Scott í hálfa öld

Það var á árinu 1974 að Harry Wilson stofnaði Scott Fly Rod Company í San Francisco. Í ár eru þannig 50 ár liðin frá stofnun þess. Í hálfa öld hefur Scott hannað og smíðað hverja tímamótastöngina á fætur annarri.

Í tilefni þessara tímamóta hefur Scott valið fimm stangir úr fortíðinni sem flokka má sem merka áfanga í sögu fyrirtækisins. Það var 12. nóvember 2024 sem Jim Bartschi, forstjóri Scott og stangarhönnuður fyrirtækisins var mættur með stangirnar fimm í verslun Telluride Angler í Colorado en sú verslun er í eigu John Duncan, sem var á sínum tíma tengiliður okkar hjá Scott áður en hann fór út í verslunarrekstur sinn.

Scott F 703/4. Fyrst er hér nefnd til sögunnar F 703/4 stöngin. Þetta er sjö feta stöng fyrir línuþyngd 3 í fjórum hlutum smíðuð úr trefjagleri (fiberglass). Með þessari stöng skapaði Scott sér leiðandi sérstöðu í smíði stanga í fleiri hlutum fyrir léttar línur. Hafa ber í huga að algengustu stangirnar á þessum tíma til silungsveiða voru þungar og lítt sveigjanlegar átta til níu feta stangir í tveimur hlutum fyrir línuþyngd sex til átta. Þessi stöng var þess vegna bylting á sínum tíma og er enn:

Scott G 904/4. Þegar koltrefjarnar (grafít) komu til sögunnar um miðjan áttunda áratuginn tók Harry Wilson þetta nýja stangarefni inn í hönnun sína. Eftir fjölda tilrauna kom Scott með á markaðinn fyrstu níu feta grafít stöngina fyrir línu fjögur. G-línan frá Scott hefur tekið framförum og breytingum í gegnum árin en G 904/4 er enn þann dag í dag með bestu silungastöngum sem hafa verið smíðaðar frá upphafi:

Scott ARC 1287/3. Þessi stöng er 12 feta og átta þumlunga fyrir línu sjö í þremur hlutum. ARC-stangarlínan bauð hins vegar upp á bæði einhendur og tvíhendur. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga ARC 959/4 einhendu sem ég hef notað í laxveiði. Stöngin er nýju og hálfs feta löng fyrir línu níu. Ég hef aldrei veitt á betri einhendu í laxveiði. ARC tvíhendan sem ég eignaðist er fimmtán feta í fjórum hlutum fyrir línu níu. Þetta var á þeim árum þegar mælt var með lengri stöngum fyrir þyngri línur. Frá þeim tíma hefur þróunin verið að stytta stangirnar og smíða þær fyrir léttari línur:

Scott STS 909/3. Þessi STS stöng er níu feta í þremur hlutum fyrir línu níu. STS stöngin var hönnuð til fluguveiði í Karíbahafinu. Þegar ÁRVÍK hf. byrjaði að kynna Scott stangirnar fyrir íslenskum veiðmönnum, körlum og konum, varð STS stöngin fyrir valinu. Þótt STS stöngin væri hönnuð til fluguveiði í Karíbahafinu eru aðstæður hérlendis oft líkar veiði á opnu hafi. Hér er iðulega minna um skóglendi sem brýtur niður vind og iðulega nauðsyn að stöngin vinni vel þegar blæs. STS stöngin varð þess vegna ekki eingöngu vinsæl í laxveiðina heldur voru stangir eins og STS 905/4 það er níu feta fyrir línu fimm í fjórum hlutum og STS 907/3 það er níu feta fyrir línu sjö í þremur hlutum geysivinsælar, sú fyrir línu fimm í bleikjuveiðina og sú fyrir línu sjö í sjóbirtingsveiðina.

Þegar framleiðslu STS stangarinnar var hætt var mikil eftirspurn enn til staðar. Þegar það spurðist út að ÁRVÍK ætti enn stangir á lager tengdi Scott okkur við áhugasama kaupendur vestanhafs. Leiddi það til tímabundins útflutnings á STS stöngum til Florída með leyfi Scott en Ísland var samkvæmt umboðssamningi okkar markaðssvæði samningsins. Myndin hér á eftir er af STS 909/3 stönginni:

Radian 905/4. Síðasta stöngin í úrvalinu og ekki sú sem ætti að vera síst fyrir valinu er níu feta Radian stöngin fyrir línu fimm í fjórum hlutum. Hér tókst Jim Bartschi að hanna og smíða stöng sem var bæði hröð en veitir einnig veiðimanninum tilfinningu fram í fingurgóma. Scott kallaði þetta ,,fast and feel“. Margir halda því fram að þessi Radian stöng sé: ,,the finest fast action rod of all time“ enda bæði ein eftirsóttasta og mest öfundaða Scott stöngin frá upphafi. Stöngin mín er Radian 907/4 það er níu feta fyrir línu sjö í fjórum hlutum. Hún er ótrúlegur dýrgripur. Myndin hér að neðan er af stönginni í úrvalinu, Radian 905/4:

Allar stangirnar í úrvalinu eru sérstaklega merktar í tilefni afmælisins. Eftirfarandi áletrun er á sérhverri stöng:

Þess er að vænta að þessir kjörgripir verði fáanlegir í Evrópu í byrjun árs 2025.

Árni Árnason

ÁRVÍK © desember 2024

NÝJUSTU FRÉTTIR