Hundar og fluguveiði „Því betur sem ég kynnist mönnunum, því vænna þykir mér um hundinn minn.“ Þetta kaldhæðnislega viðhorf til meðbræðra sinna er eignað Friðriki II (1740-1786) konungi Prússlands í kennslubók í mannkynssögu sem ég las eitt sinn (1, 29). Friðrik þessi fékk síðar viðurnefnið hinn mikli eftir frækilega framgöngu í sjö ára stríðinu (1756-1763). Ekki er þó víst að hann eigi allan höfundarrétt á þessu orðtæki. Friðrik mikli var mikill aðdáandi Frakka og franskrar menningar en í frönsku er til nánast sama orðtakið: „Plus je vois les hommes, plus j’admire les chiens“ sem útleggst: Því meira sem ég sé af mönnum þeim mun meiri verður ást mín á hundum (2, 331). Hitt er víst að mörgum manninum þykir svo vænt um hundinn sinn að hundurinn er ekki skilinn eftir heima eða komið fyrir í gæslu, þótt farið sé til veiða.            Skál fyrir vatn (FP1673)              Skál fyrir þurrfóður (FP1741) Þótt hundar geti gengt mikilvægu hlutverki við skotveiðar er nærvera þeirra við veiðivatn í stangveiði til ógagns og jafnvel bönnuð. Svo er um t.d. um Hlíðarvatn í Selvogi. Það fer hins vegar vaxandi að veiðimenn hunsa það bann og virða það að vettugi. Nú fyrr í sumar (2009) átti ég orðastað við veiðimann við vatnið en hann var með hund með sér. Hundurinn sat hinn rólegasti á bakkanum og fylgdist með. Ég kynnti mig og gerði veiðimaður hið sama. Ég spurði hvort honum væri ljóst að hann væri að brjóta veiðireglur við vatnið. Honum var ljóst að svo var en taldi það í fullkomnu lagi þar sem ekki væri fé umhverfis vatnið þá dagana. Sauðburður stóð þá yfir og var fé í heimahögum Vogsósabænda. Felldum við svo talið og varð veiðimaður við ósk minni og fór með hund sinn heim í veiðihús. Þennan sama dag sá ég tvo aðra veiðmenn með lausa hunda við vatnið en gat ekki náð tali af þeim áður en þeir hurfu á braut. Þetta var um helgi. Eftir helgina fékk ég hins vegar upphringingu frá Vogsósum um hvort ég hefði orðið var við lausan hund. Bændur töldu sig hafa orðið vara við hund og óttuðust að hann legðist á fé í heimahögum. Hundar, sem tapast þannig, og leggjast á vergang eiga það á hættu að verða skotnir, enda hefur það of oft komið fyrir að hundar hafa lagst á fé Vogsósabænda.             Hálsól (FP1710, FP1727)              Hálstaumur (FP1734) Sú regla að banna lausagöngu hunda við Hlíðarvatn var sett sameiginlega af öllum veiðifélögunum sem hafa aðstöðu við vatnið. Meginástæðan voru þau tilvik að hundar hafa lagst á fé og drepið það. Lausaganga hunda spillir einnig varpi fugla. Fyrir nokkrum árum hafði æðarfugl verpt í Réttarnesinu. Það varp spilltist strax fyrir lausagöngu hunds. Það kann vel að vera að hundur láti varp í friði en æðarfuglinn forðar sér frekar en láta á það reyna hver hafi rétt fyrir sér í þeim efnum. Í þriðja lagi er rétt að minna á að veiðihúsin eru opin öllum félögum veiðfélaganna. Hér þarf að taka tillit til annarra. Ofnæmi fyrir hunda- og kattahárum er algengara en margur heldur og hjá sumum slíkt að andlitið bólgnar upp og augun sökkva einungis við að koma í snertingu við dýrahárið þó að hundurinn eða kötturinn sé hvergi nálægur. Loks eiga hundar það til að vaða út í vatn og fæla þar með fisk í burtu sem annars mætti veiða. Í Kastljósi Sjónvarpsins í lok júní var t.d. stuttur kennsluþáttur um fluguveiði í Elliðavatni. Hvorki kennari né lærisveinn urðu varir við fisk á meðan á myndatöku stóð. Þeir virtust ekki setja það í samband við að hundur kennarans synti hundasund í kringum þau og tókst þar með að fæla allan fisk á brott hafi hann ekki þegar verið búinn að forða sér við það eitt að hundurinn fór út í vatnið. Nú má ekki skilja skrif mín svo að mér sé í nöp við hunda. Síður en svo. Hundar geta líka gegnt mikilvægu hlutverki í skotveiði. Einhverju sinni skaut ég rjúpu á grein uppi í hlíð fyrir ofan Laugarvatn. Fuglinn féll af greininni til jarðar en fyrir mér lá að ganga upp hlíðina og þurfti ég að krækja fyrir djúpan skurð. Um leið og skotið reið af tók að snjóa og til jarðar féll meiri hundslappadrífa en ég hef reynt fyrr eða síðar. Mér var gjörsamlega ómögulegt að finna fuglinn. Snjórinn hafði falið hann kirfilega. Þegar ég hitti veiðifélaga minn síðar um daginn fékk ég lánaðan hundinn hans og það tók hundinn örskamma stund að finna bráðina. Hann gekk beint að henni á kafi í snjónum. Hásæti höfðingjans (FP2335) Í skotveiðinni hefur veiðimaður fulla stjórn á tömdum hundi án þess að tapa athygli sinni af veiðinni. Í stangveiðinni fer þetta hins vegar ekki saman. Veiðmaður getur ekki bæði fylgst með hundi sínum og einbeitt sér að veiðinni.  Því er best að skilja besta vininn eftir heima við þær aðstæður. Heimildir: (1) Ólafur Þ. Kristjánsson. (1949). Mannkynssaga handa framhaldsskólum. Síðara hefti. Akureyri: Bókaútgáfa Þorsteins M. Jónssonar. (2) Brewer‘s Dictionary of Phrase and Fable: Centenary Edition.(1970). London: The Folio Society.   Árni Árnason                                                                                                                  © júlí 2009 ÁRVÍK

NÝJUSTU FRÉTTIR