Flugulínur – umhirða
Flugulínurnar sem við seldum frá Northern Sport og ARC Fishing, og fást nú hjá Veiðiflugum, eru töluvert tækniundur. Þær fljóta, sumar sökkva og enn aðrar bæði fljóta og sökkva. Liturinn er margvíslegur. Sumar eru jafnvel glærar.
Línurnar eiga að haldast mjúkar og vera meðferðilegar í kulda jafnt sem heitu veðri, þótt sumar þeirra séu betri í köldu vatni en aðrar. Þær þola hita og kulda, saltvatn og ferskvatn. Frammistaða línunnar ræðst hins vegar af því hversu góð húðin eða kápan á línunni er.
Kápan á þessum línum er með íblöndun af Teflon © sem eykur sleipieiginleikana og hrindir frá óhreinindum. ARC flotlínurnar eru auk þess með skorum langsum eftir línunni til þess að hún renni enn betur í lykkjunum. Hversu vel línan rennur í lykkjunum ræðst einnig að verulegu leyti af umgengni og umhirðu.
Umgengni. Margt getur valdið því að flugulínan þín skemmist. Það gerist að menn stíga á línuna eða slá henni í jörðina í bakkastinu. Sérstaklega á það við um byrjendur sem eru að ná tökum á kasttækninni. Það kemur sér því vel hversu hagstætt verð er á Northern Sport línunum. Svo má færa sig yfir í ARC flotlínuna þegar efni leyfa. Þá getur línan marist í hjólinu milli spólu og hjóls, eða af öðrum ástæðum.
Kápan (húðin) getur einnig farið illa af fleiri ástæðum. Sumir algengir vökvar innihalda t.d. leysiefni sem geta skaðað kápuna. Má þar nefna sólarolíu, flugnafæliáburð, flotefni fyrir flugur, eldsneyti og sum línuhreinsiefni.
Umhirða. Eitt er það þó sem dregur mjög úr frammistöðu og sérstaklega floteiginleikum línunnar en það eru óhreinindi alls konar. Erfitt er að forðast að margs konar þörungargróður setjist á línuna þegar veitt er. Þörungagróðurinn safnar í sig vatni og uppleystur fínn jarðvegur festist auðveldlega í þörungunum. Víða er hérlendis veitt á vatnamótum bergvatns og jökuláa. Jökulleirinn nær þar að setjjast á línuna. Slík óhreinindi geta verkað eins og sandpappír og eru þess t.d. dæmi að flugulína hafi myndað skorður í fluguhjól úr léttmálmi líkt og beitt væri þjöl svo gróf getur kápa línunnar orðið. Menn geta því ímyndað sér hversu mjög slík óhreinindi geta hægt á rennsli línunnar í gegnum lykkjurnar þegar kastað er og skemmt lykkjurnar.
Fyrir hreinsun og eftir hreinsun
Við þessu er auðvelt ráð. Línuna má þvo með örfáum dropum af sápu, t.d. í baðkari, eða nota mjúkan, rakan og hreinan klút. Notið ekki þvottaefni (detergent) þar sem það getur skemmt kápu línunnar. Gætið þess einnig að sápan innihaldi ekki ilmefni sem gætu truflað veiðar síðar. Sápuna á að hreinsa af línunni. Oftast er einungis nauðsynlegt að hreinsa fyrstu 10 til 20 metra línunnar, þ.e. þann hluta sem er í vatninu.
Sleipiefni og slípipúði frá Scientific Anglers
Óhreinindin uppgötvast stundum í miðri veiði, og má þá nota vasaklút eða skyrtulöfin og hreint vatn til að bjarga sér þótt best sé að nota sápu. Einnig eru til slípipúðar, t.d. frá Scientific Anglers sem eru góðir til að hreinsa línur. Hreinsi- og áburðarefnin sem við seldum frá Loon eru mjög góð til að bera á flotlínur eftir hreinsun, bæta flothæfni og rennsli í lykkjum.
Menn verða þó að varast að bera flotefni á sökklínur sem stundum gerist óvart og uppgötvast ekki fyrr en við veiðar þegar línan sekkur orðið treglega. Loon býður þess vegna upp á sérstakt hreinsiefni fyrir sökklínur. Myndin sýnir þá gerð:
Geymsla. Eftir veiðiferð er rétt að taka alla blauta línu niður af hjólinu og lofa henni að þorna. Spólan er einnig tekin af hjólinu og látin þorna. Rennblaut lína á hjóli í lokuðum umbúðum veit ekki á gott, hlutar í hjólinu ryðga og baklínan getur fúnað og getur slitnað þegar sá stóri tekur næsta sumar. Hins vegar er gott að geyma línuna á hjólinu yfir veturinn á þurrum og mátulega heitum stað. Hún liggur þá ekki í sól, er varin fyrir leysiefnum og óhóflegum hita eins og finna má í skottinu á bílnum eða bak við ofn. Línan kann þó að muna að vori að hún hefur verið upprúlluð allan veturinn og vill e.t.v. halda því áfram, en með því að teygja á línunni með því að toga í hana réttir hún úr sér og er tilbúinn í slaginn við þann stóra á ný.
Línur, sem framleiddar eru fyrir norðlægar slóðir, eins og línurnar frá Northern Sport eru hins vegar mun betri að þessu leyti og leggjast út beinar í köldu vatni að vori líkt og upprúlluð legan yfir veturinn sé að fullu gleymd. Línurnar eru með nánast ekkert minni. © ÁRVÍK hf. 2018