Hlíðarvatn í Selvogi

Hlíðarvatn í Selvogi er eitt gjöfulasta vatn til bleikjuveiði á landinu. Vatnið er 332 hektarar að flatarmáli eða 3,3 ferkílómetrar. Það er fremur grunnt og meðaldýpi þess er um 2,9 metrar. Mesta dýpi er fimm metrar samkvæmt mælingum í apríl 1964(1) Afrennsli úr vatninu er Vogsós(2) en ekkert sjáanlegt yfirborðsvatn rennur í vatnið. Af rúmmáli vatnsins og afrennsli má ráða að það endurnýjar sig á tæpum 39 sólarhringum(3). Hins vegar eru vatnsleysur víða í vatninu sjálfu og skapa kjöraðstæður fyrir bleikjuna og hrygningu hennar. Sumar heimildir geta þess að það gæti flóðs og fjöru í vatninu en það er ekki rétt að sögn heimamanna. Að vísu hækkar í ósnum við flóð en sjór gengur ekki upp í vatnið reglulega. Hlíðarvatn er ekki nægilega salt til þess að kallast ísalt en saltstyrkurinn er þó fimmfaldur í samanburði við önnur fersk lindarvötn(4) enda fýkur saltur sjór yfir eiðið í stórstraumi og sterkri hafátt.

Vatnið er mjög frjósamt. Til marks um það gengur bleikjan ekki til sjávar þótt hún eigi greiða leið þar sem rennur úr vatninu um Vogsós. Á seinni árum hefur flundra tekið að sækja í vatnið til ætisöflunar. Einnig hefur lax villst í vatnið svo og regnbogasilungur. Kvað svo rammt að þessu, þegar laxeldi var við Vestmannaeyjar, að Stangveiðifélagið Stakkavík sótti um það til landbúnaðarráðuneytisins, 30. maí 1996, að fá að koma fyrir gildru í ósnum til þess að varna því að lax villtist upp í vatnið(5). Talið var að laxinn spillti hrygningu í vatninu. Gildrunni var komið fyrir. Samsetning aflans í gildruna ári síðar er athyglisverð. Á tímabilinu maí til og með september veiddust 127 laxar í gildruna en einungis í ágúst og september. Sjö regnbogasilungar veiddust og í sömu mánuðum. Einungis 12 bleikjur veiddust og dreifðist sá litli afli nokkuð jafnt á alla fimm mánuðina. Ein bleikja veiddist í maí og mest fjórar í júlí sem sýnir að bleikjan er ekki mikið á ferðinni milli vatns og sjávar(6).

Hlíðarvatn er í eigu Strandarkirkju en kirkjan á jarðirnar fjórar sem umlykja vatnið. Þetta eru eyðijarðirnar Hlíð og Stakkavík svo og jarðirnar Vogsósar I og II þar sem búskapur er stundaður. Myndin hér að neðan er af Strandarkirkju og er horft til kirkjunnar yfir vatnið. Vogsósar II er nýbýli sem stofnað var árið 1954 á helmingi jarðarinnar Vogsósa. Þar búa nú Þórarinn Snorrason og kona hans, Jóhanna. Sonur þeirra, Snorri Óskar, býr á Vogsósum I(7). Af öðrum ábúendum á Vogsósum fyrr á árum má nefna séra Eirík Magnússon (1667-1716) sem talinn var rammgöldróttur og sagt er frá í þjóðsögum Jóns Árnasonar(8). Menn trúðu því að Eiríkur hefði magnað fisk í Hlíðarvatn en aðrir þakka Strandarkirkju aflasældina(9). Náttúruleg skilyrði í vatninu skemma vafalust heldur ekki fyrir. Jörðin Hlíð hefur verið í eyði frá árinu 1906 en síðasti ábúandi á jörðinni Stakkavík flutti þaðan árið 1943. Þá var jörðin leigð út til Kjartans Sveinssonar skjalavarðar (1901-1977) og hafði hann jörðina á leigu og seldi veiðirétt í vatninu uns hann lést á árinu 1977(10). Áhugi var á að koma jörðinni aftur í ábúð en þær tilraunir urðu að engu. Úr því varð málarekstur sem endaði fyrir Hæstarétti í árslok 1954(11).

Það var Páll Hallgrímsson, þá sýslumaður Árnesinga og umsjónarmaður með eignum Strandarkirkju, sem beitti sér fyrir því árið 1978 að stofnaður var félagsskapur, Stangveiðifélagið Stakkavík, í þeim tilgangi að hafa umsjón með vatninu og leigu á veiði í Hlíðarvatni. Félaginu var ekki ætlað að skila hagnaði og skyldi öllum arði af starfsemi þess varið í þágu vatnsins og Strandarkirkju. Páll kvaddi til ellefu manns til þess að mynda félagið. Tveir komu frá Stangaveiðifélagi Hafnarfjarðar, tveir frá Ármönnum, þrír frá Selfossi, tveir voru búandi í héraði, annar í Ölfusi og hinn í Selvogi, sá tíundi var valinn vegna þekkingar á fiskeldi en sá ellefti átti að annast endurskoðun á fjárhag félagsins. Leigusamningur við félagið var gerður hinn 7. febrúar 1978 til tíu ára. Hann var framlengdur nokkrum sinnum, fyrst af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og síðar af biskupsstofu.

Núverandi samningur við Stangveiðifélagið Stakkavík var gerður fyrir hönd Kirkjuráðs 9. apríl 2003 og gildir hann út árið 2013. Samningurinn er um leigu á eyðijörðunum Hlíð og Stakkavík. Samhliða var gerður samningur við Vogsósabændur um leigu á veiðirétti jarða þeirra til sama tíma. Stakkavíkurfélagið hefur samhliða gert samninga við samstarfsfélög sín og eru þeir samningar til sama tíma. Öll stangveiðifélögin greiða sömu leigu á stangardag fyrir veiði í vatninu. Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar hefur fimm stangir í vatninu, Ármenn þrjár, Árblik í Þorlákshöfn tvær, Stangaveiðifélag Selfoss tvær og Stangveiðifélagið Stakkavík einnig tvær. Alls eru því 14 stangir í vatninu. Veiðitíminn er frá 1. maí til loka september en félögin geta nýtt aprílmánuð og fyrstu tíu daga októbermánaðar til veiða án endurgjalds. Þessi tími er hugsaður til hagsbóta fyrir félögin vilji þau fá félaga sína til vinnu við veiðihúsin eða önnur verkefni við vatnið. Sú sérstaka hefð hefur skapast að á hverju vori, í lok apríl, hafa félögin tekið höndum saman og gengið strandlengjuna og hreinsað allt rusl við vatnið.

Af merkustu framkvæmdum Stangveiðifélagsins Stakkavíkur má tvímælalaust nefna framkvæmdir við sjóvarnargarð á Víðisandi. Félagið stóð í tvígang fyrir endurbótum á garðinum, seinast á árinu 1996. Félagið hélt svo áfram uppgræðslu til þess að binda jarðveg og verja þannig vatnið. Upphaf þessa verks má rekja til ársins 1990 þegar Stangveiðifélagið Stakkavík fékk Jón Jónsson jarðfræðing til þess að gera tillögur um leiðir til varnar því að sjór flæddi inn í vatnið og örlög þess yrðu þau sömu og Herdísarvíkur. Í Herdísarvík var á árum áður mikill apalgrýtisgrandi framan við tjörnina. Hann mun hafa horfið laust eftir árið 1984 og varð tjörnin þá að hafsvík(12). Áður hafði bleikjuveiði verið í Herdísarvík. Gils Guðmundsson segir svo frá í bók sinni Væringinn mikli að Hlín Johnson, kona Einars Benediktssonar, hafi stundað silungsveiði í Tjörninni sem þá var í túninu í Herdísarvík(13). Ótti manna var að Hlíðarvatni biðu sömu örlög enda gekk spá Jóns út á það að vatnið hyrfi á næstu 60 árum ef ekkert væri að gert. Vegna þessara framkvæmda hefur sú spá ekki ræst. Nýr Suðurstrandarvegur, sem mun verða lagður um Víðisand, tryggir vonandi endanlega að sjó verði haldið frá vatninu.

Frá aldamótum hefur veiðin í Hlíðarvatni verið á bilinu 1.480 til 3.880 fiskar á ári skv. árlegri samantekt Veiðimálastofnunar(14). Fiskurinn hefur farið stækkandi hin síðari ár.

Stærsti fiskur, sem ég hef veitt í vatninu, var 59 sm hængur, 2,3 kg að þyngd sem tók flugu sem heitir Alma Rún af stærð nr.10, hnýtt á B175 Kamasan-öngul. Á meðfylgjandi mynd má sjá þá saman, hænginn og greinarhöfund. Margir hafa veitt jafnstóra fiska og jafnvel enn stærri hin síðari ár. Ríkharður Hjálmarsson veiddi t.d. 3,4 kg bleikju í maí 2008 sem þá var talinn stærsti fiskur úr vatninu sem veiddur er á flugu(15) þar til Omar Awad bætti um betur og landaði 3,5 kg bleikju úr vatninu sama sumarið(26). Á árinu 1965 fékk Sveinn Björnsson álíka stóra bleikju úr vatninu. Var hún sjö pund og veidd á spón(16). Í maí árið 2004 veiddi Róbert Rósmann sex punda bleikju(17) og Sigursteinn Húbertsson fékk bleikju sömu stærðar á árinu 1997.

Ásgeir Guðbjartsson fékk að renna í vatnið við annan mann hinn 12. september 2008 ef enginn væri þar við veiðar. Engir veiðimenn voru sjáanlegir svo að hann reyndi fyrir sér á Mölinni. Fékk hann þar væna bleikju sem reyndist 4,4 kíló slægð og heimkomin. Meðfylgjandi mynd er af bleikjunni sem tók litla Watson´s Fancy tvíkrækju sem hnýtt var af Friðbergi Guðmundssyni (1919-1987). Ásgeir hefur áður veitt 8 punda hrygnu í vatninu, aðra 7 punda og þá fjórðu 6 punda. Einnig hefur hann veitt lax í Hlíðarvatni svo og regnbogasilung. Bleikja Ásgeirs er, mér vitanlega, sú stærsta sem veiðst hefur í vatninu. Sögunni fylgdi að hún væri 36 sm en líklega var tommustokknum haldið öfugt. Hún hefur sennilega verið nálægt 80 sm og yfir 10 pund óslægð.

Telja má líklegt að sókn ráði miklu um afla hvers sumars úr vatninu. Veiðileyfi hafa verið ódýr, þótt þau séu eftirsótt, sérstaklega fyrri hluta sumars. Annríki í atvinnulífi og vont veður hafa e.t.v. stundum orðið þess valdandi að menn hafa ekki nýtt leyfi sín. Ég hef iðulega verið einn við vatnið á liðnum uppgangsárum þó að ekkert væri að veðri. Sérstaklega er áberandi að veiði í september hefur fallið mjög niður vegna lítillar sóknar. Þó er þessi tími oft ágætur til veiði en þá gengur bleikjan í torfum með ströndinni. Þótt hrygningarfiskurinn taki ekki alltaf vel er geldfiskur í ætisleit innan um sem oft tekur vel. Bestu veiðina hef ég haft í september.

Á vorin er oft besta veiðin í vatninu að vestanverðu. Á þeim stað er sandbotn og grunnt þannig að vatnið hitnar þar fyrst. Þegar svartur sandurinn hitnar fer mýið af stað og bleikjan sækir í púpurnar sem leita til yfirborðsins. Veiðistaðir eins og Stakkavík (ranglega kölluð Botnavík í Stangveiðihandbókinni(18)), Mosatangi, Flathólmi, Guðrúnarvík og Gunnutangi gefast þá vel. Þessir veiðistaðir geta einnig gefið vel í vestanátt en yfirleitt virðist gefast betur að veiða undan vindi við vatnið þar sem aldan er minni vegna skjóls frá landi. Hlíðarey, Réttin og svæðið þar í nánd er annar hluti vatnsins þar sem aðstæður eru svipaðar. Á þeim stöðum ætti að reyna snemma vors og yfir sumarið undan vindi. Þar er aðgrunnt og sandbotn víða.

Ein leið til þess að ákveða hvar skuli bera niður við veiðar er að fylgjast með himbrimanum. Hann er flinkur við silungsveiðar og veit hvar fisk er að finna. Annars er það svo að viðvera veiðimanna í húsum félaganna virðist ráða töluverðu um það hvar menn reyna fyrir sér. Þannig er veiði Hafnfirðinga áberandi út frá Hjalltanga og Hlíðarey þótt þeir af einhverjum ástæðum gleymi stundum Mölinni (Bununni) sem er oft afar góður veiðistaður, steinsnar frá húsi þeirra. Stakkavíkurmenn sækja sennilega meira í Gömluvör og á Stöðulnefið en aðrir. Ármenn veiða meira í Botnavík, Réttarnesi, Skollapollum, Austurnesi og Kaldós enda stendur hús þeirra fyrir botni Botnavíkur. Hús Árbliks er þar einnig þannig að eðlilegt er að margir sæki í Botnavíkina. Hún er oft gjöfull veiðistaður og fisk getur verið að finna frá bakkanum alla víkina, síst þó þegar mikil alda gengur beint inn í hana. Menn mega þó ekki gleyma öðrum stöðum. Ég vil þar t.d. nefna Innranef og Urðarvík í vestanátt. Erfiðara er að komast niður að Urðarnefinu en þar má einnig oft fá góða veiði. Mikilvægast er að leita fyrir sér. Bleikjan færir sig til eftir fæðuframboði, veðri og vindum. Besta ráðið er þess vegna: Leitið og þér munuð finna. Á meðfylgjandi loftmynd eru sýndir helstu veiðstaðir. Merkingarnar voru færðar inn af Vigni B. Árnasyni. Hann hefur lengi veitt í vatninu og þekkir vel til aðstæðna.

Framboð á fæðu gefur veiðimönnum ákveðnar vísbendingar um agn sem rétt er að beita vilji þeir líkja eftir lífríkinu. Veiði á maðk og annað lifandi agn er að vísu ekki leyfð í vatninu heldur einungis veiði á spón og flugu. Mepps-spónn, silfraður, hefur reynst mörgum ágætlega en flestir beita flugunni. Flugan má þó líkjast hornsíli en þau eru stór hluti fæðu stærri fiskanna(19). Á vorin eru vatnabobbar (Lymnaea peregra) ríkjandi í fæðunni og virðast vera sú magafylli sem bleikjan tekur með sér úr djúpinu upp á grynningarnar þegar mýflugan fer að klekjast út. Púpur rykmýsins (Chironomidae) eru ríkjandi í fæðunni allan veiðitímann eins og rannsóknir sýna(20). Stundum má sjá þykkt lag af púpuhýði í flæðarmálinu. Þá má einnig, í logni, stundum sjá fjölda rykmýsstrokka með ströndinni. Mýið er af öllum stærðum, frá minnsta rykmýi til stóru-toppflugu. Viðgangur rykmýsins er misjafn milli ára, en að sögn ábúenda á Vogsósum var viðkoman slík sumarið 2010 og langt fram á haust að oft var erfitt að fara milli húsa.

Lirfa rykmýsins er áhugaverð, sérstaklega sú rauða, blóðormurinn, sem er algengasta tegundin í Hlíðarvatni. Rauða litarefnið í blóðinu, hemoglóbín, gefur lirfunni rauða litinn og gerir henni kleift að lifa þótt súrefni sé takmarkað(21). Lirfan getur orðið allt að 20 mm löng(22). Hún lifir í leðjubotni þar sem súrefni er af skornum skammti. Blóðormseftirlíkingar reynast þess vegna vel svo og flugur með rauðu í svo sem Watson‘s Fancy-púpan, Copper John, Hlíðarvatnspúpan og flugan Krókurinn eftir Gylfa Kristjánsson (1948-2007). Sterk eftirlíking af mýflugupúpu er Toppflugupúpa Engilberts Jensen. Hún og aðrar svipaðar útgáfur geta einnig gefið vel og oft þeim mun betur eftir því sem þær eru smærri. Takan verður þá stundum naum en fiskurinn getur verið vænn.

Góð leið til þess að kanna lífríkið er að velta við steinum í fjörunni. Undir steinum má iðulega sjá þrenns konar lífverur: (1) Vatnabobba, (2) ferskvatnsfló (Gammarus pulex) en hún líkist marflónni (Gammarus duebeni) og (3) lítil sandhylki, híbýli lirfu vorflugunnar (Trichoptera). Ýmsar eftirlíkingar eru til af þessum híbýlum, þar sem lirfan gægist út, en þekktasta útgáfan hér á landi er flugan Peacock sem eignuð er Kolbeini Grímssyni (1921-2006), frænda mínum(23). Menn virðast hnýta þessa flugu með ýmsum hætti þótt helsta hnýtingarefnið sé það sama, fanir úr stélfjöðrum páfuglsins (Peacock). Sjálfur hnýti ég þessa flugu á straumfluguöngul, t.d. Kamasan B800 nr.10. Flugur sumra eru eins og smávindill en náttúrulega útgáfan er sívalningur litlu meira en millimetri í þvermál. Peacock hefur verið ein aflahæsta flugan í Hlíðarvatni til margra ára en í ár, 2008, hafði Krókurinn hans Gylfa vinninginn hjá Ármönnum og Peacock var í öðru sæti. Í aflatölum Stangaveiðfélags Hafnarfjarðar hafði Peacock hins vegar vinninginn afgerandi árið 2008. Ný fluga, Alma Rún, hefur rutt sér til rúms hin síðari ár. Hún minnir silunginn e.t.v. einnig á hús vorflugunnar þótt fiskar séu ekki taldir minnugir.

Þótt lirfa vorflugunnar fari á vergang í öldurótinu og verði bleikjunni að bráð þegar hvessir er púpa vorflugunnar mun reglulegar á matseðlinum. Tvær tegundir vorflugupúpa hafa einkum greinst í fæðu bleikjunnar (Apatania zonella og Limnephilus affinis)(24). Samt virðast menn ekki reyna mikið eftirlíkingar af vorflugupúpunni eins og hún lítur út þegar hún leitar yfirborðsins. Reyndar eru ekki til neinar sérstaklega þekktar eftirlíkingar en benda má á góða grein í sumarhefti Flyfishing & Tying Journal 2006. Þar fjallar Jim Schollmeyer um veiðar með vorflugueftirlíkingum og birtir góðar myndir af frummyndum og eftirlíkingum(25).

Þriðji félaginn undir steininum var ferskvatnsflóin. Hún hniprar sig saman þegar ljósið fellur á hana og hætta steðjar að. E.t.v. þess vegna vilja menn gjarnan hnýta hana á Grubber-öngul sem sýnir slíkar útlínur og lögun. Þó má ekki gleymast að ferskvatnsrækjan réttir vel úr sér þegar hún syndir og liggur þá bein í vatninu. Þess vegna getur Black Pennell, hnýtt á Kamasan B170 eða B175, verið ekki síðri eftirlíking. Ferskvatnsrækjan tekur á sig dökkan lit hraungrýtisins þar sem hún liggur undir steini og þannig lítur hún út syndandi í yfirborðinu. Heimildir um rannsóknir á lífríki Hlíðarvatns telja ferskvatnsflóna (Gammarus pulex) yfirleitt vera marfló (Gammarus duebeni) þótt sú tegund lifi í sjó og finnist yfirleitt ekki í fersku vatni. Ég veit ekki hvað er rétt í fræðum þessum en eitt er víst að bleikjan þekkir sennilega ekki muninn. Það er stærð agnsins, litur og lögun sem skiptir mestu máli. Vísindaleg nákvæmni er ekki alltaf nauðsynleg þegar líkt er eftir lífríkinu.

Árni Árnason.

Greinin er að meginstofni samin í desember 2008, en síðar hefur verið bætt við nokkrum atriðum til fyllingar.

Neðanmálsskýringar:

  1. Sjá kort: Hlíðarvatn, Selvogi (1964).
  2. Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson (1981).
  3. David Burgos o.fl. (1997).
  4. Anna Heiða Ólafsdóttir o.fl. (1997).
  5. Sbr. skjöl í skjalasafni Stangveiðifélagsins Stakkavíkur.
  6. Sbr. skjöl í skjalasafni Stangveiðifélagsins Stakkavíkur.
  7. Sbr. skjöl í skjalasafni Stangveiðifélagsins Stakkavíkur.
  8. Jón Árnason (1862).
  9. Stefán Jónsson (1969).
  10. Sbr. skjöl í skjalasafni Stangveiðifélagsins Stakkavíkur.
  11. Sjá: Hæstaréttardómur, nr. 10/1954.
  12. Sbr. skjöl í skjalasafni Stangveiðifélagsins Stakkavíkur.
  13. Gils Guðmundsson (1990).
  14. Sjá heimasíðu Veiðimálastofnunar
  15. Flugufréttir (2008).
  16. SVH 50 ára: Afmælisrit Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar (2001).
  17. Fréttablaðið (2004).
  18. Eiríkur St. Eiríksson (2002).
  19. Árni Kristmundsson o.fl. 1998.
  20. Árni Kristmundsson o.fl. 1998.
  21. Árni Kristmundsson o.fl. 1998.
  22. Helgi Hallgrímsson (1979).
  23. Lárus Karl Ingason og Loftur Atli Eiríksson (2001).
  24. Gísli Már Gíslason (Ódags., 1984 u.þ.b.).
  25. Schollmeyer, Jim (2006).
  26. Omar Awad (2009).

Heimildir

Útgefnar heimildir:

  • Eiríkur St. Eikríksson. (2002). Stangveiðihandbókin: Veiðiár og veiðivötn á Íslands. 1. bindi. Reykjavík, Skerpla.
  • Flugufréttir, 435. tbl., (3. apríl 2008). Boltableikjur úr Hlíðarvatni.
  • Fréttablaðið, (10. maí 2004). Hlíðarvatn: Stærsta bleikja í áratugi.
  • Gils Guðmundsson. (1990). Væringinn mikli: Ævi og örlög Einars Benediktssonar. Reykjavík, Iðunn.
  • Helgi Hallgrímsson. (1979). Veröldin í vatninu: Handbók um vatnalíf á Íslandi. Reykjavík, Askur.
  • Hæstaréttardómur, nr. 10/1954.
  • Jón Árnason. (1862). Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. Leipzig, J.C. Hinrichs.
  • Lárus Karl Ingason og Loftur Atli Eiríksson. (2001). Fluguveiðar á Íslandi. Án útgáfustaðar, Muninn.
  • Omar Awad, viðtal (2009). Stærstu fiskarnir veiðast alltaf á minnstu púpurnar. Veiðimaðurinn, 189 tbl., júlí 2009, bls. 10 – 14.
  • Schollmeyer, Jim. (2006). Fishing a caddisfly hatch. Flyfishing & Tying Journal, 29. árg., 2 tbl., sumar 2006, bls. 32-39.
  • Stefán Jónsson. (1969). Roðskinna. Reykjavík, GuðjónÓ.
  • SVH 50 ára: Afmælisrit Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar 2001. (2001). Hlíðarvatn – hvað er svona merkilegt við það, bls. 26-33.,
  • Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. (1981). Landið þitt Ísland. 2. bindi, H-K. Reykjavík, Örn og Örlygur.

Óútgefið efni: Skjöl, ritgerðir og rannsóknir

  • Anna Heiða Ólafsdóttir o.fl. (1997). Athugun á bleikju (Salvelinus alpinus) í Hlíðarvatni. Reykjavík, Háskóli Íslands – líffræðiskor – vatnalíffræði.
  • Árni Kristmundsson o.fl. (1998). Bleikja (Salvelinus alpinus) og botndýralíf í Hlíðarvatni. Reykjavík, Háskóli Íslands – líffræðiskor – vatnalíffræði.
  • David Burgos o.fl. (1997). Smádýralíf í Hlíðarvatni. Reykjavík, Háskóli Íslands – líffræðiskor – vatnalíffræði.
  • Gísli Már Gíslason. (1984). Fæða bleikjunnar í Hlíðarvatni: [Athugun á fæðu bleikjunnar í Hlíðarvatni unnin að beiðni félaga í Ármönnum]. Reykjavík, Líffræðistofnun Háskólans. Athugunin var á því ári einnig birt í Fjölriti Veiðimálastofnunar #46.
  • Hlíðarvatn, Selvogi. (1964). Reykjavík, Orkustofnun – Vatnamælingar.
  • Skjalasafn Stangveiðifélagsins Stakkavíkur.
  • Veiðimálastofnun, heimasíða, www.veidimal.is.

Munnlegar heimildir:

  • Þórarinn Snorrason, Vogsósum.
  • Ásgeir Guðbjartsson, Hafnarfirði

NÝJUSTU FRÉTTIR