Nýjar flugulínur frá Aquanova

Nýjar Nú í ágúst voru tvær nýjar flugulínur að bætast í úrvalið hjá okkur frá Aquanova. Önnur er glær sökklína, Trout Clear, en hin er Premium Spey lína fyrir tvíhendur. Glærar sökklínur henta vel við viðkvæmar aðstæður í litlu vatni. Þær henta einnig vel í miklu og tæru vatni þegar mikilvægt er að raska ekki ró fisksins. Glær línan truflar ekki fiskinn og fælir hann ekki. Vandinn við glærar línur hefur hins vegar oft verið hversu þær hringast upp og erfitt er að slétta úr þeim. Þetta var ekki reynsla okkar þegar línan var prófuð við tiltölulega svalar aðstæður við Vífilsstaðavatn í vor. Kom hún út mun betur en mun dýrari lína svipaðrar gerðar. Verð er þannig ekki alltaf mælikvarði á gæði. Trout Clear línan er til í þyngdum þrjú til níu. Hún er með „intermediate“ sökkhraða og kostar kr. 5.900 í smásölu. Premium Spey línan er tvílit. Það auðveldar að sjá hvenær næg lína er úti til þess að hlaða stöngina vel fyrir gott kast. Hausinn er hvítur en rennslislínan er ljósgræn. Línan er til í þremur mismunandi þyngdum. Léttasta línan, 8/9 er með 44 g, 15,8 m haus, sú í miðið, 9/10 er með 48 g, 17,1 m haus og sú þyngsta, 10/11 er með 52 g 18,3 m haus. Allar eru línurnar 120 fet eða 36,6 metrar. Spey línurnar eru á mjög hagstæðu verði. Þær kosta kr. 9,900 í smásölu en það er leiðbeinandi smásöluverð. Línurnar hafa reynst vel í sumar við prófanir þar sem Scott tvíhendur voru notaðar. 

NÝJUSTU FRÉTTIR