Þingvallavatn

Þingvallavatn... Sigurður G. Tómasson, útvarpsmaðurinn góðkunni, hefur ritað grein um Þingvallavatn sem er birt hér á heimasíðunni í efnisflokknum „Veiðistaðalýsingar“. Sigurður á sterkar rætur á Þingvöllum og þekkir vatnið vel. Í grein sinni fjallar Sigurður um jarðfræði vatnsins og veiðina í vatninu að fornu og nýju. Í vatninu er að finna fjórar tegundir af bleikju, urriða og tvær tegundir hornsílis. Sigurður lýsir þessum tegundum og sérkennum þeirra. Hann segir frá veiðiaðferðum, veiðistöðum og flugum sem hafa gefist vel. Sigurður rifjar upp umhverfisslysið mikla þegar Sogið var stíflað og bakkar Sogsins stráðir skordýraeitrinu DDT. Þessi saga er aldrei of oft sögð. Þá vissu menn ekki betur. Það er breytt. Samt er ávallt þörf árvekni af því að enn gætir kæruleysis í umgengni við lífríkið. Má þar minna á malartöku í ám, flutning lifandi fiska milli vatnasvæða og „náttúrufikt“ sem viðgengst í nafni fiskiræktar. Sigurður bendir t.d. á að kvikasilfursmengun vegna afrennslisins frá Nesjavöllum sé óleyst mál og lítt kannað. Við, sem nú lifum, erum gæslumenn þeirrar náttúruperlu sem Þingvallavatn er og verðum að skila því óspjölluðu til komandi kynslóða.  

NÝJUSTU FRÉTTIR