Jóhann H. Rafnson
(12 ára )

FYRSTI LAXINN

Ég gleymi því aldrei sem skeði þann 15. ágúst 1977.

Ég var á ferðalagi með mömmu og pabba um Austfirði og komum við síðla kvölds að Staðarborg í Breiðdal þar sem við fengum gistingu. Vorum við svo heppin að fá veiðileyfi í Breiðdalsá næsta dag og fórum við því snemma að sofa.

Var nú lagt af stað í býti um morguninn og byrjuðum við veiðarnar á svæði nr. 4, svokölluðu silungasvæði, en þau undur skeðu að þar fengum við tvo laxa og varð fólkið heldur en ekki hissa þegar við komum heim í hádeginu.

Um eftirmiðdaginn fengum við leyfi á svæði nr. 1, og þá byrjaði aðal ævintýrið. Strax í fyrsta kasti tók 12 pundari fluguna hjá pabba og sporðtók ég hann eftir mikla baráttu. Setti síðan mamma strax í annan sem sleit sig lausan eftir langa og skemmtilega viðureign.

Var nú komið að mér. Kastaði ég nokkrum flugum í þennan sama hyl en án árangurs. Gengum við þá niður á Skjöldólfsstaðanes og byrjaði ég þar með sömu flugu og hinir laxarnir höfðu tekið. Er fluga þessi svört með gulu skotti og heitir hún Birna.

Í fjórða kasti var þrifið kröftulega í og ég æpti lax, lax, lax. En pabbi sagði mér að taka það rólega, þetta væri bara bleikja, en það kom nú annað í ljós þegar hann stökk lengd sína í loft upp, þá fór hjartað að banka, lærin að skjálfa og pabbi að æpa ,,niður með stöngina,“ ,,upp með stöngina“ – og þannig gekk það með hrópum og hlaupum næstu 15 mín. þar til þessi 8 punda Maríulax lá við fætur okkar.

Fengu svo mamma og pabbi sinn laxinn hvort til viðbótar á þessa sömu flugu, rétt áður en myrkrið skall á.

Við rannsókn á hreistursýnishorni sem við sendum Veiðimálastofnunni kom í ljós að hængurinn minn hafði verið þrjú ár í ferskvatni áður en hann gekk til sjávar og þar hafði hann verið önnur þrjú ár.

(Ritgerð úr Breiðagerðisskóla)

Heimild: Veiðimaðurinn #100, nóvember 1978.

NÝJUSTU FRÉTTIR