Hnúturinn eini

Eitt af því fyrsta sem menn læra að hnýta í æsku er að reima skóna sína en í fluguveiðinni eru það hnútarnir – og hvort tveggja virðist flækjast fyrir sumum. Jafnvel þekktir veiðimenn virðast eiga erfitt með að setja upp fluguhjól með baklínu, línu, taum og taumefni og fá aðra til þess að leysa það fyrir sig. Sú þjónusta er yfirleitt auðfengin í veiðibúðum og veitt með ánægju en það verður þó að viðurkennast að skemmtilegra er að geta þetta upp á eigin spýtur. Og á bakkanum er þessi kunnátta iðulega nauðsynleg.

Til þess að hjálpa mönnum í þessum efnum var fyrir margt löngu sett inn grein með myndum hér á heimasíðuna: Hnútar í fluguveiði. Þar er fjallað um fimm helstu hnúta sem línuframleiðendur mæltu þá með í þessu efni, þ.e. Hjólahnútinn (Arbour Knot), Línuhnútinn (Albright Knot), Taumahnútinn (Nail Knot), Blóðhnútinn (Blood Knot) og Öngulhnútinn (Improved Clinch Knot).   Ég hef notað þessa hnúta með góðum árangri í gegnum árin en verð þó að viðurkenna að ég hef lengi haft augun opin fyrir einfaldari og betri lausn. Sérstaklega hef ég ekki verið ánægður með öngulhnútinn, þótt sterkur sé, þar sem hann á það til að mynda 90 gráðu horn við fluguna þannig að hún verður afar óeðlileg í vatninu. Flugan þarf að leika laus og vera í sömu stefnu og línan.

Lausn í þessu efni sýndist mér vera hnútur sem kenndur er við Major Turle. Majorinn var frá Newton Stacey í Hampshire á Englandi. Hann gerði þennan hnút frægan frá fyrstu kynningu á árinu 1841. Tvöfalda útgáfan var síðan kynnt í Fishing News, í apríl 1946 af dr. Stanley Barnes. Myndin hér að ofan sýnir þá gerð. Sú endurbót eykur styrk hans en hann var 90% fyrir. Turle hnútinn má finna í flestum bókum um hnúta í veiði enda einna vinsælastur meðal fluguveiðimanna. Hann leysir hluta vandans en var ekki sú einfalda lausn sem ég leitaði að.  

Þá var það við lestur greinar eftir Dave Whitlock sumarið 2010 að ég komst að raun um að ég var ekki sá eini svona hugsandi og það sem meira var um vert Dave hafði fundið lausnina. Hún var Hnúturinn eini – Uni Knot. Þessi hnútur, sem einnig er kallaður Duncan Loop, gat komið í stað allra hinna hnútanna. Kostir hans eru einnig hversu auðvelt er að hnýta hann, jafnvel í myrkri, hann rennur ekki til og losnar og síðast en ekki síst heldur taumurinn 85% til 95% af styrk sínum þrátt fyrir hnútinn en allir hnútar draga úr togstyrk, þó mismikið. Dave fjallar um hnútinn í grein sinni One Knot sem birtist í FlyFishing & Tying Journal í sumarheftinu 2010. Hér er stuðst við frásögn hans og teikningar en Dave er þekktur fyrir myndir sínar og myndskreytingar með skrifum sínum. Lesandinn er beðinn velvirðingar að texti með myndunum er á ensku.  

Mynd 2

Hér kemur hnúturinn í stað Hjólahnútsins. Baklínunni er vafið tvisvar um ás fluguhjólsins. Hnúturinn er síðan hnýttur með fjórum vafningum og hert að. Baklínan er þannig vel föst á ásnum en næsta skrefið er að festa hana við flugulínuna sjálfa.  

Mynd 3

Hér er baklínan lögð með flugulínunni, lykkjan er síðan mynduð og fimm vöf vafin um baklínuna og flugulínuna og hert að. Endarnir eru síðan snyrtir.  

Mynd 4

Hér kemur hnúturinn í stað Nálarhnútsins eða Naglahnútsins. Nálinni er stungið inn í enda flugulínunnar, grennsti hluti taumsins er festur í auga nálarinnar og taumurinn er síðan dregin í gegn. Bera má dropa af Zap-A-Gap lími á hnútinn til þess að styrkja hann en það lím hentar einnig einkar vel til þess að festa tauminn á flugulínuna eins og fjallað er um í annarri grein hér á fróðleikssíðunni þar sem fjallað er um línu- og taumatengingar með Zap.  

Mynd 5

Hér er taumurinn og taumefnið lagt hlið við hlið og tveir hnútar hnýttir með sitt hvoru. Að endingu eru hnútarnir dregnir saman og endarnir snyrtir. Hér er komin útgáfa af Blóðhnút. 

Mynd 6

Uni hnúturinn kemur að einna bestum notum þegar flugan er hnýtt á enda taumefnisins. Hægt er að mynda misstóra lykkju eftir óskum. Flugan leikur þannig laus og er eðlilegt í vatninu. Þegar fiskur tekur herðist lykkjan að auga flugunnar. Hnúturinn virkar þannig eins og höggdeyfir. Mynd 6 sýnir hvernig flugan er hnýtt á.

Hnúturinn virkar vel hvernig svo sem augað snýr, upp, niður eða beint. Þurrflugan flýtur betur og straumflugur og gyðlur sýna eðlilegri hreyfingu í vatninu. Flugan sekkur hraðar og beinna. Hnútinn má loks nota til þess að festa „dropper“ aftan í bug á öngli þegar menn vilja veiða með fleiri en einni flugu. Þetta er því hnútur sem er virkilega vert að prófa og margir gætu tekið ástfóstri við.

Árni Árnason                                                                                   ÁRVÍK © 2024

Þessi skrif eru byggð á tveimur heimildum:

(1)   Budworth, Geoffrey (2003). The Book of Practical Fishing Knots. Wykey, Shrewsbury: The Swan Hill Press.

(2)   Whitlock, Dave (2010). One Knot. Flyfishing & Tying Journal, summer 2010, 38-40.

NÝJUSTU FRÉTTIR