Siðareglur Margt hefur verið ritað um góða siði í stangveiði. Kafla um þetta efni er að finna í mörgum bókum. Heilu bækurnar hafa jafnvel verið tileinkaðar viðfangsefninu á heimspekilegan hátt (2).  Þegar litið er til þessara fjölbreyttu skrifa um lífið við veiðivatn verður að segjast að Stangveiðifélagið Ármenn kemst, að öðrum ólöstuðum, afar vel frá viðfangsefninu í siðareglum sínum (1). Kjarninn í reglunum er þessi: „Ármaður virðir íþrótt, bráð, land og annan mann“. Reglan útleggst þannig, örlítið umskrifuð til þess að ná til allra stangveiðimana, en þó nánast orðrétt: (1) Veiðmaður metur íþrótt umfram aflamagn. Hann hlítir veiðireglum í hvívetna, er hófsamur í veiði og fer vel með feng. (2) Hann ræðir af háttvísi um veiðibráð, fer með gát að öllu lífi, nýtur veru sinnar við veiðvatn og skilur ekki eftir annað en sporin sín. (3) Veiðimaður deilir veiðigleði með félögum sínum, berst lítt á við veiðiskap og er hæverskur áhorfandi. (4) Veiðmaður gengur frá veiðihúsi hreinu, virðir vel bónda og lokar hliðinu á eftir sér. Viðhorf til veiðinnar verður vart betur orðað en Ármenn gera. Ég spurði Jón Hjartarson, fyrsta formann félagsins, um tilurð siðareglnanna og höfund. Hann sagði þetta samvinnuverkefni. Þeir hefðu líklega, að því er hann minnir, setið saman ásamt honum á annarri hæð Húsgagnahallarinnar, þegar hún var við Laugaveg, Bjarni Kristjánsson, Guðmundur Árnason, Stefán Jónsson og Vilhjálmur Lúðvíksson og sett reglurnar á blað. Kolbeinn Grímsson gæti hafa verið þar líka. Bjarni Kristjánsson staðfesti þetta samvinnuverkefni við mig en bætti því við að honum fyndist eyrnamark Stefáns Jónsonar vera á orðfærinu. Mér kemur Stefán ávallt í hug þegar ég les siðareglurnar, bætti Bjarni við. Stangveiðmenn mættu almennt taka sér þessar reglur til eftirbreytni. Þeir ættu að temja sér að sýna náttúrunni og náunganum ávallt tilhlýðilega virðingu.  Heimildir: (1) Ármenn. (2004). Félagatal 2004. Lög og siðareglur. Reykjavík. (2) Schwab, A. (2003). Hook, line and thinker. Angling & ethics. Ludlow: Merlin Unwin Books.   Árni Árnason                                                                                                     © ÁRVÍK  júlí 2009

NÝJUSTU FRÉTTIR