Birna

Öngull: Kamasan B280 stærðir 10 til 6.
Tvinni: Svartur 8/0.
Stél: Gult ullarband
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Svart flos eða ullarband, vafið með ávölu silfri.
Skegg: Svart, vafið eins og kragi
Vængur: Svart hár af bjarndýri.
Haus: Svartur.

Faðir minn, Guðmundur Árnason, hannaði þessa flugu og hnýtti þá sem er hér á myndinni. Uppskriftina fékk ég ekki hjá honum, heldur er þetta uppskrift sem birtist í Veiðmanninum í nóvember 1978, blað #100. Flugan var upphaflega hnýtt á annan öngul, sem er ekki lengur fáanlegur, en B280 öngullinn frá Kamasan samsvarar honum. Eftir að faðir minn kynntist Kamasan önglunun notaði hann aldrei aðra öngla og hnýtti allar laxaflugur sínar á B280, yfirleitt stærðir sex og átta. Með uppskriftin í Veiðimanninum fylgdi með frásögn Jóhanns H. Rafnssonar þegar hann veiddi Maríulaxinn sinn á þessa flugu, þá tólf ára. Frásögnina má finna hér. Í sömu veiðiferð höfðu foreldrar hans notað fluguna með góðum árangri.

Sjálfur hef ég notað fluguna við ýmis tækifæri, einnig með góðum árangri. Minnistæðast er mér er ég var við veiðar í Laxá í Laxárdal sumarið 1975. Var ég þar að æfa fluguköst frekar en að veiða, á breiðu nokkru fyrir neðan brúna við Rauðhóla. Þegar ég hafði náð út eins langri línu og ég réð við á þessum árum lét ég hana falla í vatnið. Flugan var tæplega sest á vatnið þegar vænn urriði tók fluguna samstundis með látum. Mér brá svo við tökuna að ég var nærri dottinn í ána.

Árni Árnason.

NÝJUSTU FRÉTTIR