Marryat hnýtingaverkfærin       Marryat framleiðir vönduð og falleg verkfæri til fluguhnýtinga.  Fluguhnýtarinn finnur það fljótt hversu ánægjulegri hnýtingarnar verða þegar verkfærin vinna vel og fara vel í hendi.  Hér verður gerð grein fyrir helstu verkfærunum: Skæri eru til bæði bogin (MR115) og bein (MR114).  Sigurjón Ólafsson, Íslandsmeistari í fluguhnýtingum og höfundur kennsluefnis á myndböndum um fluguhnýtingar segir um þessi skæri:  „Það verður að segja eins og er að þetta eru með betri skærum sem ég hef notað.  Þau eru flugbeitt, lengdin hentar mjög vel, auðvelt að koma þeim að efni á minnstu flugum, fingragötin af góðri stærð og mjög gott að hafa þau fóðruð með gúmmí.  Toppskæri.“ Keflishöldurnar eru fáanlegar bæði með (MR101C) og án (MR101) keramík í röri keflishöldunnar.  Keflishöldur með keramík (ceramic) í röri eru dýrari en þær slíta þráðinn síður sem munar miklu.  Keflishalda sem slítur hnýtingarþráðinn er lítill gleðigjafi við hnýtingarborðið. Kragavörnin (hackle guard) er gott tæki (MR111) til þess að verja kraga þurrflugunnar á meðan haus flugunnar er byggður upp og lokið er við gerð hennar með lökkun. Dubbing Twister (MR2002) er áhald sem notað er til að snúa hnýtingarþræðinum um búkefnið og spinna það fyrir hnýtingu þegar búa á til loðinn og lifandi búk á silungaflugum. CDC Feather Tool (MR109) er áhald til þess að hnýta vængi. Nálin (Bodkin –  MR1982) er með segul í oddi sem auðveldar að tína upp öngla.  Hún er notuð við lökkun og til fleiri nota.  Hnúður á fótstykkinu kemur í veg fyrir að hún renni út af hnýtingarborðinu. Þræðarinn (MR110) er þægilegt verkfæri til að ná hnýtingarþræðinum í gegnum rörið á keflishöldunni. Finisher (MR2019) er tól til þess að hnýta hálfhnút (half hitch), en hnýtir ekki lokahnútinn.  Lokahhnútinn má hnýta með höndum, en C&F býður einnig upp á sérstakt verkfæri til þess. Kragatöngin (Hackle Pliers) er klemma (MR100) sem notuð er til þess að vefja kraga þurrflugunnar.  Klemman varnar því að kragafjöðrin renni til baka og auðveldar vafninginn án þess að skera fjöðrina í sundur. C&F Design kom fyrir nokkrum árum með á markaðinn einstaklega vel hannað fluguhnýtingasett, sem auðvelt er að ferðast með. Í settinu er hnýtingaþvinga, öll helstu verkfærin og geymsla fyrir öngla. Öllu þessu er haganlega fyrirkomið í meðfærilegu boxi sem er einungis 11,5 sm breitt, 20 sm langt og tæplega 4 cm þykkt. Hægt er að kaupa öll verkfærin sérstaklega, og einnig er hægt að fá settið með hnýtingaþvingunni án verkfæra og bæta þeim í safnið smám saman. Þessi hönnun K. Yonenoi tekur öðru fram í verkfærum til fluguhnýtinga.  ATH: Önglar og hnýtingargarn fylgir ekki með í settinu  © ÁRVÍK hf. 2008

NÝJUSTU FRÉTTIR