Scott flugustangir fróðleikur
Merkið á húfunni hér að ofan segir sína sögu. Á þessu ári, 2014, er hins vegar kominn tími til að breyta því aðeins og skipta þremur út fyrir fjóra af þeirri ástæðu að í ár, 2014, eru fjörutíu ár frá því að Harry Wilson stofnaði fyrirtæki sitt á árinu 1974 í San Francisco í þeim tilgangi að framleiða framúrskarandi flugustangir. Framleiðslan var síðar flutt til Telluride í Colorado 1993 og loks til Montrose, þar sem stangirnar eru framleiddar nú.
Fyrstu stangirnar voru úr trefjagleri en Scott skipaði sér strax í fremstu röð bandarískra stangarframleiðanda á árinu 1975 þegar fyrirtækið kynnti þá nýjung að framleiða 9 feta stöng fyrir línu 4 úr grafíti. Þessi nýjung og fleiri nýjungar, sem komu til sögunnar síðar, sköpuðu Scott sterka stöðu á bandaríska markaðnum. Það voru hins vegar aðrir bandarískir framleiðendur sem náðu fyrr að skapa sér sterka stöðu utan Bandaríkjanna og þar með hérlendis.
Þegar ÁRVÍK hóf að selja Scott stangir hér á landi á árinu 1996 höfðu allir helstu framleiðendur komið sér vel fyrir á íslenska markaðnum. Scott flugustangirnar hafa hins vegar notið vaxandi vinsælda hér á landi fyrir vandaða smíði og góðan frágang, enda eru þetta kraftmiklar stangir með tilfinningu fyrir kröfuharða veiðimenn. Nýjasta stöngin, Radian, sameinar þessa kosti, hraða og tilfinningu, enda vann hún til tvöfaldra verðlauna á síðasta ári (2013). Á IFTD sýningunni í Las Vegas sumarið 2013 var Radian stöngin valin „Best New Freshwater Fly Rod“. Hún skaraði einnig fram úr öðrum nýjungum á sýningunni og var valin „Best of Show“.
Scott náði þessum árangri með því að sameina ReAct og X-Core tæknina og ná fram bæði hraða og tilfinningu. Veggþykktin í stönginni var minnkuð þar sem FiberFuse resínið nær fram 20% meiri styrk en venjuleg Epoxy resín. Títaníum lykkjurnar eru frá Snake Brand. Þær eru ryðfríar og hannaðar til þess að línan renni betur í gegnum þær. ARC (advanced reinforced carbon) vinnur gegn snúningsátaki, sem eykur nákvæmni kastsins. Náttúruleg áferð stanganna gerir þær sérstakar.
Scott Radian
Það er ekki ætlun Scott að bjóða Radian stöngina fyrir almennan markað sem tvíhendu. Það er óþarfi enda er T3H stönginni ætlað það hlutverk. T3H stöngin er smíðuð með X-Core tækninni og ARC vinnur gegn snúningsátakinu og eykur styrk stangarinnar. T3H stöngin er fáanleg frá Scott fyrir línuþyngd 4 til 10 í lengdum frá tíu og hálfu feti upp í 16 fet. Þá má nefna LS2 stöngina sem er afar skemmtileg tvíhenda.
A4 stöngin kom á markað á árinu 2012 og tók við af A3 stönginni. Báðar gerðirnar eru til á lager. A3 stöngin er einnig fáanleg sem „two hand assist“ eða „switch“ stöng. Það var Scott sem kynnti þessa tegund stanga til sögunnar með ARC 11964 stönginni.
Engilbert Jensen var fyrsti Íslendingurinn sem smíðaði þá stöng með efnishlutum frá Scott. A4 stöngin er hins vegar eingöngu framleidd sem einhenda. Tvíhendu-útgáfan af A4 stönginni er L2H stöngin.
Þegar minnst er á Engilbert Jensen, en hann er einn af „Pro Staff“ ráðgjöfum Scott, er rétt að geta E2 stangarinnar en hún var smíðuð eftir hugmyndum hans. Hún er mjúk í toppinn en kraftmikil niður í skaftið. Samsetningar eru slípaðar þannig niður að sveigjan í stönginni verður jafnari. Þessir eiginleikar gera stöngina að mjög fjölhæfu verkfæri þannig að sama stöngin nýtist til veiða á fiskum af töluvert mismunandi stærðum. Þessi stöng kom á markað hér í byrjun árs 2005 og fékk strax mjög góðar viðtökur. Samsetningar stangarinnar eru ákveðin málamiðlun milli broddenda og hefðbundinnar samsetningar. Í mörgum tilvikum er hægt að afgreiða topp á þessar stangir af lager þótt Scott hafi fallið frá því að bjóða upp á þá lausn varðandi nýrri stangir með þessari samsetningu.
Þegar S4 stöngin kom á markað var hún með sömu samsetningum og E2 stöngin. Þær eru einfaldari en samsetning með broddendum eins og eru á S3 stönginni.
STS gerðin er hröð klassísk stöng frá Scott. Hún var upphaflega hönnuð fyrir veiðar í Karíbahafinu. Þar er nauðsynlegt að stangir vinni vel í vindi á opnu hafi. Þær bregðast einnig skjótt við fiski sem gerir þessa tegund tilvalda í sjóbirtingsveiði hérlendis. STS stöngin á fjölda dygga aðdáendur hér á landi sem hafa aldrei veitt á skemmtilegri stöng. Þegar framleiðslu hennar var hætt voru margir ósáttir við þá ákvörðun og fengum við jafnvel fyrirspurnir frá Flórída hvort ÁRVÍK gæti selt verslunum þar STS stangir. Scott ákvað síðar að bjóða upp á STS stöngina í nokkur ár í flokki klassískra stanga.
G2 var kynnt til leiks á árinu 2006 sem „the new Ultimate Presentation Tool“. Stöngin var og er vissulega draumur silungsveiðimannsins. Fyrir þá sem eltast við silung við þröngar aðstæður þar sem nákvæmni er þörf í hverju kasti er F2 stöngin kostagripur. Hér hefur Scott fullkomnað smíði stangar úr trefjagleri til þessa verkefnis.
Á árinu 2010 hóf Scott að bjóða upp á sérsmíði stanga þannig að áhugasamir veiðimenn gátu valið saman einstaka hluti og sett saman uppskrift að óskastönginni sem Scott svo smíðaði. Þetta fyrirkomulag er enn til staðar og stendur viðskiptavinum til boða. Jafnvel þótt ekkert verði af kaupum er vissulega gaman að fara inn á heimasíðuna og setja saman hvernig draumastöngin á að vera. Það má gera hér. M stöngin er tilkomin vegna þessa draumastarfs. Þessi stöng er dýrasta einhendan frá Scott.
© ÁRVÍK mars 2014 og breytt 2024