Regnbogasilungur í íslenskri náttúru Að undanförnu hafa birst fréttir um það í fjölmiðlum að regnbogasilung sé nú að finna í ám sem renna í Patreksfjörð, Tálknafjörð, Arnarfjörð og Dýrafjörð á Vestfjörðum, þótt enginn fiskur sé sagður hafa sloppið úr kvíum þar. Þá hafa tilkynningar komið um regnbogasilung í Breiðdalsá á Austfjörðum, sem sennilega er afleiðing af óhappi í Berufirði í sumar. Einnig hafa borist tilkynningar um regnbogasilung í Vatnsdalsá, Hafralónsá og Haffjarðará. Hvaðan sá fiskur er upprunninn er ekki vitað. Við nánari athuganir hefur svo komið í ljós að tilkynningar hafa borist um veiði í öllum landsfjórðungum. Regnbogasilungur á að sjálfsögðu greiða leið í kringum landið og þess vegna yfir hafið og hingað. Hann þarf ekkert vegabréf.                                                                                    Útbreiðsla regnbogasilungs – Heimild: NASF Viðbrögð  við þessum tíðindum hafa verið hin hógværustu. Það var t.d. haft eftir fulltrúa Fiskistofu: „Það hefur í gegnum tíðina gerst annað slagið að regnbogasilungur hefur veiðst. Það hefur ekki verið gert neitt í þeim málum vegna þess að þetta hafa verið stök tilvik. Regnbogasilungurinn hefur ekki fótfestu hér.“ Og í frétt í Morgunblaðinu 14. september 2016 var eftirfarandi fullyrt: „Seiðin lifa ekki af veturinn á norðlægum slóðum og tímgast silungurinn því ekki í íslenskri náttúru.“                                                                                       Regnbogasilungur Regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss) er alinn í þúsundum tonna í nálægt 100 löndum um allan heim. Engu að síður er það svo að það er einungis vitað um tiltölulega fá tilvik þar sem regnbogasilungur hefur náð að stofna til sjálfbærrar tilveru utan náttúrulegra heimkynna sinna, sem er öll vesturströnd Norður Ameríku, allt til Alaska. Tilvikin í Evrópu eru nálægt 100. Það er því rangt að regnbogasilungur lifi ekki af veturinn á norðlægum slóðum og geti ekki fundið þar ný heimkynni. Regnbogasilungur var t.d. fluttur í Au Sable ána í Michigan í Bandaríkjunum. Hún rennur í Huron vatnið. Það leið hins vegar ekki á löngu þar til regnbogasilungurinn hafði dreift sér um öll Vötnin Miklu (e. Great Lakes). Veiðar á regnbogasilungi er þar nú svo mikil útgerð að veiðimenn marga rennir ekki grun í að þetta sé fiskur sem hafði ekki áður „fótfestu“ á þessum slóðum svo að notað sé orðatiltæki sérfræðinga Fiskistofu. Og ekki vantar vetrarkuldann heldur. Þarna fer frostið í -40 Cº. Nokkur dæmi eru til um sjálfbæra tilveru frá Noregi og þar af eitt norðan heimskautsbaugs í Brennfjellvötnum nálægt Skibotn í Tromsfylki. Það er því ljóst að seiðin lifa af veturinn á norðlægum slóðum, hvort sem er í Noregi, Michigan eða í Alaska.                                                                                Regnbogasilungur (Steelhead) frá Michigan Það er hins vegar svo að æviferill regnbogasilungs er nokkur annar en laxa og annarra silunga, t.d. bleikju og urriða. Regnbogasilungurinn gengur seint í árnar og hrygnir ekki fyrr en jafnvel í apríl í Alaska þegar vatnshitinn er orðinn nægur þótt hann kunni að hrygna í desember í Kaliforníu. Seiðin klekjast þess vegna síðar út en hjá laxi og urriða og eiga undir högg að sækja ef þau verða fyrir einelti og ofsóknum seiða þessara tegunda. Það er þess vegna alls ekki útilokað að regnbogasilungur geti fundið hér á landi á sem er ekki setin af öðrum laxfiskategundum og er nægilega næringarrík og hlý til þess að fóstra seiði regnbogans þannig að þau lifi af veturinn og geti gengið til sjávar tvævetra eftir að hafa náð fullum þroska. Þess mun jafnvel dæmi úr Hvalfirði frá því seint á síðustu öld, þó ekki fyllilega staðfest, að seiði hafi náð þar nokkrum þroska sennilega sem afleiðing af eldi í firðinum. Í ljósi þessa er full alvara á ferð. Regnbogi, sem sleppur úr kvíum, gæti fundið ný heimkynni í íslenskri á. Sumir mundu e.t.v. fagna því að fá hér til veiða regnboga í á þar sem annar fiskistofn á sér ekki heimkynni. En þessir flækingsfiskar færa okkur þó einnig önnur og alvarlegri skilaboð og framtíðarsýn, sem margir hafa bent á, einmitt þá að laxastofninn má fara að vara sig verði af því umfangsmikla sjókvíaeldi á laxi sem hugur eldismanna stendur til. Samkvæmt leyfum, sem þegar eru fengin, og áformum um aukningu, er eldi á tæpum 180 þúsund tonnum á óskalistanum. Þess vegna kann að vera veruleg hætta á erfðabreytingum á íslenska laxastofninum vegna laxa, sem sleppa, verði þessi stórtæku áform að veruleika. Regnbogasilungur blandar ekki kyni við íslenska laxfiska en frjór eldislax gerir það þegar hann sleppur og gengur í árnar okkar. Þar til bær yfirvöld, sem geta komið í veg fyrir þá hættu, mega ekki loka augunum fyrir þeirri náttúrvá. Heimildir: David Stankovic, Alain Jean Crivelli & Aleš Snoj (2015) „Rainbow Trout in Europe: Introduction, Naturalization, and Impacts“, Reviews in Fisheries Science & Aquaculture, 23:1, 39-71, DOI: 10.1080/23308249.2015.1024825. Helgi Bjarnason, „Áforma að framleiða 180 þúsund tonn af laxi á ári“, Morgunblaðið, 3. september 2016, bls. 6. Helgi Bjarnason, „Ekki vitað hvaðan silungur sleppur“, Morgunblaðið, 14. september 2016, bls. 4. Jonsson, B. (2011): NOBANIS – Invasive Alien Species Fact Sheet – Oncorhynchus mykiss. – From: Online Database of the European Network on Invasive Alien Species – NOBANIS www.nobanis.org, sótt 28. september 2016. Watson, Rupert (1999). Salmon, Trout & Charr of the World, A Fisherman‘s Natural History. London: Swan Hill Press. Athugasemd höfundar: Grein, samhljóða textanum hér að ofan, birtist í Morgunblaðinu hinn 6. október 2016, bls. 22, undir fyrirsögninni: ,,Regnbogasilungur gæti náð ,,fótfestu“ í íslensku ám“. Hér hefur myndum verið bætt inn í greinina og heimildaskrá bætt við. Árni Árnason ÁRVÍK © október 2016  

NÝJUSTU FRÉTTIR