Gerð og gerðir flugulína   Scientific Anglers fann upp fyrstu flotlínuna eins og við þekkjum hana árið 1958.  Þetta var lína með PVC kápu utan um kjarna (core). Við gerð kápunnar (coating) var notuð ný tækni 3M sem nefnd er örbólur (microballoon). Örbólurnar búa til innbyggða floteiginleika í línuna. Línan hlaut vöruheitið Air Cel og er enn í fullu gildi. Auk kjarnans og kápunnar ráða lögun (taper) og litur miklu um útlit og gerð flugulínunnar. Skoðum þessa fjóra þætti nokkru nánar.   Kjarni   Kjarni línunnar ákvarðar togstyrk, teygjanleika og stífleika hennar. Ef einum eiginleika er breytt hefur það áhrif á hina tvo. Styrkur línunnar þarf að vera meiri en taumefnisins sem ætlunin er að nota þannig að taumefnið gefi sig fyrr en línan. Lína af þyngdinni 2 kann t.d. að gefa sig við níu kg átak þegar þyngri lína, ætluð til veiða í sjó, þolir 20 kg átak. Teygjanleiki ræður því hversu viðráðanleg línan er. Línan má ekki vera of teygjanleg en samt þarf að vera hægt að teygja á línunni til þess að slétta úr henni ef hún hringar sig. Sérstakir púðar eða strekkjarar eru fáanlegir til slíkra verka, m.a. frá Marryat. Loks skiptir stífleiki kjarnans máli en framleiðendur hafa hannað mismunandi kjarna, t.d. ofinn einþráðung, ofinn fjölþráðung og sveran einþráðung einan sér til þess að gera stífleikann breytilegan. Ofinn einþráðungur er t.d. góður kjarni fyrir veiðar í volgu vatni hitabeltisins en slík lína hefur alltof mikið ,,minni“ í því svala veðri sem íslenskir veiðimenn eiga að venjast.   Kápan   Hlutverk kápunnar er að skapa þyngdina sem gerir kleift að kasta línunni. Þótt talað sé um að kasta flugu er í reynd verið að kasta línunni. Flugan fylgir aðeins með. Það er jafnvel ókostur og gerir kastið erfiðara ef flugan er það þung að hún fylgir ekki línunni og taumnum eðlilega eftir eins og er um þyngdar flugur og keiluhausa.            Kjarni      Örbólur í kápu fyrir flot Wolfram (tungsten) í kápu fyrir sökk                                                                                    Mynd 1. Eðlisþyngd kápunnar ræður því hvort línan flýtur eða sekkur. Ef kápan er með hærri eðlisþyngd en vatn sekkur línan. Til þess að láta línuna fljóta nýta framleiðendur örbólutækni. Örsmáum loftbólum, sem þó líta út eins og duft, sbr. mynd 2, er komið fyrir í kápunni eins og mynd 1 sýnir. Það eru örbólurnar sem fá línuna til þess að fljóta. Auk þess eru vatnsfælin efnasambönd innbyggð til þess að línan hrindi frá sér vatni og fljóti betur og hærra í vatninu. Aquanova-flotlínan frá Northern Sport er t.d. með Teflon® í kápunni. Það er gott sleipiefni frá DuPont og auðveldar þrif. Viðnámið í línunni verður minna og hún rennur betur í lykkjunum.                  Örbólur               Glerperlur   Wolfram (tungsten)   Mynd 2 Til þess að stýra sökkhraðanum nota framleiðendur almennt tvær leiðir. Línan sekkur hægt þegar örsmáum glerperlum er bætt í kápuna en hratt þegar wolfram (tungsten) í duftformi er bætt í hana eins og myndir 1 og 2 sýna. Þannig getur línan sokkið eins og blý en án þess þó að vera á nokkurn hátt umhverfismengandi eins og gæti verið ef blý væri notað. En það er ekki nóg að vernda umhverfið. Það þarf líka að vernda línuna fyrir áhrifum sólarinnar. Í því skyni er sólarvörn blandað í kápuna til þess að vernda hana fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar. Flugulínur sökkva hins vegar misjafnlega eftir því hvernig þær eru framleiddar. Báðar sökklínurnar, sem Árvík hf. selur frá Northern Sport, eru beinsökkvandi, þ.e. sökkva hraðast og fyrst næst agninu. Veiðimaðurinn nær þannig beinu sambandi við fiskinn. Þetta er sérstaklega gott í vatnaveiði og auðveldar veiðimanni að greina grannar tökur sem hann missir auðveldlega af ef línan sekkur hraðast um miðjuna. Í þeim tilvikum tapast það nána samband sem þarf að vera á milli veiðimanns og fisksins.   Lögun   Lögun línunnar ákvarðar hvernig hún svífur í loftinu. Með því að breyta sverleika línunnar og lengd vissra hluta hennar er kasteiginleikunum breytt. Með löngum, sverum búk (belly) má auka kastlengdina og nákvæmnina, en með stuttum búk má kasta hraðar en þá á kostnað nákvæmni. Ef búkurinn er með lögun eins og kólfur er auðveldara að kasta línunni í mótvindi. Mynd 3 sýnir helstu hluta flugulínu: Mynd 3 Auðveldast er að ná löngum köstum með framþungri línu en slíkar línur eru merktar WF (weight forward). Það vill þó oft gleymast að fiskurinn er oft nær en við höldum, alveg við bakkann eða stutt frá landi. Flestir fiskar veiðast yfirleitt í 10 til 12 metra fjarlægð frá veiðimanninum. Það er því misskilningur að því þyngri sem línan sé þeim mun betur gangi að veiða þó að auðverldara sé að kasta þungum línum. Létt lína hentar betur fyrir stuttar fjarlægðir. Hún lendir léttar á vatninu og truflar fiskinn síður.   Litur   Litur flotlínu skiptir fiskinn afar litlu máli. Fiskurinn sér línuna sem skugga á yfirborðinu og langur taumurinn skilur fluguna frá línunni þannig að liturinn truflar fiskinn ekki að neinu marki. Það felst miklu meiri truflun í því að draga línuna óvarlega þannig að vatnið gárist eða kasta henni fram og til baka í loftinu yfir fiskinum. Það fælir fiskinn. Litur flotlínu er því smekksatriði og velja má þann lit sem veiðimaðurinn er hrifinn af eða sér best. Glærum flotlínum fylgja t.d. takmarkaðir kostir ef veiðimaðurinn sér línuna illa. Auk þess endurkastar hún ekki birtu eins og vatnið og myndar skugga á því. Fiskurinn sér þá skuggann sem veiðmaðurinn sér ekki.   Ofan í vatninu gegnir öðru máli. Þar nýtur glær lína sín vel í tæru vatni.  Í dýpra vatni er best að velja lítt áberandi liti, oftast grænan eða brúnan. Liturinn verður síðan æ dekkri eftir því sem línan á að sökkva dýpra vegna þess að birtan minnkar eftir því sem neðar dregur. Ljós lína veldur frekar truflun í dýpinu. Hér skiptir taumefnið líka miklu máli, að það sé valið eftir aðstæðum. Brúnleitur taumur kann að vera góður í ám á Írlandi, sem renna í gegnum mýrlendi en í tæru Þingvallavatninu sést hann langar leiðir. Þar hentar glær taumur vel, t.d. nælontaumur eða fluorocarbon-taumur ef menn vilja það besta. Í sumum vötnum er vaxandi þörungagróður þegar líður á sumarið og fölgrænn taumur, t.d. frá Kamasan, reynist þá vel. Fiskurinn sér liti og hann sér vel. Og í vötnum hefur hann nægan tíma til þess að skoða agnið og tauminn. Það sem er óeðlilegt fælir hann í burtu.   Flotlínur   Fyrsta línan fyrir byrjendur í fluguveiði er yfirleitt flotlína. Ástæðan er sú að hana má nota við mjög margar aðstæður. Kostur er að línan fljóti hátt og þoli vel kulda þegar veiða á við íslenskar aðstæður. Flotlínan, sem Árvík hf. selur frá Northern Sport, flýtur mjög hátt í vatninu enda er línan 25% léttari að eðlisþyngd en vatn. Nafnið gefur þetta til kynna en það er 75 Extra High Floating.  Línan leggst þráðbein, þegar henni er kastað, jafnvel í kulda þannig að gott og beint samband myndast við fiskinn þegar hann tekur. Liturinn er Salmon þ.e. laxableikur þannig að línan sést vel ofan á vatninu. Flotlínur mynda skugga á vatninu, sem fiskur sér, þannig að glær flotlína er frekar ókostur. Fiskurinn sér hana en veiðimaðurinn ekki. Línur sem fljóta og sökkva   Það getur verið töluvert erfitt að byrja að kasta sökklínu, þ.e. að ná henni upp af vatninu, nema búið sé að draga hana það mikið inn að hún fljóti nánast öll á yfirborðinu. Það fylgja því þess vegna kostir að veiða með flotlínu með sökkenda. Sökkhraðinn á endanum á FS Sink Tip Aquanova-línunni, sem Árvík selur frá Northern Sport, er 4 til 10 cm/sek sem hentar við velflestar aðstæður, sjá mynd 4. Sökkendi línunnar er grár en sjálf er línan græn. Sökkendinn þarf að hæfa dýpi og straumþunga  Mynd 4 Sökklínur   Silungur finnur og neytir mest af fæðu sinni undir yfirborðinu, eða u.þ.b. 90%. Það liggur því beint við að koma agninu niður til hans með sökklínu. Með sökklínu má draga fluguna eftir botninum eða á ákveðnu dýpi en sökkendinn leitar alltaf upp á við þegar veiðimaður dregur inn flotlínu með sökkenda. Margt af fæðunni er að vísu á uppleið úr vatninu og þar hentar sökkendinn en sökklínan býður upp á láréttari hreyfingu fyrir fluguna. Laxinn kemur ekki í ána til þess að leita sér fæðu og ýmsar skoðanir eru uppi um það af hverju hann tekur flugu. Oft kemur hann upp til þess að taka fluguna en oftar en ekki þarf að koma flugunni niður til hans og egna fyrir laxinn beint fyrir framan nefið á honum. Sökklínan kemur því oft að góðu gagni. Sökkhraði þarf að hæfa dýpi og straumþunga   Mynd 5 Sökklínurnar, sem Árvík selur frá Northen Sport, eru báðar beinsökkvandi. Sú, sem sekkur hægar, 130 Intermediate Sink-línan, er með sökkhraða sem veiðmenn kalla gjarnan intermediate, sbr. mynd 5. Hún sekkur frá 3 til 7 cm/sek en hin sekkur hraðar, frá 5 til 10 cm/sek enda ber hún heitið 160 Extra Fast Sinking. Litur intermediate-línunnar er dökkbrúnn en litur þeirrar sem sekkur hraðar er dökkgrænn. Slíkir litir eru gjarnan valdir fyrir sökklínur til þess að þær sjáist síður á miklu dýpi. Birtan minnkar eftir því sem neðar dregur og ljósar línur skera sig þess vegna úr í myrkrinu. ÁRVÍK hf. © 2012

NÝJUSTU FRÉTTIR