Hvammsvirkjun Nauðsyn mats á umhverfisáhrifum Í neðri hluta Þjórsár hafa hugmyndir um þrjár virkjanir verið til umræðu. Ein þeirra, Hvammsvirkjun, hefur verið færð í nýtingarflokk og hefur Skipulagsstofnun tekið sér frest til ákvörðunar um hvort vinna þurfi umhverfismat fyrir þá framkvæmd. Sú ákvörðun á að liggja fyrir eigi síðar en 11. desember 2015.     Eldra umhverfismat er runnið út á tíma. Það var ekki unnið fyrir Hvammsvirkjun eina sér. Síðan þá hefur orðið sú breyting að göngufiskur hefur í vaxandi mæli helgað sér nýtt búsvæði ofan fossins Búða en fiskvegi var komið fyrir fram hjá fossinum á árinu 1991 til þess að bæta fyrir eldri virkjanir í ánni.  Göngufiskur hefur þess vegna getað sótt á ný til fyrri heimkynna ofar í ánni. Það var Suðurlandsskjálftinn á árinu 1896 sem, að sögn staðkunnugra, breytti farvegi árinnar. Þannig tók nánast algjörlega fyrir uppgöngu fisks ofar í ána. Staðbundinn fiskur hélt hins vegar heimkynnum sínum og þau ná alla leið að Háafossi. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752 til 1757 er hins vegar talað um Árnes sem kunnustu eyjuna í Þjórsá. Árnes hlýtur því að hafa orðið eyja fyrir þann tíma. Þar kemur Suðurlandsskjálftinn hinn 21. mars 1734 hugsanlega til greina en skjálftarnir 14. og 16. ágúst 1784 urðu síðar. Enn markar fyrir eiðinu á fossbrúninni.     Samkvæmt fiskteljara gengu samtals 2.474 fiskar á árinu 2014 á svæði árinnar ofan Búða.  Endanlegar tölur fyrir árið í ár liggja ekki fyrir. Göngufiskur er enn að nema þar land. Mat Veiðimálastofnunar fyrir árið 2012 var að svæðið ofan Búða hafi þá verið numið laxi á bilinu 17% til 41% reiknað út frá mismunandi forsendum um veiðiálag. Seiðamælingar benda einnig til að landnám ofan Búða eigi eftir að vaxa.  Það er einnig mat stofnunarinnar að aukin laxgengd í Þjórsá byggi á náttúrulegri fiskframleiðslu án alls vafa.  Hvammsvirkjun kann að valda verulegum skaða á þessum dýrmætu náttúrugæðum, sem munu fara vaxandi, ef ekki verður af virkjuninni.     Hugsanlegar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, eins og Hvammsvirkjun, hafa þá sérstöðu í samanburði við eldri virkjanir ofar í ánni að göngufiskur á sér nú heimkynni í verulegum mæli ofan þeirra. Hvammvirkjun mun þannig hafa tvenns konar óheillavænleg áhrif á göngufisk. Virkjunin mun bæði spilla mikilvægum uppeldisstöðvum ofan og neðan virkjunar en auk þess þarf fiskur að komast fram hjá virkjuninni bæði á leið sinni upp og niður ána. Mynd 1 sýnir hvernig virkjunin breytir farvegi árinnar, skapar uppistöðulón, sem skemmir uppeldisskilyrði ofan stíflunnar, og færir ármót Þverár og Þjórsár ofar í Þverá. Friðlandið í Viðey kann og að verða sauðfjárbeit að bráð.           Fyrirhugað virkjanastæði Hvammsvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun         Þekking á gerð fiskvega er mjög góð og fiskvegir hafa sannað gildi sitt í að veita fiski greiða leið upp ár fram hjá fossum.  Fiskvegurinn við Búða er dæmi um það. Göngufiskur á síðan áhættulitla leið til sjávar niður fossana sem stöðvuðu uppgönguna. Stíflur virkjana skapa hins vegar nýjan vanda. Þær eru fyrirstaða og hefta niðurgönguna. Hverflar virkjunarinnar hleypa ákveðnu hlutfalli seiða í gegn og talsmenn virkjunarinnar halda þeim lífslíkum á lofti. Það er hins vegar sjaldan nefnt að hlutfall endurkomulaxa í Þjórsá var 20% árið 2014.  Það segir að mun hærra hlutfall hrygningarstofnsins leitar til sjávar. Þessir laxar munu hins vegar ekki eiga greiða leið um hverfla virkjunarinnar þótt þeir verði af hagfelldustu gerð, þ.e. svo kallaðri Kaplan-gerð.  Til þess að leysa þennan vanda vilja virkjunarsinnar koma fyrir seiðafleytu þannig að seiði og niðurgöngufiskur fari ekki um hverflana með þeim afföllum sem sú vegferð skapar. Öllum laxfiskum hentar þó ekki sama útfærslan. Reynslan frá Bandaríkjunum sýnir það.  Virkni seiðafleyta er óviss og hefur ekki fengið neina gagnrýna umfjöllun í tengslum við Hvammsvirkjun. Það sem hentar Sockeye-laxi þarf ekki að henta Atlantshafslaxinum.     Seiðafleyta hefur verið hönnuð fyrir Urriðafossvirkjun og sama hönnun er lögð til grundvallar fyrir Hvammsvirkjun. Fyrirmyndin er sótt til vesturstrandar Bandaríkjanna, þótt Atlantshafslax eigi ekki heimkynni þar, en þær eru Wells-stíflan í Columbia-ánni og önnur við Cowlitz-fossana í Cowlitz-ánni í Washington-ríki. Niðurstöður rannsókna sýna að 89% seiða fara um seiðafleytuna við Wells-stífluna og 96% lifa það af. Árangurinn við Cowlitz-fossana er ekki jafngóður þótt hönnunin sé sú sama. Þar fara einungis 48% stálhausa (steelhead) um fleytuna en stálhaus er regnbogasilungur sem gengur í ár og vötn vestanhafs. Hlutfallið fyrir aðrar fisktegundir er lægra.  Það virðist því ljóst að Skipulagsstofnun ber skylda til að láta framkvæma gagnrýnið umhverfismat á Hvammsvirkjun með tilliti til áhrifa á göngufisk og hverju kann að vera fórnað í þeim efnum ef lax kemst einungis við illan leik til sjávar vegna virkjunarinnar. Annað væri óábyrgt vegna óvissunnar. Árni Árnason                                     © Árvík hf., nóvember 2015 og í apríl 2022

NÝJUSTU FRÉTTIR