Línu- og taumatengingar með ZAP Það virðist nokkuð algengt að fólk hafi vissa vantrú á límdum samsetningum. Sennilega væru þessir aðilar kvíðnir að ferðast með flugvél ef þeir vissu í hve miklum mæli þessi farartæki eru límd saman. Staðreyndin er sú að límtækninni hefur fleygt afar mikið fram. Ef rétt er að verki staðið fara hlutir ekki lengur á límingunni heldur bresta þeir fyrr annars staðar. Límingin er þannig sterkari en efnið sjálft og límingin getur verið traustasta samsetningin ef rétt lím er valið. Límið þarf þó að hæfa þeim efnum sem festa á saman og það þarf að þola þær aðstæður sem hinn límdi hlutur er notaður til. Það þarf sérstök lím til þess að líma saman gerviefnin sem notuð eru í flugulínur og tauma. Límið þarf að þola að liggja í vatni og það þarf að halda mýkt sinni og má ekki harðna og springa. Límin frá ZAP hafa þessa eiginleika og eru þess vegna mjög æskileg til þess að tengja saman tauma og línur með hnútalausum samsetningum. Á mynd 1 eru sýndir nokkrir möguleikar til slíkra samsetninga. Myndin er fengin úr grein eftir Dave Whitlock sem birtist í vorhefti Flyfishing & Tying Journal 2009 (bls. 48-51) en þar sýnir hann hvernig nota má Zap-A-Gap-límin til samsetninga.                                                                                                                     Mynd 1 Zap-A-Gap-límin eru fáanleg í nokkrum gerðum en Zap-A-Gap-hnútalímið sem við höfum selt til línusamsetninga er einnig gott í fluguhnýtingar. Það er með bursta (DW8137) og í pakkningu sem hentar í vestið. Límið með burstanum (DW8137) hefur reynst vinsælast og þægilegast í notkun. Límið má nota til ýmissa hluta á veiðistað, svo sem til vöðluviðgerða. Þessar vörur má skoða nánar á heimasíðunni, t.d. með því að slá inn vörunúmerið í leitargluggann efst í hægra horni.   Dave Whitlock hefur valið saman ýmsa hluti ásamt Zap-A-Gap-líminu í sett (kit) til línusamsetninga (DWWK01). Í boxinu, sem geymir þessa hluti, er einnig að finna leiðbeiningabækling þar sem helstu samsetningar eru sýndar. Auk þess hefur hann gert DVD-fræðsludisk (DWWK02) þar sem hann leiðbeinir hvernig setja má saman ýmsar línur og tauma. Lesendum til fróðleiks er ein þessara samsetninga skýrð nánar hér á eftir. Í dæminu er sýnt hvernig taumur er tengdur við flugulínu með Zap-A-Gap-líminu. Eftirfarandi samsetning, sem sýnd er á mynd 2, gengur út frá því að flugulínan sé að innan með fléttuðum þræði sem kápan umlykur. Myndin er úr bókarkafla sem Dave Whitlock ritaði í bók L.L. Bean Ultimate Book of Fly Fishing sem kom út árið 2002. Frummyndin, sem er staðfærð, er á blaðsíðu 30. Venjuleg saumnál í stærð níu er fest í nálarþvingu og vísar nálaraugað fram en oddurinn, sem gott er að sverfa aðeins af, fer inn í þvinguna (skref 1). Lykkjunálin frá Stonfo (ST0768) er einnig handhægt verkfæri til þessa verks. Því næst er nálarauganu stungið inn í enda flugulínunnar, a.m.k. tvo sentimetra, og þaðan út úr kápunni (skref 2). Nú stendur til að festa frammjókkandi taum við flugulínunna. Grennri endi taumsins er þræddur í gegnum nálaraugað og síðan er taumurinn togaður út um enda flugulínunnar (skref 3) þar til einungis um fimm sentimetrar standa eftir ófarnir í gegnum gatið. Á sumum taumum er lykkja á sverari endanum. Hún varnar því að taumurinn sé togaður of langt. Gott er að hnýta hnút á sverari endann, þessu til varnar, ef lykkjuna vantar. Þessu næst er taumurinn, næst enda flugulínunnar, ýfður upp með sandpappír að grófleika frá 50 til 100 (skref 4) og Zap-A-Gap-lím borið á tauminn allan hringinn þar sem hann var ýfður upp. Límið þornar ekki strax en tekur sig þegar skrefi fjögur er lokið með því að toga tauminn til baka inn í flugulínuna þannig að allur sandaði, límborni hlutinn fari inn í flugulínuna. Límið tekur sig á 15 til 20 sekúndum og myndar varanlega festu. Þá er sveri taumendinn klipptur af sem næst því þar sem hann kemur út úr flugulínunni. Dropi af Zap-A-Gap-lími er settur í gatið sem myndast. Loks er togað þéttingsfast nokkrum sinnum í tauminn til baka þannig að endinn skríði inn í gatið þar sem hann var klipptur og verði þannig innan flugulínunnar (skref 5). Í flestum tilvikum safnast dálítið af lími upp við enda flugulínunnar (skref 6). Rétt er að láta þetta lím þorna í um 30 sekúndur. Það myndar aflíðandi samskeyti við enda flugulínunnar og taumurinn og línan renna auðveldar í gegnum lykkjurnar. Límið hindrar þannig að vatn komist inn í enda flugulínunnar en fari vatn þar inn hefur línan tilhneigingu til þess að sökkva í endann. Mynd 2 Í kjarna flugulínunnar er yfirleitt ofinn þráður eða fléttaður. Hann má nota til þess að útbúa afar snyrtilega lykkju en sumir kjósa þennan hátt á við samsetningar línu og taums svo að dæmi sé tekið. Þessi aðferð er skýrð í lok bæklingsins sem fylgir samsetningarsettinu (DWWK01). Lykkjan er gerð þannig að fyrsta skrefið er að láta u.þ.b. 15 sentimetra af enda flugulínunnar liggja í um 10 mínútur í leysi fyrir naglalakk (acetone) sem flestar konur eiga. Kápan er síðan tekin af kjarnanum. Endi kjarnans er látinn trosna upp í endann með nálinni. Hann er síðan klipptur til þannig að hann megi þræða í gegnum nálaraugað. Að þessu sinni er nálinni stungið öfugt inn í enda flugulínunnar, það er að segja, nú er það oddurinn sem gengur fyrst inn, ekki nálaraugað. Hér er betra að oddurinn sé ekki of hvass. Best er að hafa hann deigan þannig að oddurinn stingist ekki í gegnum kápuna fyrr en ætlunin er eins og vill verða ef oddurinn er mjög beittur. Þegar nálin er komin inn í línuna og út á réttum stað eftir um tvo sentimetra er nálin losuð úr nálarþvingunni og hún sett á oddhvassa endann. Endi kjarnans er þræddur í gegnum nálaraugað og hann dreginn inn í flugulínuna en ekki alla leið strax. Nú er lím borið á þráðinn og hann síðan dreginn inn um endann þar til lykkjan er af réttri stærð. Í lokin er farið eins að og fyrr. Kjarninn er klipptur snöggt þar sem hann kemur út úr flugulínunni, lím borið í gatið og lykkjan teygð snöggt til baka til þessað kjarninn fari inn í flugulínuna. Þannig verður til lykkja sem rennur auðveldlega í gegnum lykkjur flugustangarinnar. Árni Árnason                                                                          © ÁRVÍK október 2009, breytt 2017.

NÝJUSTU FRÉTTIR