VEITT OG SLEPPT                                                                  – hvenær og hvernig – Tilgangur veiðimennskunnar hefur frá örófi alda verið að afla fiskjar. Svo er enn en viðhorfin og veiðiálagið hefur breyst. Veiðiálagið er nú mun meira en áður var. Þeir dagar, sem lögin um lax- og silungsveiði heimila til laxveiði, eru yfirleitt fullnýttir og yfir veiðitímann er algengt að tveir séu um stöng. Náttúrulegi laxinn á einnig í vök að verjast vegna aukins fiskeldis sem fjölgar laxalús, eykur hættu á erfðblöndun og útbreiðslu fisksjúkdóma. Náttúrulegum óvinum hefur einnig fjölgað, svo sem sel. Álagið er því mun meira en áður. Fyrir þetta líður stórlaxinn meira en smálaxinn. Lax sem hefur verið tvö ár í sjó gengur yfirleitt fyrstur í árnar. Viðmið í þessu sambandi er lax sem er yfir fjögur kg, eða átta pund, eða þyngri og þá yfir 70 sm langur. Á Vesturlandi er hann að ganga í júní og byrjun júlí og hann hrygnir líka fyrstur á haustin. Hann er í ánni allt sumarið og verður því fyrir meira áreiti veiðmanna en eins árs laxinn sem gengur síðar. Laxinn kemur í árnar til þess að hrygna og ala afkvæmi, ekki til þess að nærast. Laxinn tekur þess vegna ekki agn veiðmanna vegna næringargildis heldur eru ástæðurnar aðrar. Það er alkunna að lax tekur betur þegar hann er nýkominn í á. Þótt könnun sýni tóman maga er sennilegt að enn eimi eftir af næringarnáttúrunni hjá þeim löxum sem taka í júní. Stórlaxinn, sem gengur fyrstur, verður fyrir þessu áreiti. Hann er síðan í ánni allt sumarið, æðrulaus. Haustið breytir hins vegar viðmótinu. Þegar komið er að hrygningu er yfirráðasvæðið hans. Hann verndar hrygningarsvæðið og gætir hrygnu sinnar. Minni laxar vilja vera með en eru reknir burt. Allt agn, sem kemur inn á svæðið, er óvelkomið. Laxinn ræðst á það eða vill færa það til en verður fyrir bragðið bráð veiðimanna. Það er þess vegna sem haustið er stórlaxatími og þá veiða margir stórlaxa sem festir eru á vegg. Það eru réttu viðbrögðin af því að þessir laxar hafa verið í ánni allt sumarið og eru lélegur matfiskur. Það er af þessari ástæðu sem Veiðimálastofnun hefur hvatt til þess að veiðmenn sleppi stórlaxi. Sumarið 2001 slepptu veiðmenn 12% af veiddum laxi hérlendis. Á árinu 2004 var 16% smálaxa sleppt aftur og 25% stórlaxa. Víða erlendis er hlutfallið mun hærra. Í Kanada og Rússlandi er hlutfallið orðið um og yfir helmingur af skráðri veiði eins og fram kom í grein eftir Árna Ísaksson veiðimálastjóra í Morgunblaðinu 19. júlí 2001. Sumarið 2010, en það er næstbesta laxveiðsumarið til þessa, var 21.463 löxum sleppt en það var 28,8% veiðinnar. Og þetta hlutfall fer áfram vaxandi með vaxandi kröfum til sleppinga og var orðið 34% árið 2013 samkvæmt skýrslu Veiðimálastofnunar fyrir það ár.   Deildar meiningar eru um hvort betra sé að sleppa stórlaxi eða friða hann á hrygningartímanum á haustin. Vissulega er það svo að grútleginn stórlax er lélegur matfiskur. Það hefur því lítinn tilgang að drepa slíkan fisk nema sem veggskraut. Eyþór Sigmundsson bendir þess vegna á í viðtali við Morgunblaðið þann 14. júlí 2002 að réttast sé að friða stórlaxinn á hrygningartímanum. Þetta telur hann mega gera með því að útiloka ákveðna staði í ánum frá haustveiðinni þar sem hrygningin hefst fyrst. Í þessu sambandi nefnir hann Norðurá ofan Beinhóls

NÝJUSTU FRÉTTIR