Taumar og taumefni X er þvermálsmæling frá þeim tíma þegar garnir silkiormsins voru notaðar til framleiðsu á girni. Garnirnar voru dregnar í gegnum síþrengri holur á málmplötum, þannig að taumurinn/taumefnið varð sífelt minna í þvermál. 1x var sverast og 4x grennst. Mælingin er enn notuð og gefur til kynna þvermál en ekki styrk. Nú er þvermálið frá 0X og niður í 7X. Sverara taumefni er hins vegar merkt annað hvort með styrkleika í pundum eða sverleikinn er mældur í broti úr tommu eða millimetra. Til þess að ákvarða heppilegan taum miðað við flugustærð segir þumalputtareglan að deila eigi með þremur í flugustærðina. Flugustærðin 12 hæfir þannig 4x taumefni. Margir vilja þó hafa vaðið fyrir neðan sig og nota sverari taum og sterkari, þ.e. deila með fjórum og nota 3x. Algengast er að framleiðendur noti nælon (polýamíð) í tauma og taumefni. Það er tiltölulega ódýrt, endingargott og nær ósýnilegt og hnýtist í styrkan hnút. Sólarljósið (UV geislarnir) brýtur hins vegar niður nælon úti í náttúrunni og það dregur í sig vatn sem veikir það. Ávallt er þó rétt að væta hnútinn með munnvatni þegar hann er hnýttur, en munnvatnið er gott sleipiefni og hjálpar að gera hnútinn þéttari og sterkari án þess að teygja á efninu og veikja það. Fluorocarbon (pólývínýlíden flúoríð PVDF) sést jafnvel enn síður í vatni en nælon vegna þess að það endurkastar ljósi eins og vatn. Það er 50% rispuþolnara en nælon en togþolið er minna og hnútastyrkurinn minni ef blandað þannig að varast ber snögg átök. Sólarljósið brýtur það ekki niður og það dregur ekki í sig vatn. Það er því endingarbetra, en kostar líka meira en nælon.   Aldrei ætti að skilja taumefni eftir úti í náttúrunni. Það er bæði sóðaskapur, en einnig skepnuskapur, því að girni og taumefni er hættulegt skepnum vegna þess hversu það getur skorið fætur þeirra illilega. Silungur virðist lifa og nærast með öngul í maganum og girnið lafandi út úr sér, en það er meiriháttar uppskurður sem þarf að framkvæma ef hundur gleypir öngul með beitu.                                                                                                             © ÁRVÍK hf. 2008 og breytt 2014

NÝJUSTU FRÉTTIR