Flugulínur – lögun og þyngdir- Því þyngri sem línan er, þeim mun lengra er unnt að kasta henni.  Þyngri lína ber stærri flugu.  Þung lína fellur hins vegar ekki eins mjúklega á vatnið og léttari lína.  Til þess að besti árangur náist þarf línan að hæfa stönginni. Það er þyngd fyrstu 30 fetanna (9,14 metrana) sem ræður númeri línunar.  Það var American Fishing Tackle Manufacturers Association sem kom á þessum staðli á árinu 1961.  Almennt eru flugulínur á bilinu frá #1 til #12, þótt finna megi þyngri línur: Lína nr.   Þyngd       Lína nr.   Þyngd 1   3,89 g       7   11,98 g 2   5,18 g       8   13,61 g 3   6,48 g       9   15,55 g 4   7,78 g       10   18,14 g 5   9,07 g       11   21,38 g 6   10,37 g       12   24,62 g Léttar línur, frá # 1 til # 4 hæfa best til að kasta smáum flugum stutta vegalengd.  Línur á bilinu # 5 til # 7 hæfa flestum aðstæðum og flugustærðum.  Þyngri línur, # 8 og þyngri, eru til að kasta stærri flugum, t.d.. fyrir lax, langan veg og e.t.v. á móti vindi. Lögun flugulínunnar er aðallega tvenns konar: „Double taper“ (DT) eru frá miðri línu eins til beggja endanna.  Sumir silungsveiðimenn eru hrifnir af slíkum línum.  Þær henta vel í veltiköst og styttri köst.  Og þeim má snúa við á hjólinu þegar endinn í notkun er farinn að lýjast. Langflestar flugulínur á markaði hér eru framþungar „weight forward“ (WF).  Þyngdin er þannig mest öll á fyrstu 30 til 40 fetunum, en síðan tekur við grönn lína sem rennur vel í gegnum lykkjurnar.  Það er unnt að kasta slíkum línum lengra en DT línum, og þær eru betri viðureignar í vindi. Einnig eru framleiddar línur sem eru jafngildar alla leið, svokallaðar „level“ línur (L) og línur með skotenda, „shooting taper“ (ST). Almennt gildir um þessar línur varnarorð Stefáns Jónssonar „að gjalda varhug“ við þessum bókstöfum, „nema svo ólíklega vildi til að þú værir einmitt að leita að slíkum áhöldum.“  Skotlínur og skothausar hafa þó verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár og bjóða flestir framleiðendur nú upp á gott úrval af hausum og línum.  Númerakerfið er hér hins vegar annað en venjulega, og ráðleggja þeir að velja skothaus tveimur númerum þyngri en stöngin er gefin upp fyrir.  Þannig hæfir skothaus #6 oft stöng fyrir línu #4, skothaus #7 stöng fyrir línu #5 og svo framvegis: Stangarþyngd:   Þyngd á skothaus: 4   6 5   7 6   8 7   9 8   10 9   11 Almennt má segja, að það eigi að velja línu fyrir stöng af sömu þyngd og stöngin er gefin upp fyrir. Ef stöngin er fyrir línu #8 þá skuli velja línu #8. Þetta er þó ekki algilt. Sumar stangir eru gefnar upp fyrir tvær linuþyngdir. Þá hentar yfirleitt lægri þyngdin vönum kastara en sú hærri, þeim sem er að ná tökum á flugukastinu. Hér skiptir máli hversu mikil lína er úti og hleður stöngina. Það má til dæmis segja um stangir, sem eru stífar og hraðar, að þar geti borgað sig að yfirhlaða stöngina, fara einni línuþyngd ofar. Með sama hætti gæti verið rétt að velja línu, einni línuþyngd neðar, ef stöngin vinnur hægt. Það eykur hraða stangarinnar. Flugulínum er ýmist ætlað að fljóta (F), sökkva (S) eða fljóta og sökkva (F/S) þar sem línan flýtur en endinn sekkur.  Flotlínur eru oft áberandi að lit, svo að veiðimaðurinn sjái línuna betur.  Sumar skipta lit og eru ekki eins skærar að lit næst taumnum. Til eru glærar sökklínur fyrir grynnra vatn, en yfirleitt eru línur dökkgrænni eftir því sem þær sökkva dýpra. Af framansögðu ætti lesandinn að geta ráðið í merkingum á umbúðum flugulína.  Sem dæmi þýðir WF-8-F/S Clear að línan er framþung (WF), fyrir stöng fyrir línu # 8. Línan flýtur (F), en endinn sekkur (S) og hann er glær (clear).  Merkingin hér á eftir er á Ultra 4 línunni frá Scientific Anglers, en hún var framþung (WF) flotlína, hér af þyngd 7.  Liturinn er Sunrise (skærgulur) og hún er 27 m löng (90 fet):     © ÁRVÍK hf. 2015

NÝJUSTU FRÉTTIR