Ábyrgð og umhirða Scott flugustanga   Ábyrgð Allar nýjar Scott flugustangir og stangarhlutar (blanks) falla undir ótakmarkaða lífstíðarábyrgð hjá Scott. Ábyrgðin gildir eingöngu gagnvart upphaflegum skráðum eiganda. Til þess að ábyrgðin taki gildi þarf kaupandi að skrá sig á heimasíðu Scott eða senda Scott í pósti útfyllt ábyrgðarskírteini innan 30 daga frá því að kaupin voru gerð. Með því að smella hér má fara beint inn á þann stað á heimasíðunni þar sem skrá má stöngina.   Gert er við brotnar stangir eða nýr hluti látinn í staðinn að vali Scott, án endurgjalds, en kaupandi þarf að greiða sendingarkostnað til Scott í Bandaríkjunum. Þessi kostnaður nemur nú í apríl 2015, kr. 3.800 sem er útlagður kostnaður hjá ÁRVÍK hf. við að senda stöngina úr landi með pósti. Reynt er að taka stöngina til baka með vörusendingum til ÁRVÍKUR, og fellur þá mjög lítill flutningskostnaður til, en kostnaðurinn er mun meiri ef stöngin er send til baka sérstaklega. Ef senda þarf stöngina eina og sér til baka má áætla kostnað vegna þess um 50 Bandaríkjadali einungis vegna flutnings innan Bandaríkjanna.  Ef unnt er að senda fleiri en eina stöng utan samtímis skiptist kostnaðurinn á þær stangir sem sendar eru saman. ÁRVÍK gengur frá útflutningsskýrslu fyrir eigendur Scott stanga án endurgjalds en þessi kostnaður er kr. 2.500, ef eigandi sendir stöngina út sjálfur og pósturinn sér um skýslugerðina. Langar stangir, þegar pakkinn er lengri en 120 cm, er ekki hægt að senda í pósti. Þann kostnað má þó lækka ef aðrar stangir eru sendar út samtímis.   Litur á bindiþráðum kann að verða örlítið öðruvísi en á upphaflegu stönginni. Ef stöng er ekki lengur framleidd af Scott áskilur Scott sér að endurnýja stöngina með sambærilegri stöng. Séu íhlutir til stangargerðarinnar ekki lengur fáanlegir eru þeir endurnýjaðir með þeim sem nú eru notaðir. Hið sama gildir um frágang og útlit. Hvað stangarhluta (blanks) varðar, þegar menn smíða stangir sínar sjálfir, eru þeir endurnýjaðir en það gildir ekki um íhluti og vinnu stangarsmiðsins.   Scott stangir, sem keyptar eru notaðar eða hafa ekki verið skráðar í ábyrgð, falla ekki undir lífstíðarábyrgðina. Slíkar stangir ábyrgist Scott eingöngu hvað varðar framleiðslugalla. Stangir, sem eru farnar að láta á sjá vegna notkunar, er hægt að gera við en kaupandi greiðir eðlilegan kostnað sem því tengist, auk sendingarkostnaðar. Ótakmörkuð ábyrgð Scott nær ekki til þess þegar stöng tapast eða skemmist í meðferð flugfélags eða flutningsaðila, póstþjónustan þar meðtalin, vísvitandi skemmda, eða þess að stöng týnist eða henni er stolið.   Stangir, sem á að gera við, má senda til ÁRVÍKUR hf., Garðatorgi 3, 210 Garðabæ. ÁRVÍK mun annast útflutning stangarinnar og móttöku í samræmi við ofanritað. Skiptir ekki máli hvort stöngin var keypt hérlendis eða erlendis. Einnig geta eigendur sent stangir sínar sjálfir til Scott eins og áður sagði. Heimilisfang Scott er: Scott Fly Rods Co. Attn.: Repairs 2355 Air Park Way, Montrose, CO 81401, USA  Lýsingu á skemmdinni þarf að senda með. Þá þarf að fylgja með númer og gildistími greiðslukorts (VISA, Mastercard) vegna kostnaðar við endursendingu. Sendingarkostnaður er ekki hár innan Bandaríkjanna, en er þó 50 Bandaríkjadalir, en er mun hærri til Íslands eða annarra landa. Þurfi eigendur Scott stanga að setja sig í samband við fyrirtækið beint er sími Scott Fly Rod Company: +1 970 249 3180 og faxið +1 970 249 4172. Einnig má nota tölvupóstfangið info@scottflyrod.com. Meðferð og umhirða stanga Samsetning. Stangarhlutarnir eru settir saman með því að þrýsta endunum saman þannig að merkingarnar (punktarnir) standist ekki alveg á. Þá er hlutunum snúið þannig að punktarnir standist á. Þegar stöngin er tekin í sundur er farið öfugt að og stangarhlutunum snúið í öfuga átt og þeir togaðir í sundur. Þessi aðferð tryggir haldgóða samsetningu og myndar hálfgerðan skrúfgang í samsetninguna. Ef stangarhlutunum er ýtt beint saman er meiri hætta á að samsetningin losni upp smám saman við veiðarnar. Fari svo má bera paraffinolíu á samskeytin en hún fæst í lyfjaverslunum, eða venjulegt kertavax. Árvík hf. selur ennig Grafitolin Ferrule vax frá Loon (vörunr. LOF0021) sem er sérstaklega til þessara nota. Það bætir viðloðunina og treystir samsetninguna. Samsetningin á stöngum, sem settar eru saman með broddendum (internal ferrule), á að vera þannig að hlutarnir falli ekki alveg saman. Bilið verður að vera a.m.k. 3 mm en er iðulega um 10 mm til þess að tryggja möguleika á endurteknum samsetningum við veiðar til margra ára.   Áður en gengið er frá stönginni í hólkinn, sem fylgir henni, ætti ávallt að þurrka stöngina vel og hreinsa af henni öll óhreinindi. Ferskvatn getur jafnvel eyðilagt áferðina á stönginni ef hún er sett blaut í þéttar umbúðir. Ef óhreinindi eru einnig á stönginni er líklegt að mygla komi í innri pokann. Sérstaklega er mikilvægt að hreinsa stöngina vel með fersku vatni ef veitt er í sjó eða í árósum svo að salt valdi ekki ryðskemmdum á lykkjum og hjólsæti.   Að forða stöngum frá skemmdum. Nokkur atriði má nefna sem draga úr líkum þess að stangir brotni eða skemmist: Forðast skal að það kvarnist upp úr stönginni, sem gerist, ef hún rekst utan í harða eða hvassa hluti eða grjót. Þá eru hinar nýju þyngdu flugur, kúlu- og keiluhausarnir, grafítstöngum sérstaklega skeinuhættar. Þessar flugur geta valdið því að það kvarnast úr stönginni, ef þær lenda á henni í kastinu, sem leiðir til þess að henni hættir til að brotna þar síðar. Einnig eru þess dæmi að flugur lendi beint á stangartoppnum og kubbi hann í sundur.   Þegar losa þarf festu úr botni á aldrei að rykkja með stönginni. Slíkar rykkingar brjóta auðveldlega stöngina. Þar sem stöngin er verðmætari en flugan er viturlegra að fórna flugunni. Beina má stönginni að flugunni og toga í línuna uns flugan losnar eða taumurinn gefur sig.   Þegar línan er þrædd í gegnum lykkjurnar er þægilegast að tvöfalda línuna sjálfa og draga hana þannig í gegnum lykkjurnar án þess að beygja stöngina. Renni línan úr greipum okkar rennur hún ekki alla leið til baka.   Að lokum er rétt að minna á að flestar stangir brotna þegar bílhurðum er skellt á þær. Ennfremur er algengt að eigandinn eða veiðifélagarnir stígi á stöng sem liggur á jörðinni. Til er stangarhald frá C&F með segli sem má setja á bifreiðina til að tilla stönginni í uns haldið er til veiða (vörunr. CFA80). Þessi litla festing getur bjargað veiðiferðinni.      © ÁRVÍK hf. apríl 2015  

NÝJUSTU FRÉTTIR