Hlíðarvatn – kynningarbæklingur um vatnið


Stangveiðifélagið Stakkavík gekkst fyrir því sumarið 2012 að gefinn var út kynningar-bæklingur um Hlíðarvatn í Selvogi. Útgáfan var unnin í samráði við stangaveiðifélögin sem hafa aðstöðu við vatnið.

Forsíða bæklingsins

Bæklingurinn var að nokkru unnin upp úr greinum og frásögnum, sem hafa birst áður, m.a. hér á heimasíðunni. Greinarnar voru hins vegar yfirfarnar og endurskoðaðar með tilliti til þess að mynda eina heild. Bæklingurinn hefst á yfirlitsgrein um Hlíðarvatn eftir Árna Árnason. Einar Falur Ingólfsson ritar grein, sem hann nefnir ,,Sumarið birtist í Selvoginum” en sú grein hafði áður birst í Sunnudagsmogganum í maí 2011. Ragnar Hólm Ragnarsson endurskoðaði grein sína um helstu veiðistaði við vatnið og birtist hún nú með ýmsum ljósmyndum sem Rafn Hafnfjörð tók en hann var einn af hvatamönnum þessa bæklings. Þá er að finna í bæklingnum myndir af nokkrum fengsælum flugum sem hafa reynst vel við veiðar í vatninu. Flugurnar hnýtti Engilbert Jensen.

Haustveiðin getur oft verið góð í vatninu þegar bleikjan safnast í torfur sem stundum ganga með landinu. Ragnar Hólm segir frá einni slíkri ferð í grein sem hann nefnir ,,Haustar í Selvoginum”.

Loks er í bæklingnum að finna stutta frásögn af Strandarkirkju en kirkjan á jarðirnar sem umlykja vatnið og veiðiréttinn í vatninu. Á miðopnu er loftmynd af vatninu með merkingum helstu veiðistaða. Merkinguna annaðist Vignir B. Árnason en Þórarinn Snorrason á Vogsósum yfirfór merkingar.

Hér má finna bæklinginn í heild sinni sem pdf – skjal. Gerð hefur verið ein leiðrétting á bæklingnum frá prentuðu útgáfunni, en hún er sú, að mynd á bls. 16 af fyrirstöðunni við Vogsós var tekin af Einari Helgasyni. Þessi fyrirstaða var sett til þess að torvelda flundru leið upp í vatnið. Sú framkvæmd hefur skilað nokkrum árangri og orðið fyrirmynd um slíkar framkvæmdir annars staðar, t.d. í Andakílsá.

NÝJUSTU FRÉTTIR