Ragnar Hólm Ragnarsson er fæddur 1962 á Akureyri. Hann hefur verið virkur í félagsmálum veiðimanna og meðal annars verið formaður Ármanna, Landssambands stangaveiðifélaga og Stangaveiðifélags Akureyrar. Ragnar Hólm hefur skrifað mikið um veiðiskap fyrir netið og tímarit. Hann er nú annar aðalritstjóra veftímaritsins Flugufrétta. Ragnar Hólm sendi frá sér bókina „Fiskar & menn“ árið 2003 en þar er meðal annars að finna þau skrif sem hér eru birt með leyfi höfundar.

Hlíðarvatn í Selvogi – veiðilýsing

Hlíðarvatn í Selvogi er án efa meðal vinsælustu og bestu veiðivatna landsins. Það er meðalstórt eða um 3,32 km að flatarmáli og mesta mælda dýpi er um 5 metrar.
Hér á eftir ætlum við að fara frá austri til vesturs eftir strönd vatnsins, byrja austur við Rétt, sem svo er kallað, og enda á Mosatanga sem er í suðvestur horni vatnsins.
Leyfðar stangir í vatninu eru 14. Ármenn hafa 3 til umráða, Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar 5, Stangaveiðifélag Selfoss 2, Veiðifélagið Stakkavík 2 og Veiðifélag Þorlákshafnar 2.
Veiðar í Hlíðarvatni eru margslungnar en einföld uppskrift gæti þó hljóðað svo:

Agn: Peacock.
Lína: Intermediate.
Veiðistaðir: Kaldós og Botnavík.
Bráð: Ljúffeng bleikja.

Þeir sem eru óþolinmóðir og eiga leyfi í vatninu geta rokið strax af stað með þessar einföldu upplýsingar en hinir lesa áfram.
Sérfræðingar í Hlíðarvatni eru eflaust jafnmargir og boltarnir sem vatnið geymir. Þar eru án vafa nokkrir tugir yfir 7 pund, hundruð yfir 5 og fiskar á bilinu 3-5 pund skipta þúsundum. Flestar bleikjurnar eru hins vegar um pundið. Undirritaður er eins og bleikja í miðflokknum. Það er í mér sæmilegur fengur þegar að Hlíðarvatni kemur. Ég veit ýmsilegt en er þó alltaf tilbúinn að prófa eitthvað nýtt. Og ég læri eitthvað í hverri ferð. Þar af leiðandi skora ég á þá sem lesa þetta að taka það ekki of bókstaflega, nota það aðeins sem grunn að góðri veiðiferð og reyna síðan sjálfir eitthvað nýtt.
Áður en við byrjum veiðilýsinguna við Réttina er rétt að gera grein fyrir einu mikilvægu grundvallaratriði: Kastið undan vindi en festist ekki á stöðum sem gáfu best síðast jafnvel með storminn beint í fangið. Ég trúi því nefnilega að bleikjan leiti í skjólið, upp í vindinn þar sem aldan hefur ekki náð sér á strik. Ef ég ætla að gera góða hluti í Hlíðarvatni þá fylgist ég stundum með veðurlýsingum í 2-3 daga áður en ég fer. Segjum að það sé búin að vera stíf austan átt en síðan áttleysa þegar ég mæti á staðinn, þá byrja ég við Réttina. Ef það er búin að vera norðanátt dagana áður en ég á að fara að veiða þá fer ég á Mölina eða í Kaldós eða jafnvel í Skollabolla. Þótt áttin sé breytt daginn sem þú mætir til veiða þá gæti vel verið að bleikjan sé enn þar sem skjólgott var dagana áður. Málið er að kasta undan vindi – afar hentugt fyrir fluguveiðimenn.
Peacock er mjög vinsæl fluga hjá bleikjunum í Hlíðarvatni og vilja þær hafa hana í ýmsum stærðum, allt frá 10-14 gjarnan með kúluhaus. Aðrar vinsælar flugur sem geta gefið hörkuveiði einstaka daga eru til dæmis Dentist, Teal & Black, Zulu, Mobuto, Corixa, Connemara Black, Peter Ross og þurrflugur af ýmsu tagi. Þeir sem vilja vera öruggir með einhvern afla treysta hins vegar mest á Peacock.

Hlíðarey

Í einföldustu forskriftinni hér að ofan skrifaði ég Intermediate og Peacock en við byrjum strax á því að brjóta regluna því við Réttina, og raunar víðar, er oft gott að nota flotlínu. Þar er tiltölulega grunnt og maður notar langan taum, dregur hægt og bíður. Áætlun okkar um yfirferð frá austri til vesturs býður okkur að byrja úti í Hlíðarey. Þá er gengið til suðurs frá réttinni með vatninu og vaðinn grunnur sandfláki út í eyna. Þarna hef ég sjaldan lent í mokstri en þó er alltaf von og ég veit að menn hafa lent í torfum. Galdurinn er að finna tökustaðinn en hann getur verið breytilegur frá degi til dags. Gengið er með eynni og reynt með nokkurra metra millibili, það er aldrei að vita… Helstu staðirnir eru e.t.v. við enda eynnar þar sem kastað er í áttina að Hafnarfjarðarhúsinu, brúna húsinu með rauða þakið undir hlíðinni.

Réttin

Þegar gengið er til baka í áttina að réttinni, þar sem við lögðum bílnum, fara leyndardómarnir heldur að ágerast. Núna erum við að kasta á skvompur í botninum þar sem skerin standa næstum upp úr á milli og talsverð hætta er á festum. Í norðri eða norðvestri frá réttinni sjálfri eru tveir hólmar rétt við landið. Þetta sumarið gerðu álftarhjón sér myndarlegt hreiður í stærri hólmanum sem nær okkur er og best er að láta þau í friði (þau fóru af hreiðri með unga sína 16. júní). Út af báðum hólmunum er mikil fiskivon. Það má vaða beint út í þann sem nær er, en ekki er vel fært úr honum yfir í hinn nema að taka land á milli. Hvort tveggja mjög góðir staðir og þá ekki síst í austanátt. Þetta eru þeir staðir sem menn ganga helst að við Réttina en vel er reynandi á öllum töngum og grynningum út af henni.

Hjalltangi

Eins og áður sagði þá verður hér stiklað á stóru. Frá Réttinni yfir að Hjalltanga eru margir ágætir staðir, til dæmis Kjóaklöppin við Selfossbústaðinn. En næsti viðkomustaður okkar er Hjalltanginn. Þar hef ég oft lent í góðri veiði og þá ekki síst með því að kasta til suðurs eða suðausturs úr honum að litlu skeri sem þar er. Við hólmann er víða nokkuð aðdjúpt og veiðilegt að sama skapi.

Mölin

Fyrir framan Hafnarfjarðarhúsið er Mölin og teygir hún sig inn eftir Hlíðinni í vesturátt. Helsti staðurinn á Mölinni er niður undan gömlum húsatóftum sem þar eru og stundum liggur fiskurinn örlítið vestar, þar sem heitir Bunan. Sagt er að rétt undan landi á Mölinni spretti fram mikið vatn úr uppsprettum og því freistast sumir til að nota sökklínur til að ná flugunni niður. Intermediate er í það minnsta gáfulegt að nota. Þó getur fiskurinn auðvitað tekið uppi við yfirborðið hér eins og annars staðar ef sá gállinn er á honum. Hér þarf ekki löng köst og kjósa sumir að standa 2-3 metra undan landi og kasta með marbakkanum. Það er skynsamlegt því bleikjan er þar oft í hrönnum að tína upp kuðunga og annað góðgæti af grjótinu.

Urðarvík

Frá Mölinni og yfir að Urðarvík er lítið veitt. Urðarvíkin sjálf er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér, nema ef vera skyldi á haustin. Þar geta safnast saman gríðarlegar torfur af bleikju þegar sumri hallar og er rétt að gefa þeim gætur. Sjást þá svartir flekkir úti á vatninu, oft skammt undan landi, þannig að maður trúir vart sínum eigin augum.

Kaldós

Kaldósinn er einn vinsælasti staðurinn í vatninu og þar standa iðulega nokkrir veiðimenn við iðju sína. Þarna er einn aðalstaðurinn, og sá sem ég kalla Kaldós, á dýpinu beint undan tanganum eða hólnum sem hæst ber, spölkorn frá Urðarvík. Þá kasta menn beint út með intermediate línu og telja gjarnan meðan línan sekkur. Auðvitað getur fiskurinn tekið í yfirborðinu en þegar það er fullreynt má byrja á því að telja upp að 20 meðan línan sekkur og draga síðan hægt í land, reyna næst að telja upp að 30 o.s.frv. Bleikjan á það til að liggja djúpt þarna og oft er um vænan fisk að ræða. Það sem ég kalla Kaldós er á sumum kortum kallað Kleyfarvellir.

Kaldóshólmar

Sunnan eða suðaustan við Kaldósinn eru Kaldóshólmar, lítil sker sem liggja í boga út í vatnið og flæðir á milli þeirra. Þarna rétt undan eru oft góðir fiskar í æti á grunnu vatni. Hér myndi ég mæla með flotlínu og hægum drætti. Hægt er að brölta út eftir skerjunum og vaða töluvert lengra á grynningum. Þar tekur síðan við dýpi þar sem einnig getur leynst fiskur.

Djúpanef

Frá Kaldóshólmum er smáspölur að Djúpanefi. Eins og nafnið gefur kannski til kynna er þarna djúpt við landið og þarf varla að leiðbeina mönnum. Kastið út á dýpið, byrjið að veiða ofarlega eins og í Kaldósnum, en síðan dýpra. Hér geta menn nælt í boltafiska.

Skollabollar

Nú erum við komin yfir í Botnavík. Þetta er smátota inn úr vatninu sem geymir yfirleitt mikið magn af fiski og marga skemmtilega veiðistaði. Við byrjum í Skollabollum sem sumir kalla raunar Skollapolla. Syðst í þeim er hægt að vaða út frá litlum skerjum og veiða mikið grunn sem liggur norðvestur inn Botnavík, beint á móti Réttarnesi. Þarna getur verið töluvert magn af fiski og við góð skilyrði má standa á grunninu með vatn upp undir mitti og veiða allt í kringum sig. Skollabollarnir sjálfir eru dulúðugur veiðistaður sem getur geymt fiska alveg upp við land. Þetta er misdjúpt svæði þar sem fiskurinn liggur gjarnan í bollunum en étur ef til vill kuðunga og annað æti af grjótgrynningum.

Austurnes

Mér finnst Austurnes hafa daprast sem veiðistaður á síðari árum. Kasta má af því til allra átta en aðalveiðistaðir eru líklega beint fram undan nesinu og vestan við það inn víkina. Totan norður af Austurnesi fyllist oft af silungi þegar líður að hausti.

Réttarnes

Öll Botnavík getur verið einn samfelldur veiðistaður og skynsamlegt er að reyna fluguna með stuttu millibili af bakkanum þegar gengið er frá Austurnesi að Réttarnesi (einnig er hægt að keyra beint þangað eftir slóðanum að húsi Stakkavíkurfélagsins). Sérstaklega er spennandi að reyna fyrir sér á grunninu sem gengur út í vatnið fyrir enda víkurinnar og eins undir bakkanum þegar nálgast er Réttarnesið sjálft. Grunnið við Réttarnes getur verið krökkt af bleikju og þar lenda menn stundum í sannkallaðri veislu. Hins vegar getur það verið steindautt inn á milli og þá borgar sig að staldra ekki lengi við. Hér veiða menn gjarnan með flotlínu og draga hægt.

Gamlavör

Við bakkann frá Réttarnesi að Gömluvör er mjög aðdjúpt víða en engir afgerandi veiðistaðir merktir á kort, enda er bleikjan oftar en ekki í tökustuðinu þegar hún er komin upp á grunn en liggur ef til vill frekar á meltunni á mjög djúpu vatni. Þegar komið er að Gömluvör ber að fara varlega því þarna getur fiskurinn verið mjög nálægt landi og styggur er hann. Gott er að standa innst í vörinni og kasta út með austurtanganum. Lengra til vesturs í Gömluvör er veiðilegt mjög en takan yfirleitt dræm.

Stakkavík

Hér byrja menn gjarnan á vorin en veiðistaðurinn verður slakari eftir því sem líður á sumarið, enda fyllist hér allt af gróðri sem erfitt er að draga fluguna í gegnum. Pollurinn beint niður undan Stakkavíkurhúsinu er gjöfull veiðistaður en fremur grunnur og best að nota flotlínu. Gengið er niður troðning að vatninu og síðan haldið aðeins út með til suðausturs. Þar er hægt að vaða út á sandfláka og kasta í pollinn sjálfan. Vaðið er í boga inn Stakkavík í áttina að steini sem stendur upp úr vatninu hinum megin við pollinn. Varla verður komist lengra en upp á grjótið þar. Alls staðar í Stakkavík, milli grynninga og uppi á þeim, getur leynst fiskur, einkum snemmsumars, og er hægt að vaða þar víða um.

Mosatangi

Næsti eiginlegi veiðistaður, og sá síðasti sem ég tek til umfjöllunar, er hins vegar Mosatangi, hinum megin í víkinni. Best er að keyra að honum niður á eiðið og er þá farinn næsti slóði vestan við veginn niður að Stakkavík. Bílnum er lagt skammt frá girðingu sem þarna er og gengið sem leið liggur niður á Mosatanga sem er vestan megin við girðinguna, eiginlega innst í Stakkavík. Þarna getur oft legið stór fiskur en eins og annars staðar í Stakkavík þá myndast þarna miklar gróðurbreiður í vatninu þegar líður á sumar og gerir það veiðimönnum oft erfitt fyrir.

Þá er lokið stuttri yfirferð um helstu veiðistaði í Hlíðarvatni í Selvogi. Ég vil brýna fyrir veiðimönnum að ganga vel um og skilja ekkert eftir nema sporin sín. Girnisflækjur, gosdrykkjaumbúðir og annað drasl á ekki að sjást á bökkum Hlíðarvatns, fremur en annarra veiðislóða.
Notið ímyndunaraflið og reynið eitthvað nýtt. Enginn skyldi fara eftir þessum leiðbeiningum mínum í blindni en ég vona hins vegar að þær geti orðið grunnur að ánægjulegri veiðiferð. Góða skemmtun!

Svartir flekkir af bleikju

Það er margt skrýtið í kýrhausnum og ekki síður í veiðiskapnum. Ég hélt að þessari vertíð væri lokið þegar ég átti óvænt kost á að skjótast í Hlíðarvatn í byrjun október. Eins og svo oft áður hafði verið ákveðið að framlengja veiðina þar um hálfan mánuð og mér höfðu borist til eyrna sögur af mikilli veiði. Ákveðið var að renna suður eftir og kanna málið.
Rétt er að taka fram áður en lengra er haldið að félagi Kolbeinn Grímsson hefur verið óþreytandi við að segja mér sögur af ótrúlegri haustveiði í Hlíðarvatni hér á árum áður. Þá voru leyfin í september einna eftirsóttust og menn stóðu þétt saman undir hlíðinni, á Mölinni, við Hjalltangann og í Urðarvíkinni, og mokuðu upp geldfiski.
Nokkrum sinnum á síðustu árum höfum við Kolbeinn farið í Hlíðarvatn að hausti til að upplifa ævintýrið en alltaf farið tómhentir heim. Raunar hafa eldri menn haldið því fram að laxinn hafi spillt haustveiðinni og splundrað torfum sem í gamla daga lágu nærri landi á haustmánuðum. Fyrir fjórum árum sá ég sjálfur nokkra laxa djöflast í lausu lofti í Urðarvíkinni í september. Þetta var kannski ein ástæðan fyrir því að girt var fyrir ósinn til að laxinn kæmist ekki í vatnið, enda eru þetta tæpast náttúruleg heimkynni hans.
Og þar sem haustveiðin hefur brugðist gjörsamlega á undanförnum árum hafa Ármenn verið latir við að sækja vatnið í september. Sókn hefur verið lítil og veiði þar af leiðandi líka. Mér segir svo hugur að þetta eigi eftir að breytast svo um munar.
Nú vorum við Kolbeinn sem sagt lagðir af stað í Hlíðarvatn á köldum haustdegi ásamt Hannesi Jóhannssyni. Á leiðinni hlustaði ég hæglátur á Kolbein segja Hannesi tröllasögur af haustveiðinni en ég verð að játa að eftir nokkrar fýluferðir undanfarin ár var ég fullur efasemda.
Þegar við komum loks á Innranef og horfðum út yfir vatnið var mér hins vegar öllum lokið. Ég varð agndofa og átti bágt með að trúa eigin augum. Annað eins hafði ég aldrei séð. Þarna rétt undan landi voru svartir flekkir af bleikju. Torfurnar voru að minnsta kosti þrjár og vel í kastfæri. Enda fór það svo að við fengum um 30 stykki og hefðum vel getað veitt miklu meira. En Ármenn eru hófsamir í veiði.
Auðvitað sagði Kolbeinn satt. Haustveiðin í Hlíðarvatni getur verið algjört ævintýri, eða eins og Kolbeinn orðar það gjarnan sjálfur: „Þeir sögðu það gömlu mennirnir og þeir vissu nú hvað þeir sungu.“

NÝJUSTU FRÉTTIR