Þingvallavatn

Vatnið

Þingvallavatn er stærsta náttúrulega stöðuvatn landsins. Það er tæplega 84 ferkílómetrar og mesta dýpið, nálægt Sandey, er 114 metrar. Þar sem vatnsyfirborðið er rúmlega 100 metra yfir sjó nær botn á mesta dýpi niður fyrir sjávarmál. Í raun er Þingvallavatn lindaklasi, sá stærsti á landinu, líklega í Evrópu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Á yfirborði renna í vatnið fáeinir rúmmetrar en úr því koma um 100 rúmmetrar vatns enda er mælt meðalrennsli í Soginu við Ásgarð 108 rúmmetrar á sekúndu, eftir nokkra viðbót af lækjum og lindum í Grímsnesi. Afgangurinn kemur úr lindum og nokkur straumur er úr gjánum í Þingvallalandi en einnig úr vatnsbotninum sjálfum. Talið er að þriðjungur þessa vatns eigi uppruna sinn í leysingavatni úr Langjökli. Tveir þriðju vatnsins eru á hinn bóginn úrkoma á vatnasviðið og vatnið sjálft. Þegar lindirnar koma í vatnið er vatnshitinn þrjú til fjögur stig.

Þingvallavatn var í lok jökulskeiðsins, en því lauk fyrir u.þ.b. 10000 árum, lón við jökuljaðar og ekki voru neinir fossar á leið jökulvatnsins til sjávar, m.a. vegna hærri sjávarstöðu. Merki um þetta stöðuvatn sjást enn í austanverðum Grafningi. Fiskur átti því greiða leið úr sjó í vatnið. Þannig bættust því bæði urriði og bleikja. Þegar jöklar hörfuðu hófst mikið eldvirkniskeið og helstu einkennisfjöll þessa tíma eru dyngjurnar. Ein fallegasta dyngja landsins, Skjaldbreiður, er einmitt eitt helsta kennileiti Þingvalla. Nánast samtímis gosi í Skjaldbreið gaus í Eldborgum, gígum sem liggja austan og suðaustan við Hrafnabjörg. Hraun þaðan rann alla leið að Dráttarhlíð og stíflaði útrennslið úr vatninu. Vatnsborð hækkaði um 10-12 metra frá því sem nú er. Merki um þetta sjást við Skálabrekku og Kárastaði. Vatnið gróf sér svo farveg þar sem Sogið fellur enn úr vatninu. Mynd 1 sýnir kort af Þingvallavatni og nánasta umhverfi.

Eins og búast má við er Þingvallavatn fremur kalt. Vatnið er líka djúpt og það er lengi að hitna á vorin og að sama skapi lengi að kólna hvert haust. Á árunum 1960 og fram undir aldamót kom oftast ís á vatnið á vetrum, oftast fraus fyrst milli jóla og nýárs en ís, sem entist, kom jafnan fyrstu viku í janúar. Ísinn var venjulega fram í mars eða jafnvel apríl. Seinustu ár hefur ekki myndast ís á vatninu sem haldið hefur lengur en nokkra daga. Sums staðar eru trúlega lindasvæði sem valda því að ísinn getur verið varasamur og ótraustur. Þetta á einkum við á útmánuðum. Því getur verið varasamt, sérstaklega fyrir ókunnuga, að æða um vatnið á vélsleðum.

Veiðin

Enginn efi er á því að Þingvallavatn er gjöfulasta veiðivatn landsins og jafnvel þótt víðar væri leitað. Þrjár fisktegundir lifa í vatninu. Urriði, bleikja og hornsíli. Af bleikjunni eru fjögur afbrigði, eða gerðir, þótt líffræðingar telji þær ekki sjálfstæðar tegundir enda er mögulegt að æxla þær saman, þótt lífshættir, æti, hrygningarstaðir og hrygningartími sé mismunandi. Af hornsíli eru tvær gerðir. Fyrir allmörgum árum var giskað á að veiðanlegur fiskur í vatninu væri 700 tonn og eru þá líklega taldir fjórir stofnar bleikju og urriði. Netaveiði hefur síðustu eina og hálfa öld eða svo verið talsverð en þó farið mikið minnkandi seinustu ár, einkanlega eftir að bændur hættu að veiða murtu nema til eigin neyslu. Þegar mest var veitt af murtunni voru tekin milli 80 og 90 tonn. Frá því að Niðursuðuverksmiðjan ORA hætti að sjóða niður og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna missti markað fyrir frysta murtu í Japan hefur veiðin ekki verið umtalsverð.

Ekki er langur tími liðinn síðan Þingvellingar fóru að stunda netaveiði að sumarlagi. Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru um sveitir um miðbik 18. aldar segja þeir engan bát í Þingvallasveit og veiðin fari fram upp um ís með krók sem kallaður sé hoppungur. Bjarni Sæmundsson, sem fyrstur rannsakaði lífríki vatnsins, komst yfir einn slíkan og er hann í Þjóðminjasafni. Sönnur eru á að löngum hafi menn veitt á krók í vatninu því að í fornmannskumli, sem fannst á bökkum Úlfljótsvatns rétt hjá Kaldárhöfða, fundust leifar af önglum. Þar var mikill veiðimaður búinn á vit feðra sinna og víst má telja að hann hafi líka bleytt krókinn í Soginu og móður þess Þingvallavatni þar sem var að finna stórvaxnasta og stærsta urriðastofn landsins og líklega Evrópu.

Netaveiðar hefjast

Á nítjándu öld hófust netaveiðar í vatninu fyrir alvöru, fyrst á bleikjunni og upp úr miðri öldinni hófust að líkindum murtuveiðar að ráði. Það var fyrst og fremst fínspunnið bómullargarn sem hægt var að ríða úr net sem gerði það mögulegt. Á síðasta fjórðungi aldarinnar stunduðu menn líka línuveiðar á silungi, eftir því sem heimildamenn mínir sögðu mér, mest á Sandeyjardýpi. Ekkert veit ég um það hvernig þetta gekk en ekki veit ég til að þetta hafi verið reynt annars staðar. Sums staðar sjást merki um veiðar fyrri tíðar manna. Eru það einkum stórgripabein sem menn hafa hent á vatnsbotninn. Gæti verið um að ræða mið og einnig gæti þetta hafa verið gert til þess að laða bleikjuna að við vetrarveiði upp um ís. Þekkt er frá síðustu öld að ,,borið var niður“ en þá var annað hvort soðinn fiskur, einkum ýsa eða skyr, sett niður um vökina kvöldið áður en dorga skyldi. Auk hefðbundinna netaveiða tíðkaðist veiði í írekstrarnet í Þingvallavatni allt fram á síðustu öld. Sú veiði fór fram þar sem var tiltölulega grunnt og botn góður. Fiskurinn var hrakinn í netið með grjótkasti og netið síðan dregið að landi. Langt er síðan þessu var hætt og flestir dánir sem frá því kunna að segja af eigin reynslu. Ég hef heyrt frásagnir manna sem tóku þátt í veiði með þessum hætti.

Stangveiðar

Það var við útfall Sogsins, í landi Kaldárhöfða, þar sem stangveiðar hófust í vatninu undir lok 19. aldar. Raunar held ég að nafn árinnar, Sogið, hafi upphaflega verið nafnið á þessu útfalli eingöngu en síðar hafi það færst yfir á alla ána. Þarna voru Bretar á ferð. Þeir nýttu Sogið til stangveiða og enn má sjá merki um veiðar þeirra þar, bæði í Soginu sjálfu, en þar er grjótbryggja, sem þeir hlóðu í og við vatnið ofan útfalls. Þar stendur enn veiðikofi þeirra og hefur um langt skeið verið brúkaður af ábúendum í Kaldárhöfða. Það sem freistaði Bretanna og margra stangveiðimanna síðan var sjálfur kóngurinn, urriðinn, sem lokaðist inni í vatninu þegar land reis eftir síðustu ísöld. Helstu hrygningarstöðvar urriðans voru einmitt á malarbotni ofan útfallsins, sem hvarf 1959 eins og síðar verður sagt frá. Ekki er mér kunnugt um hvaða agn Bretarnir notuðu. Sjálfsagt hafa þeir bæði notað spón og flugu. Þá er líka víst að þeir notuðu trésíli, sum tröllslega stór, jafnvel á stærð við murtu. Þau urðu enn algengari þegar Bandaríkjamenn hófu veiðar hér á millistríðsárunum. Bandaríkjamenn kölluðu trésílið ,,Minnow“ en það er silfraður smáfiskur í Norður-Ameríku sem notaður er í beitu fyrir stærri fisk og beitt lifandi. Ég á í fórum mínum svona trésíli sem faðir minn átti og var honum gefið af Bandaríkjamanni. Trésílinu, ,,minnóinu“, var einkum beitt við veiðar af báti, á töluverðu dýpi.

Urriðinn er gráðugur

Sagnir voru um óhefðbundnari veiðiaðferðir. Guðbjörn Einarsson sagði mér sögu af Tryggva Magnússyni teiknara og sérkennilegri beitu sem hann notaði. Sjálfur var Guðbjörn undir árum þegar þetta gerðist og mig minnir hann segja að veiðifélagi Tryggva hafi verið Magnús Kjaran stórkaupmaður. Tryggvi hélt því fram, og margir voru honum sammála um það, að urriðinn væri gráðugur ránfiskur. Sérstaklega væri hann sólginn í ljós, einkum niðri í dimmum djúpum Þingvallavatns. Tryggvi útbjó því batteríisljós, svipað því sem er í venjulegu vasaljósi, og tengdi þetta við langan vír ásamt veiðilínunni og agni með krók sem líklega var tréfiskur. Ekki er að orðlengja það, þegar þessu var sökkt niður á dýpið, að þar kom mikill kippur. Þegar dregið var upp var allt horfið af endanum. Tryggvi var sannfærður um að risafiskur hefði bitið úthaldið í sundur. Ekki voru allir jafn vissir um réttmæti þeirrar skýringar. Alla tíð hafa gengið sögur um stóra urriða. Vitað er að yfir 25 punda fiskar hafa veiðst og sagnir eru um að þeir hafi sumir jafnvel verið meira en 30 pund. Líkur benda til að í Þingvallavatni sé margir stofnar urriða. Sá stærsti og stórvaxnasti hrygndi á malir sem voru ofan við Útfallið. Mest veiðist líklega af murtu í Þingvallavatni og þótt hún sé oft smá er hún gómsæt og líka skemmtileg bráð fyrir unga veiðimenn. Næstalgengasti aflinn er líklega kuðunga- eða bobbableikjan. Flestar eru ,,pundarar“, þ.e. kringum eitt pund, en oft stærri.

Mesta umhverfisslysið

Árið 1959 var seinasta virkjunin í Soginu byggð ,,Steingrímsstöð“. Útfallið úr Þingvallavatni var stíflað og vatnið leitt í göngum gegnum Dráttarhlíð og síðan út í Úlfljótsvatn. Það sem grafið var út úr göngunum ofanverðum var sett út í Þingvallavatn, ofan á mölina, hrygningarstað urriðans. Aðfaranótt 17. júní 1959 varð svo óhapp sem sópaði burtu leifunum af mölinni. Þá brast bráðabirgðastífla og varð af stórflóð í gegnum göngin og hálfbyggt stöðvarhúsið. Kunnugir sögðu reyndar að stíflan hefði verið af vanefnum gerð, einungis 50-60 sentimetra borð fyrir báru, gerð úr möl sem hlaðið var að þili úr bárujárni. Þá var mér nýlega sagt, að vaktmanni á staðnum hafi ekki verið treyst til þess að nota skrifstofusíma yfirmannanna svo hann varð að fara akandi niður að Ljósafossi til þess að láta vita að stíflan væri að gefa sig! Vatnsborð Þingvallavatns lækkaði mikið, varlega ætlað um tvo metra, og dauður fiskur lá um allar fjörur. Við virkjunina urðu afdrifaríkar breytingar á vötnum og lífríki vatnasvæðisins. Lokað var fyrir samgang, sem áður var hindrunarlaus, milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns. Vegna ágangs mýbits við Sogið var gríðarlegu magni af skordýraeitri, DDT, stráð á bakka Sogsins. Í þá daga trúðu menn að þetta efni væri sauðmeinlaust en losaði menn við bitvarginn. Ekki ber heimildum saman um hversu mikið þetta magn var en sumar benda til þess að um vörubílsfarma hafi verið að ræða. Engin rannsókn hefur farið fram á þessu. Þá hækkaði vatnsborð Þingvallavatns um 20 sentimetra. Þótt þetta sé ekki mikil hækkun, sérstaklega þegar borið er saman við aðrar virkjanir, eru afleiðingarnar lúmskari.

Eins og áður sagði voru stærstu hrygningarstöðvar Þingvallavatnsurriðans eyðilagðar. Urriðinn hrygnir líka í ám sem renna í vatnið, mest í Öxará. Þar virðist hrygning hafa tekist afburða vel undanfarin ár, líklega vegna þess að ekki hafa orðið flóð í ánni sem stundum eyðileggja frjóvguð hrogn. En urriðinn hrygndi líka víðar. Að líkindum hrygndi hann líka við lindir á grunnu vatni þar sem straumur getur verið stríður. Þótt vatnsborðshækkun sé einungis 20 sentimetrar getur hún leitt til þess að straumur minnkar við lindirnar og lífslíkur hrogna minnka. Engin rannsókn hefur þó farið fram á þessu.

Enn er ótalin ein afleiðing þess að virkja Sogið og stífla útfallið. Hún er sú menn fóru að nota vatnið sem miðlun. Mjög hefur dregið úr snöggum breytingum á vatnsborði seinustu árin eftir áratuga baráttu bænda og umhverfisáhugamanna við Landsvirkjun. Hér áður voru dæmi um allt að 50 sentimetra lækkun á vatnsborði í einum rykk en nú eru sveiflurnar miklu minni þótt dæmi séu um snöggar breytingar. Ekki þarf að taka fram hvaða áhrif sturtun vatnsborðsins, en það hef ég kallað vatnsborðsbreytingar af þessu tæi, hefur á fisk. Að líkindum tengist þetta því að fiskurinn vill forðast að lenda á þurru. Þegar vatnsborð lækkar snögglega hverfur bleikjan út á djúpið.

En áhrifin eru víðtækari. Í efsta lagi vatna er meginhluti lífsvirkninnar. Því hefur lækkun vatnsborðs miklu meiri áhrif en ætla mætti. Eitt af því sem gerst getur er að mýklak skaðist. Engar rannsóknir hafa farið fram á þessu. Snöggar vatnsborðsbreytingar hafa líka áhrif á Sogið sjálft. Þótt ekkert sé um það vitað, kæmi mér ekki á óvart að þær ættu þátt í hnignun laxveiða í Soginu.

Nú er líklega mesta hættan, sem að Þingvallavatni steðjar, af efnamengun frá jarðhitavirkjuninni á Nesjavöllum. Allt frá upphafi hefur verið ljóst að ýmis mengandi efni eru í gufu og afrennslinu þaðan enda alþekkt frá háhitasvæðum annars staðar. Nýlega var greint frá því að stórurriðinn í vatninu væri óhæfur til matar vegna kvikasilfursmengunar. Hvorki hefur verið athugað hvernig ástatt er með annan fisk, né fugl, til dæmis konung vatnsins, himbrimann.

Stundum hefur verið rætt um að breyta stíflunni við útfallið og hleypa vatni fram hjá henni, um leið sem væri fær fiski. Þetta hefur aldrei komist lengra en á umræðustig. Þó hefur Landsvirkjun undanfarin ár hleypt nokkru vatni um lokurnar niður í gljúfrið.

Bleikjan

Eins og fyrr var sagt eru fjórar gerðir, eða deilitegundir, bleikju í Þingvallavatni. Er það einstakt og sætir furðu því að þessi þróun bleikjunnar hefur orðið á aðeins liðugum tíu þúsund árum. Algengust er kuðunga- eða bobbableikjan. Hún lifir mest á snigli nokkrum sem aftur lifir á botngróðri. Kuðungableikjan getur orðið æði stór, allt upp í 6-7 pund, jafnvel stærri. Algengust er hún þó í kringum pundið. Hún þekkist best á því að hún er undirmynnt, neðri skolturinn er aftar en sá efri. Sílableikjan getur líka orðið allstór enda ránfiskur sem lifir mest á hornsílum en tekur allan smærri fisk eigi hún kost á því. Murta er frekar smávaxið bleikjuafbrigði, verður stærst 22-23 sentimetrar. Fjórða bleikjutegundin er svo dvergbleikja eða gjámurta, heldur ósjálegur fiskur og var kölluð ölfusingur, þegar ég var krakki. Stóra bleikjan,bæði sílableikjan og kuðungableikjan, er eins og gefur að skilja vinsælust meðal veiðimanna. Þó ber ekki að vanmeta murtuna. Hún er afbragsmatfiskur, og svo hefur hún komið mörgum ungum veiðimanninum á bragðið.

Veiðitími

Veiðileyfi eru seld í Þingvallavatn frá 1. maí til 1. september en í raun er hægt að veiða silung í vatninu nánast allan ársins hring. Það má þó ekki gera án leyfis og sérstaklega þarf að gæta þess að raska ekki griðum hrygningarfisks, hvort sem um er að ræða urriða sem hrygnir á haustin, eða bleikju sem fer að búa sig undir hrygningu seinni partinn í júlí. Nokkuð er misjafnt eftir árstíma hvaða tegundir best er að veiða. Á vorin kemur urriðinn fyrstur upp að en stór bleikja kemur reyndar um svipað leyti. Eftir því sem vatnið hitnar fer að lifna yfir öllu. Gróður vex og pöddurnar sem lifa á honum. Jafnframt verður fiskurinn örari í hreyfingum en eins og menn vita hefur fiskurinn misheitt blóð. Hreyfingar hans stýrast því af vatnshitanum. Lindirnar sem koma úr gjánum, mest í landi Þingvalla og Vatnskots, eru milli þriggja og fjögurra stiga heitar þegar þær koma í vatnið en sól og vindar hita vatnið á nokkrum vikum. Þegar komið er fram um miðjan júní er vatnið orðið sjö stiga heitt og þá hefst aðalveiðitími kuðungableikjunnar. Þegar vatnið hitnar enn meira kemur murtan upp og þá fer að verða snúnara að egna fyrir stóru systur hennar, bleikjuna.

Aðferðir

Eins og gefur að skilja heldur kuðungableikjan sig við botninn og er á beit, þar sem kuðungurinn étur sig í gegnum botngróðurinn. Kjördýpi hennar er frá u.þ.b.einum metra niður á fjögurra til fimm metra dýpi. Efri mörkin eru miðast sennilega við áhrif ölduróts. Þingvallahraun þekur stóran hluta botnsins. Það er helluhraun og utan í hraunhólunum eru ákjósanleg skilyrði fyrir kuðung, gróður og bleikju. Því er í raun lykilatriði að hitta á beitilönd bleikjunnar með agnið. Margir nota meðalþunga línu og þyngda flugu, eða flotlínu og langan taum. Gott er að þekkja svolítið landslagið á botninum en aðalatriðið er að flýta sér ekki. Margir telja í þegar flugan er komin út og búast má jafnvel við talsverðu flugutapi, af því að alltaf er hætta á festum, þegar flugan er dregin löturhægt með botni.

En svo er auðvitað best að alhæfa ekki. Þótt meginfæða kuðungableikjunnar sé bobbinn þá fúlsar hún ekki við annarri fæðu. Hún tekur til dæmis gjarnan flugu á yfirborði og sjálfsagt líka flugu sem er að kvikna og nánast hvaða pöddu sem hún á kost á. “Helvítis bleikjan étur allt”, sagði einn frændi minn, fæddur og alinn upp við vatnið, þegar líffræðingar birtu niðurstöður sínar um bleikjuna í vatninu. Bleikjan er sem sagt víðar en í hraunbollunum í Eldborgar- eða Skjaldbreiðarhrauni, sem eru á botninum frá Heiðarbæ að Dráttarhlíð. Hraunbotninn er líka sumstaðar þakinn möl og sandi og þar eru ágætir veiðistaðir. Það sem hér er sagt á fyrst og fremst við um kuðungableikjuna þótt oft sé að finna allar tegundir silungs á sömu slóðinni. Sílableikjan lifir mest á hornsíli en af þeim eru tvær tegundir í Þingvallavatni. Þau er helst að finna í síkjamarabreiðum sem eru á 5-20 metra dýpi. Þar getur því verið önugt að draga flugu þótt menn komist í kastfæri við þetta dýpi. En allt er þetta hægt.

Hvaða staðir?

Of langt er að telja alla veiðistaði í Þingvallavatni en einna frægastir í þjóðgarðinum eru Öfugsnáðinn og Lambhagi sem er nær gjánni Silfru og útrennsli Öxarár. Í raun er hægt að veiða ágætlega í nánast hverri einustu skvompu. Mynd 2 sýnir kort af vatninu fyrir landi Þjóðgarðsins.

Ekki er alltaf best að vaða upp undir hendur en þó getur það verið gott þegar líða tekur á. Í landi Kárastaða eru margir frábærir veiðistaðir í víkunum beggja vegna Rauðukusuness. Þar eru sums staðar álar og holur sem gefa betur en aðrir staðir. Í Skálabrekkulandi eru margir frægir staðir, m.a. fyrir urriða á vorin en þess ber að geta að í hluta Skálabrekkulands er öll veiði bönnuð vegna fuglaverndar. Á mörkum Skálabrekku og Heiðarbæjar er ós Móakotsár. Þar getur verið gaman. Margir veiðistaðir eru í landi Nesja en þar er ég ekki kunnugur. Í landi Nesjavalla eru frægir veiðistaðir en þar mundi ég ekki veiða mér til matar vegna mengunar. Í landi Hagavíkur og Ölfusvatns eru líka margir frægir veiðistaðir en ekki er auðvelt aðgöngu, lönd í einkaeign og ekki auðvelt að afla leyfa. Ölfusvatnsá og Villingavatnsá geyma líka staðbundna urriðastofna þótt sögur gangi um að þeir hafi verið stærri og stórvaxnari áður fyrr. Norðan vatnsins, austan Sogsins, er líka fjöldi veiðistaða. Fengsælir staðir eru í landi Miðfells, svo að ekki sé talað um Mjóanes, en það hefur löngum verið talin besta veiðijörðin við vatnið. Þar kemur svo að þjóðgarðinum, því að Arnarfell er nú innan hans. Þar eru margir skemmtilegir staðir, auk þess sem þetta er einhver al-fallegasti staðurinn við Þingvallavatn.

Teal and Black
Peacock
Watson’s Fancy
Héraeyra
Prince
Killer
Mobuto

Hvaða flugur?

Af því sem ég hafði eftir honum frænda mínum fyrr í greininni mætti halda að ekki skipti nú miklu máli hvaða fluga væri sett á taumendann. En það er nú öðru nær. Þegar ég var að komast til vits og ára voru helstu bleikjuflugur Black Zulu, Alexandra og Teal and Black. Segja má að þær séu svo sem í fullu gildi. En bylting varð þegar menn fóru að setja púpur undir. Fyrst kynntist ég Killer, svo kom Mobuto og loksins töfrafluga Kolbeins Grímssonar Peacock. Kúluhausarnir komu svo þessu öllu niður á trýnið á bleikjunni. Margar aðrar flugur ganga vel. Má þar nefna Watson´s Fancy púpu, héraeyra af ýmsum toga, Prince, að ógleymdum mörgum snilldarflugum Péturs Maack og Þórs Nielsen. Eitt hefur mér alltaf þótt merkilegt við Þingvallableikjuna. Hún er ekki bara dyntótt eins og kynsystur hennar annars staðar heldur er engu líkara en hún fylgi tískustraumum um val á flugum. Eitt árið tekur hún prinsinn grimmt en lítur ekki við honum árið eftir heldur vill bara héraeyra. Hið nýjasta um þessa dynti var það að í sumar tók hún á tímabili ekkert nema Black Gnat sem ég held að hún hafi varla litið við áður. Svona getur þetta verið!

Sigurður G. Tómasson.
© ÁRVÍK október 2009 og 2015

Kortin, sem birtast með greininni, eru unnin af Ólafi Valssyni.
© ÁRVÍK nóvember 2009

NÝJUSTU FRÉTTIR