Rannsókn á Hlíðarvatni í Selvogi 2012
Hugrenningar um skýrslu Veiðimálastofnunar

Veiðimálastofnun (VMST) lauk í mars 2013 úrvinnslu gagna vegna rannsóknar stofnunarinnar á Hlíðarvatni í Selvogi frá haustinu áður. Voru niðurstöðurnar kynntar á fundi með félögunum, sem hafa aðstöðu við vatnið, hinn 3. apríl 2013 í húsakynnum Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar. Í upphafi kynnti Friðþjófur Árnason helstu atriði skýrslunnar. Kynningu hans má finna hér. Þá kynnti Árni Kristmundsson rannsókn sína á tilvist PKD nýrnasýkingar. Kynningu hans má finna hér. Skýrslu VMST í heild má finna hér.

Hlíðarvatn er frjósamt vatn, sem býður bleikju hagfelld fæðuskilyrði, enda er bleikjan ,,nær eingöngu staðbundin í vatninu og á lítið erindi niður í ós vatnsins“ eins og rakið er í skýrslunni. Fiskurinn í vatninu er vel haldinn og virðist vera nánast laus við sníkjudýr. Þá hefur himbrima fjölgað á vatninu sem bendir til að þar sé nægan fisk að finna.

Til þess að afla efniviðar fyrir rannsóknina var lögð netasería með 10 netum með mismunandi möskvastærð hinn 4. september 2012. Þessi tími var valinn til þess að hámarka líkur á finna sýkingu vegna PKD nýrnasýkingar, ef hún væri til staðar. Alls veiddust 85 bleikjur og fjórar flundrur í seríuna. Er það minni afli en fékkst með sömu aðferð 2008 en meiri afli en veiddist 1997. Þessar aflatölur segja lítið um stofnstærð en stærðardreifing aflans var svipuð bæði árin. Hlutfall fiska sem voru lengri en 36 cm er nánast það sama bæði árin 2012 og 2008.

Nokkrar athuganir eru til á fæðu silungs í Hlíðarvatni. Hún er breytileg eftir árstíma og framboði fæðu. Á vorin eru vatnabobbar uppistaðan eðlilega eftir veturinn en rykmýspúpur gefa magafylli yfir sumarið. Mikið var um mý sumarið 2012 svo að eftir var tekið. Uppistaðan í fæðu sýnanna var hins vegar vatnabobbar sem bendir til að fiskurinn hafi frekar verið að nærast við botninn en síður í efri lögum vatnsins. Fæðugerðirnar voru heldur ekki eins fjölbreyttar og t.d. árið 2008.

Fyrstu athuganir bentu ekki til þess að PKD nýrnasýki væri til staðar í bleikjunni. Nánari rannsókn með smásjá og mótefnalitun á völdum sýnum, sem voru talin líklegust að sýna hvort PKD nýrnasýkin væri til staðar, leiddi hins vegar í ljós, að svo hafði verið. Sýnin voru hins vegar á batavegi sem bendir til þess að bleikjan hefði náð tökum á sýkingunni. Enginn fiskanna hafði ,,stórsæ sjúkdómseinkenni“ eins og sést hafa á fiski í öðrum vötnum Suð-vestanlands. Rannsóknin gat ekki leitt í ljós hvort einhver fiskur hafi drepist úr þessari nýrnasýki. Svo kann að vera en er ekki sjálfgefið. Vitað er að stofnar bleikju geta verið misnæmir fyrir þessum sjúkdómi. Í þessu tilviki eru góðu fréttirnar þær að sá sýkti fiskur, sem fannst, er á batavegi. Hann er jafngóður matfiskur og áður og getur eignast heilbrigð afkvæmi. Náttúran mun á endanum velja úr þá einstaklinga sem best standast þessa sýkingu, sem virðist komin til að vera og nær sér helst á strik þegar vatnshitinn er langtímum yfir 12°C.

Hiti vatnsins var mældur á tveimur stöðum yfir sumarið. Reyndist hitinn vera 14°C að meðaltali á miðju vatni á 2,5 metra dýpi en 14,7°C á fjörusvæði við Marknes. Vatnshitinn á fjörusvæðinu var 1,4°C hærri en sambærileg mæling sýndi 2008. Sumarið 2012 var einnig sólríkt og þurrt í Selvoginum þannig að sólin var fljót að verma vatnið þar sem sandbotn er nálægt landi. Líklegt má telja að þessi óvenju hái vatnshiti hafi fengið bleikjuna til þess að leita til staða í vatninu þar sem vatnsleysur eru og kalt vatn streymir inn. Ekkert yfirborðsvatn rennur í Hlíðarvatn en útfall úr vatninu við Vogsós er það mikið að vatnið endurnýjar sig á 39 sólarhringum. Veiði er ekki leyfð frá bát en spurning er hvort breyta ætti þeirri ákvörðun, t.d. í júlí, þegar vatnshiti er hærri og bleikjan kann að hafa leitað út á djúpið. Veiði frá bát fylgir alltaf einhver slysahætta og einnig ónæði fyrir þá sem veiða frá landi en það er ástæðan fyrir banninu.

Flundra hefur hin síðari ár sótt upp í Hlíðarvatn. Hún hefur ekki reynst vinsæl meðal stangveiðimanna þótt hún sé ágætur matfiskur og taki agn. Flundran er í samkeppni við bleikjuna um fæði og étur jafnvel bleikjuseiði. Til þess að torvelda göngu flundru í vatnið var gerð fyrirstaða úr stórgrýti snemma árs 2010. Rannsóknin bendir til þess að fyrirstaðan torveldi og tefji far flundrunnar upp í vatnið. Við rafveiðar ofan og neðan fyrirstöðunnar veiddist flundra einungis neðan hennar og helmingi færri veiddust í tilraunanet en raunin var 2008. Það er skoðun skýrsluhöfunda að fyrirstaðan ,,ætti ekki að hafa neikvæð áhrif á lífríkið svo framarlega sem vatnsborðið haldist stöðugt“. Svipaðri fyrirstöðu hefur verið komið fyrir í Andakílsá og virðist hún skila nokkrum árangri að sögn kunnugra.

Ofangreindur útdráttur úr skýrslunni og hugleiðingar eru hugsaðar sem innlegg í þær umræður sem fram munu fara í félögunum um skýrsluna.

Garðabæ 28. maí 2013

Árni Árnason

NÝJUSTU FRÉTTIR