Laxalús

Laxalús (Lepeophtheirus salmonis) er snýkjudýr sem lifir í söltu vatni. Hún er krabbadýr sem leggst á laxfiska á norðlægum slóðum. Kjörhitastig hennar virðist vera um 6 ºC og lífsskilyrðin versna eftir því sem hitastigið lækkar. Laxalúsin lifir ekki í ferskvatni og ná laxar, sjóbleikjur, sjóbirtingar og regnbogasilungar að hrista lúsina af sér á nokkrum dögum eftir að þessir fiskar ganga í ferskvatn. Lús, t.d. á sjóbleikju, er að miklu leyti (40%) horfin innan viku eftir að hún gengur í ferskvatn og nánast alveg innan tveggja vikna. Lúsin er þannig merki um að þessir fiskar séu nýlega gengnir úr sjó.

Kvenkynslús                                        Laxalýs, kven- og karlkyns

Algengt er að sjá athugasemdir í veiðibókum um lús á fiski á göngutíma laxa. Sumir veiðimenn skrá lúsina sem halalús og virðast sumir halda að þessir fiskar séu alveg nýrunnir þar sem lúsin tapi fyrst hölunum áður en hún missir festu sína. Þessir tveir strengir eru hins vegar eggjaleiðarar sem liggja aftur úr kvendýrinu sem er nokkru stærra en karldýrið. Með eggjaleiðurunum getur kvendýrið orðið allt að 25 mm langt en karldýrið er um 15 mm. Kvendýrið myndar tíu til ellefu pör af eggjaleiðurum á ævinni. Eggjafjöldinn í hverjum leiðara er á bilinu 123 til 183, en 152 egg að meðaltali miðað við hitastigið 7.2 ºC. Kvendýrið lifir í allt að 210 daga.

Æviskeiði lúsarinnar má gróflega skipta í tvennt þótt fræðimenn tali um tíu æviskeið. Á fyrra skeiðinu lifir lúsin á svifi (e. planktonic) og flýtur í sjónum þar til hún nær að festa sig við laxfiskinn sem verður heimilið á seinna stiginu, snýkjudýrsstiginu. Það er enn óráðin gáta hvernig lúsinni tekst að finna sér þetta nýja heimili en það hefur lúsinni tekist í árþúsundir.

                                                                  Æviferill laxalúsar

Leitin er þó e.t.v. auðveldari nálægt sjókvíum þar sem lúsin er hinn mesti skaðvaldur. Sérstaklega er lúsin hættuleg sjógönguseiðum en lúsin getur hæglega drepið þau ef þéttleiki lúsarinnar er of mikill. Ef 11 lýs ná að festa sig á sjógönguseiði er talið að seiðið nái ekki að lifa álagið af.  Eldiskvíar í sjó eru þess vegna illa séðar nálægt ám þar sem laxfiskar ganga til sjávar.

Laxalýs á sjógönguseiði

Yfirleitt er nauðsynlegt í eldiskvíum í sjó að halda lús í skefjum með lyfjagjöf. Sú viðleitni ber þó í seinni tíð minni árangur þar sem lúsin er í sumum tilvikum orðin ónæm fyrir meðferðinni. Engu að síður verja norsku eldisfyrirtækin árlega rúmlega 300 milljónum punda í baráttu gegn lúsinni. Nú virðist hins vegar í sjónmáli náttúruvæn lausn en Tilraunastöð Hafrannsóknarstofnunar á Stað í Grindavík hóf haustið 2014 tilraunaeldi á hrognkelsaseiðum til sleppinga í eldiskvíar. Seiðin eru fóðruð í kvíunum en „éta lúsina sem nokkurs konar ábætisrétt“. Eldisstöð Stofnfisks í Höfnum á Reykjanesi hefur alið seiðin og selt, mest til Færeyja um eina milljón seiða árlega. Haustið 2016 fóru 350.000 seiði með skipi til Skotlands. Að sögn framkvæmdastjóra Stofnfisks, dr. Jónasar Jónassonar, hafa hrognkelsin alveg haldið lúsinni niðri, sem kemur sér vel, þar sem „lúsin var nánast orðin ónæm fyrir öðrum vörnum“.

                                                                                                    Laxalús á skoskum laxi

Lúsin er algengust á höfði fiskanna og nærist á húðfrumum, slími og blóði. Sárin, sem hún veldur, geta leitt til blóðleysis hjá fiskinum og geta jafnvel drepið hann. Skaðsemi laxalúsarinnar hefur þannig leitt til þess að eldismenn hafa sett sér mörk um fjölda lúsa á hverjum fullorðnum fiski. Í Skotlandi er viðmiðið um góðar eldisaðstæður (Code of Good Practice) sett við 0,5 lýs á hvern fisk. Myndirnar að ofan er að finna á heimasíðu Salmon & Trout Association í Skotlandi. Efri myndin sýnir hvernig lúsin byrjar að éta fiskinn lifandi við höfuðið en sú neðri sýnir að þéttleiki lúsarinnar er ofan viðmiðunarmarka. Myndin hér að neðan sýnir svo hvernig fer fyrir laxinum á endanum.

Lax illa étinn af laxalús

Íslenskir stangveiðimenn þekkja að nýgenginn lax í ám hér á landi er með mun fleiri lýs en nemur skosku viðmiðunarmörkum og rannsóknir hafa sýnt að það þarf ekki mikið álag af lús til þess að það komi niður á líðan, sundgetu og æxlunareiginleikum laxfiska. Það er því eðilegt að reynt sé að takmarka útbreiðslu hennar og skaðsemi. Í laxeldi á landi er þessi vandi ekki til staðar. Hann er bundinn við sjókvíar.

Heimildir:

Bowler, M. (2016) „Legal limit for lice?“, FlyFishing&FlyTying, júlí 2016, bls.33.

„Salmon louse“, Wikipedia, sótt 2. september 2016.

Sandison, B. (2016) „Northern Climes“, FlyFishing&FlyTying, apríl 2016, bls. 80.

„Speaking for the Salmon“, Proceedings of the Summit of Scientists on Sea Lice, Simon Fraser University, júlí 2002.

„Útflutningur hafinn til Skotlands“, viðtal við dr. Jónas Jónasson, Morgunblaðið, Fiskifréttir, 6. október 2016, bls. 8.

Árni Árnason  ÁRVÍK © 2024

NÝJUSTU FRÉTTIR