ÁRVÍK opnar vefverslun með vörur til fluguveiði 1. mars 2009. Tilgangurinn er að geta kynnt betur fyrir verslunum og veiðimönnum þær vörur sem fyrirtækið selur. Önnur ástæða er að ÁRVÍK er ekki lengur ábyrg fyrir dreifingu á vörum 3M/Scientific Anglers á Íslandi í heildsölu. Scientific Anglers hefur ákveðið að fela einum aðila í Evrópu að annast hana. Ákvörðunin gildir jafnt um ÁRVÍK sem og aðra fyrrum heildsöludreifendur í Evrópu. Ætlun nýja dreifingaraðilans er að selja beint í verslanir án þess að hafa starfsmenn eða starfsstöð hér á landi. ÁRVÍK á hins vegar töluverðan lager af vörum frá Scientific Anglers sem fyrirtækið mun bjóða íslenskum veiðimönnum í gegnum netverslun sína. Sú ákvörðun er beint framhald af breyttu dreifingarfyrirkomulagi Scientific Anglers og leið okkar til þess að koma í verð þeim birgðum sem við eigum. Vörurnar voru flestar keyptar þegar gengi krónunnar var sterkt gagnvart Bandaríkjadal og eru allar seldar miðað við þær forsendur. Verð þeirra er þess vegna afar hagstætt fyrir veiðimenn. Engin breyting verður á því að ÁRVÍK mun halda áfram að annast heildsöludreifingu á öðrum vörum sínum til veiðivöruverslana. Yfir sumarmánuðina bjóðum við að senda þessar vörur til sölu í verslunum á höfuðborgarsvæðinu samdægurs, séu þær pantaðar fyrir hádegi, en innan tveggja daga utan þess. Lista yfir endursöluaðila okkar er að finna á öðrum stað hér á heimasíðunni undir Endurseljendur.