Stöng losuð í sundur – losnar í sundur   Þegar stangir hafa verið notaðar lengi og þar með settar oft saman eiga þær það til að losna upp á samsetningunum. Ástæðan er sú að sá endinn sem gengur inn í hinn er orðinn slípaður og þurr og stöngin á það þess vegna til að losna í sundur. Þá er gott að bera á endann efni til að auka viðloðun. Grafitolin Ferrule Wax er gott efni frá LOON sem heldur stönginni betur saman og auðveldar að losa hana í sundur síðar. Ef ekki gefst betur má nota kertavax. Í því er parrafín olía sem eykur viðloðun.   Erfiðara mál getur verið að losa stöng í sundur. Sumir garðyrkjuhanskar gefa mjög gott grip, eru stamir og gera manni þannig kleift að losa stöngina í sundur á eigin spýtur. Mikilvægast er að halda hlutunum beinum og  toga þá þannig í sundur í beinni línu. Leið til þess er að setja stöngina fyrir aftan sig, láta hana hvíla í hnésbótunum og halda á henni með báðum höndum. Stönginni er haldið þannig fastri en hnén eru síðan færð sundur. Þannig myndast tak á stöngina í beina línu.   Þegar tveir félagar geta hjálpast að er málið auðveldara. Þeir geta þá togað hvor á móti öðrum, en ættu að víxla höndum og halda um báða hlutana, en toga bara með annarri hendinni, þeirri sem heldur um hlutann sem að viðkomandi snýr. Þannig helst stöngin bein og átakið verður rétt.   Hér verða síðar settar inn myndir sem skýra textann betur. ÁRVÍK © 2009

NÝJUSTU FRÉTTIR