Elliðavatn

Þegar ég var beðinn um að skrifa veiðilýsingu fyrir Elliðavatn, þá sá ég alveg fyrir mér að erfitt yrði að koma upplýsingum um vatnið til skila, nema að hafa eitthvað til þess að vísa í.
Síðan komu upp fleiri fletir á því máli, eins og að athuga hvernig vatnið var áður en það var stíflað. Það sést reyndar nokkuð vel á meðfylgjandi veiðikorti, því ljósari fletir vatnsins sýna vel hvar Elliðavatnsengjarnar voru, en það voru engjar sem voru heyjaðar fyrir ekki mjög mörgum áratugum síðan. Reyndar vísar einn merktur veiðistaður til brúar sem lá út á þessar engjar. Vatnið heitir á gömlum uppdráttum Vatnsendavatn, enda var meginhluti vatnsins nær eingöngu þeim megin. Helluvatn sem við þekkjum í dag var mun minna og skiptist í tvo vötn Helluvatn og Hrauntúnstjörn. Veiðistaður, sem merktur er Hellan, var áður hólmi á milli þessara vatna sem hét Kirkjuhólmi. Þessar upplýsingar og fleiri er að finna í skemmtilegri bók: Elliðaárdalurinn, Land og saga og þangað geta fróðleiksfúsir leitað frekari fanga.

Til þess að geta vísað til vegar þá þarf kort. Gott veiðikort af Elliðavatni hefur ekki verið til, en hér fylgir það með þessari grein. Þú getur smellt á myndina og þá gefst þér kostur á því að vista þetta veiðkort á harða diskinn hjá þér. Að vísu er það ekki í bestu upplausn hér á vefnum, en það ætti ekki að koma að sök. Grunninn að kortinu fékk ég hjá Vigni Sigurðssyni á Elliðavatni og reyndi að búa til nothæft veiðikort. Ég vona allra okkar vegna að nokkuð vel hafi tekist til. Greinilega má sjá hvar vatnið er grynnra. Elliðavatnsengjarnar koma t.d. vel í ljós og sést nokkuð vel hvar varast ber að ganga fram af þeim og hverfa augnablik undir yfirborðið og skjótast síðan upp eins og korktappi.

Veiðikort af Elliðavatni. Nánari atriði neðar.

Vorið

Vorið kemur misjafnlega snemma til okkar hér á þessu fagra veiðilandi. Ég hef einhvern veginn tilhneigingu til þess að taka mark á rabarbaranum í garðinum mínum, hvað það varðar. Þegar hann er byrjaður að koma upp úr hnausunum, sem legið hafa í dvala allan veturinn, þá er kominn tími fyrir mig að gera stöng, hjól og línur klárar fyrir vertíðina. Flugurnar er búið að dunda við öðru hvoru í vetur. Fátt er betra til þess að rifja upp liðnar veiðiferðir, eða til þess að smíða hernaðaráætlanir komandi veiðiferða, en að hnýta flugur.
1.maí er opnunardagurinn í Elliðavatni. Ég og margir fleiri bíða hans með óþreyju. Að vísu eru sumir búinir að taka úr sér hrollinn með því að fara austur í Þingvallavatn til þess að bleyta færin eða eitthvert annað. Sumir með árangri en það skiptir ekki öllu máli. Það er bara að koma til móts við vorið á þennan hátt, sem við veiðimenn virkilega kunnum að meta. Það er allt að vakna. Náttúran býður okkur velkomin til enn einnar náttlausar veraldar með öllum sínum töfrum. Fuglar, smádýr og bókstaflega öll náttúran vaknar af dvala, rétt eins og við sem verðum hluti af þessu furðuverki almættisins og njótum þess.

Veiðin

Elliðavatn var 8 gráðu heitt þennan fyrsta dag. Svona hefst meðfylgjandi veiðisaga, sögð til uppörvunar og leiðbeiningar. Hún gerist þann 1. maí á því herrans ári 2000. Fjölmenni var og veður gott. Fyrst andaði að austan, síðan snérist vindur og fór yfir í suðaustan, skúrir gengu á, en nokkuð hlýtt. Hið besta veiðiveður. Ég var að hugsa um að byrja í Kerinu, en þar sem ég var nokkuð seint á ferðinni (rúmlega 7) þá gerði ég ráð fyrir því að þangað væru veiðimenn komnir. Þegar ég renndi heim að Elliðavatni, þá sá ég að menn voru byrjaðir að kasta í álinn, en enginn var mættur á Elliðavatnsengjarnar
Þar skyldi byrjað. Ég setti saman Scottinn minn fyrir línu 5 og ákvað að nota Stillwater Intermediate línuna frá Scientific Anglers. Hún er alveg glær og fer mjög skemmtilega í vatni. Taumurinn var 7 punda og þú spyrð ef til vill af hverju svona sterkan taum?. Ástæðan er sú að eitt vorið þá missti ég vel vænan fisk, urriða- ég giska á a.m.k. vel yfir 3 kg. – hann hreinlega sleit í þriðja hástökkinu sínu.
Nú verð ég að segja ykkur að á vorin þá er fæðuframboðið ekki eins mikið eins og þegar líða tekur á sumarið og því gilda nokkkuð aðrar reglur um hvað eigi að bjóða fiskinum. Urriðinn er fyrri til og mín reynsla er sú að hann gefi sig betur svona fyrst á vorin. Hann er að sjálfsögðu að leita að sinni uppáhaldsfæðu sem eru hornsíli. Því þarft þú að reyna að gera þér grein fyrir því hvar í vatninu er líklegast að finna hornsíli ! – Já jafnvel þótt þú ætlir alls ekki að fara að veiða þau. Þar sem eru hornsíli, þar er urriði, það er næsta víst eins og Bjarni Fel mundi orða það. Þegar þetta er ákveðið, þá er næstað velja flugur. Þar kemur ýmislegt til greina. Veiðnasta flugan sem ég hef enn reynt er orange nobbler. Hana getur þú fengið t.d. hjá Ingó í Vesturröst. Stefán Hjaltested hnýtir þessa stuttu nobblera og þeir eru til í ýmsum litum. Fleiri straumflugur má nefna t.d. Black Ghost, Dentist, Mickey Finn og fleiri. Það fer þá bara eftir því hvað þér finnst líklegast að gefi – þú hnýtir það á og trúin er alveg nægjanleg til þess að gefa fisk.
Þennan fyrsta dag gekk allt eins og í sögu. Ég byrjaði að kasta um leið og ég var kominn út á Engjar. Fiskurinn er ekki bara í kantinum á engjunum hann er um allt. Byrjaðu að kasta um leið og dýpið nær aðeins lengra en upp á kálfa þar er oft fiskur. Víða um engjarnar eru smá grjóthrúgur á kafi, það lærist smá saman hvar þær eru og gott er að kasta upp að þeim. „Það liggur oft fiskur undir steini“!. 30 fiskar voru meira en nóg fyrir stórfjölskyldu, nágranna og vini og þessir 8 sem ég sleppti verða væntanlega nægilega stórir næsta sumar til þess að taka með heim.

Veiðistaðir

Við skulum nú virða fyrir okkur veiðikortið. Eins og þið sjáið þá eru staðirnir sem eru merktir, allir Elliðavatnsmeginn. Væntanlega verða merktir fleiri staðir inn á kortið á næstunni. Helluvatnið er oft fyrst til á vorin. Balinn, Ströndin og Hellutangi ásamt Kerinu gefa oft vel þegar aðeins tekur að líða á vorið. Síðan eru það staðirnir við álinn Vilpan, Díkið og Brúin. Einnig er oft góð veiði í Kvosinni. Út við Lækjarhólma og Riðhól er líka oft góða veiði að fá, sérstaklega þegar hlýna tekur í vatninu því þar kemur fram kalt vatn. Þingnesið er með grýtta fjöru og oft er þar fiskur í kring um og í átt að Þingneshólma. Elliðavatnsengjarnar hef ég áður talað um. Við ós Bugðu liggja oft vænar bleikjur og urriðar og þótt drulla sé við ósinn að sunnanverðu þá er hægt að vaða út þar til þess að ná kasti yfir í álinn og þá getur komið góður kipppur. Ég man eftir einni 2ja kílóa fallegri bleikju þaðan. Vatnsenda helmingur Elliðavatnsins er einnig góður til veiði. Állin við hólmann sem sést vel á kortinu er þar líklegastur og þá alveg frá því sem hólminn byrjar og meðfram landi í átt að Elliðavatnsstíflunni. Einnig er ekki vitlaust að fara á Labbakút út á vatnið eða á báti, því víða dreifir fiskurinn sér.

Flugurnar

Fyrir utan það að reyna straumflugur fyrir urriðana, þá eru það helst litlar púpur og kúpur sem gefa vel, í stærðum 10 og niður í 16, Peacock og Fancy ásamt brúnleitum og dökkum útgáfum. Oftast er notuð flotlína en það er allt í lagi að prófa hægtsökkvandi línu eða sökkenda í álnum. Þurrflugur gefa stundum vel þegar hlýtt er í lofti og aðeins gára á vatninu. Þar með er ekkert að vanbúnaði, bara drífa sig af stað og njóta þessarar perlu í næsta nágrenni borgarinnar.

Góða skemmtun.

Reykjavík, í maí 2000, © Geir Thorsteinsson

NÝJUSTU FRÉTTIR