Stangveiði stendur ógn af ýmsu sem er að gerast í umhverfi okkar. Það er tvennt sem einkum stendur upp úr í þessu efni. Fyrst skal nefna eldi á göngufiski, laxi og silungi, í sjókvíum. Hitt áhyggjuefnið eru virkjanir í neðri hluta Þjórsár en nú er til umræðu að Hvammsvirkjun fari í nýtingarflokk sem virkjunarkostur. Umhverfisstofnun hefur nú nýverið heimilað eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi. Þá eru uppi áform um umfangsmikið sjókvíaeldi á norskum laxi í Eyjafirði. Stangveiðimönnum stendur ekki uggur af fiskeldi á landi en eldi í sjókvíum er annað mál. Fiskur, sem sleppur, leitar í nærliggjandi ár og getur valdið erfðamengun. Þá getur aukin laxalús og sjúkdómar verið vandmál. Í neðri hluta Þjórsár eru þrjár virkjanir til umræðu. Fyrir Alþingi liggur að færa eina þeirra, Hvammsvirkjun, í nýtingarflokk. Hinar gætu einnig síðar færst í þann flokk. Óumdeilt er að þessar virkjanir hafa allar áhrif á göngur laxa og silunga upp Þjórsá og í hliðarár hennar. Eftir að fiskvegur var gerður við fossinn Búða hefur göngufiskur í vaxandi máli getað sótt í efri hluta árinnar og skapað batnandi skilyrði fyrir stangveiði á svæðinu. Á heimasíðunni er nú að finna grein um Hvammsvirkjun. Greinin er hugsuð sem innlegg í umræður og ákvarðanir í þessu efni. Hana má finna hér.