirfram ákveðinni skoðun á framleiðandanum. Þetta á ekki við um Sector-stöngina. Ég gat prófað að kasta Sector-stönginni á sýningunni og gat þess vegna með góðri samvisku greitt henni atkvæði mitt. Svo var um fleiri.

Við stangarsmíðina nýtir Scott alla nýjustu tækni sína og aðkeyptir hlutir eins og lykkjurnar og hjólsætið eru fyrsta flokks. Þeir, sem vilja lesa meira um þessa frábæru stöng, geta farið inn á heimasíðu Scott og lesið sér til um stöngina hér. Einnig er ekki úr vegi að hlusta á Jim Bartschi lýsa gæðum stangarinnar. Þá lýsingu má nálgast hér.

Mesta úrvalið af Scott- flugustöngum er að finna í Veiðiflugum á Langholtsvegi 111, 104 Reykjavík.

NÝJUSTU FRÉTTIR