Togstyrkur og sverleiki tauma og taumefnis
Þótt við notum ekki lengur kattargarnir sem taumefni er heiti nýju taumefnanna þaðan komið. Almennt er talað um girni og nær það yfir ýmis plastefni.
Pólýamíð (nælon) er algengt efni en það er einnig iðulega blandað með öðrum plastefnum til þess að ná fram betri eiginleikum. Nýjasta efnið á markaðnum er PVDF eða fluorocarbon. Það eyðist ekki í sólinni og dregur ekki í sig vatn. Engu að síður heyrist frá gömlum fræðaþulum, sem þurftu að mýkja línur í gamla daga í vatni fyrir veiði, að gott sé að leggja taumefni í bleyti. Þannig deyja gamlar hefðir seint.
Á þetta er minnst hér til að undirstrika að ný efni krefjast nýrrar hugsunar. Hér á landi hefur verið venjan að tala um tauma, taumefni og girni almennt í pundstyrkleika. Þá hafa menn gefið sér að þessi efni væru öll svipuð að gæðum og togstyrkur samsvaraði sverleika taumsins. Það er ekki lengur svo.
Black Knight (áður Gamma Technologies), sem framleiðir Frog Hair tauma og taumefni og Gamma línur, beitir t.d. sérstakri framleiðsluaðferð, sem gerir girnið þeirra mun sterkara miðað við sverleika en annað girni eða taumefni af sama sverleika. Sverleiki er yfirleitt táknaður með X merkingu frá 8X sem er grennst í 0X sem er sverast. Þannig er Frog Hair taumur eða Gamma kastlína af tilteknum sverleika með mun meiri togstyrk en sami sverleiki frá öðrum framleiðendum.
Gamma geislarnir krossbinda efnið þannig að það verður seigara, togþolnara og sveigjanlegra. Veiðimenn þurfa hins vegar að temja sér aðra hugsun þegar þeir nota þessa tauma og girni. Ef menn velja eftir togstyrk getur taumurinn verið orðinn svo grannur að erfitt er að hnýta fluguna með taumefninu ef menn eru ekki með góða sjón.
Þá er rétt að hafa í huga að urriði er vel tenntur. Þess vegna þarf sverari taum þegar hann er veiddur. Ef menn velja of grannt girni, þótt togstyrkurinn sé nægilegur, getur fiskurinn hæglega bitið það í sundur. Það er algengast vestanhafs að velja tauma og girni eftir sverleika. Þessa hugsun þurfa íslenskir veiðimenn að tileinka sér þegar þeir velja girni og taumefni frá Gamma (Frog Hair) og velja fyrst og fremst eftir sverleika. Aukin togstyrkur fylgir svo með í kaupunum sem búbót.
© ÁRVÍK 2011