Fluguhjól

Hvað ber að hafa í huga við val þeirra

Hjólið er ein af elstu og mikilvægustu uppgötvunum mannsandans. Í fluguveiðinni hefur þessi uppgötvun verið útfærð með mismunandi hætti við gerð fluguhjólsins. Þessum línum er ætlað það hlutverk að skýra og ræða helstu atriði og eiginleika í gerð fluguhjólsins og þau áhrif sem mismunandi eiginleikar hafa á notkun hjólanna í stangveiði.

Almennt séð borgar það sig að velja vönduð veiðihjól. Þau auka ánægjuna við veiðarnar. Þau endast lengur og komi eitthvað fyrir þau má fá í þau varahluti og fá gert við þau. Vönduð hjól eru léttari, sterkari og nákvæmari smíð en þau ódýrustu. Kostir léttra og vandaðra flugustanga úr grafít fara fyrir lítið ef fluguhjólið er þungt og klossað. Þessa hluti verður að velja rétt saman.

Með nokkurri einföldun má segja að hlutverk fluguhjólsins sé þríþætt. Því er ætlað að geyma línuna þegar hún er ekki í notkun, ná henni fljótt inn þegar fiskur tekur og loks að halda við fiskinn þegar hann reynir að komast undan. Við val á fluguhjóli er þó nauðsynlegt að hafa fleiri atriði í huga. Hér á eftir verður farið yfir helstu atriðin sem skipta máli við valið.

Stærð. Hjólið verður að vera af þeirri stærð sem hentar stönginni og línunni sem ætlunin er að nota. Algeng lengd á flugulínu fyrir einhendustöng er rúmir 27 metrar (90 fet). Til viðbótar þarf hjólið að rúma baklínu eða undirlínu, mislanga eftir tegund bráðarinnar, og þeim mun lengri sem fiskurinn er stærri og kraftmeiri. Hjól fyrir tvíhendur (stangir þar sem báðum höndum er beitt í kastinu) eru enn stærri, enda eru línur fyrir þær stangir um og yfir 40 metra langar (120 til 140 fet) og hjólið þarf að rúma enn lengri og sterkari baklínu.

Hafa þarf í huga að flotlína tekur meira rúm á hjólinu en sökklína sömu þyngdar. Ástæðan er sú að í kápu flotlínunnar eru örbólur sem auka þvermálið, þótt örsmáar séu, til þess að hún fljóti. Sökklínan er ekki með loftbólum og þess vegna grennri. Yfirleitt gefur framleiðandinn þess vegna upp hversu þunga flotlínu hjólið taki, auk baklínu í 20 eða 30 punda styrkleika. Ef flotlína rúmast á hjólinu er nægt pláss fyrir sökklínuna af sömu þyngd. Leiki vafi á hversu mikið hjólið rúmar af undirlínu, auk flugulínunnar, má vinda línuna upp á hjólið fyrst og baklínuna síðan, og sjá þannig hversu mikið af baklínu hjólið rúmar.

Línugeymsla. Þó að fluguhjólið sé góður staður til þess að geyma línuna telja sumir betra að spóla línuna niður af hjólinu og vinda hana upp í stærri hringi til geymslu yfir veturinn. Þetta á að vera óþarfi ef sæmilega löng baklína er á hjólinu og línan er góðrar gerðar. Mun minni hætta er á að línan verði fyrir hnjaski á hjólinu sjálfu. Hins vegar er nauðsynlegt að línan sé hreinsuð og þurrkuð eftir hverja veiðiferð og sérstaklega vel fyrir geymslu hennar á hjólinu yfir vetrarmánuðina. Ef línan er skítug og blaut þegar hjólið er sett í vetrargeymslu, verður hún sennilega með myglubletti að vori, undirlínan e.t.v. fúin og ryðskemmdir í og á hjólinu.

Hemillinn. Öflugur hemill er ekki nauðsynlegur á litlu og nettu hjóli sem ætlað er til veiða á minni silungi. Mikilvægi hemilsins vex hins vegar með stærð fisksins sem ætlunin er að veiða. Þar þjónar hemillinn tvíþættum tilgangi. Í fyrsta lagi kemur hann í veg fyrir að hjólið snúist of hratt og haldi áfram að snúast eftir að fiskurinn hefur numið staðar. Snúist hjólið of hratt, flækist línan. Þetta hlutverk hemilsins er ekki síður mikilvægt en hinn tilgangurinn, það að hemja línuna. Hemillinn gerir fiskinum erfiðara að draga út línuna og það þreytir hann. Þegar fiskur er þreyttur er viturlegt að setja ekki allt traust á hemil hjólsins. Beita þarf stönginni rétt. Reisa á stöngina upp þegar fiskur tekur. Einnig má halla henni til hliðanna á víxl til þess að breyta átakinu sem þreytir fiskinn. Við veiðar í á er rétt að fara niður fyrir fiskinn þannig að hann syndi upp í strauminn frá veiðimanninum. Þá hefur fiskurinn allt á móti sér, hemilinn, stöngina og strauminn.

Einfaldasta og algengasta hemlunin er hak sem fellur í tannhjól. Með stillanlegri fjöður má auka þrýsting á hakinu í tannhjólið og auka þannig snúningstregðuna. Þessi hemlun er yfirleitt á hjólum til silungsveiði. Diskahemillinn kemur til sögunnar þegar auka þarf hemlunina. Hann vinnur svipað og diskabremsur á bifreiðum, þegar bremsuklossa eða -púða er þrýst að sléttum málmdiski til þess að draga úr snúningshraðanum. Með auknum þrýstingi eykst hemlunin.

Sum hjól eru einnig þannig gerð að jaðarinn á spólunni í hjólinu er frír. Þá er unnt að þrýsta lófanum á jaðar spólunnar til hemlunar. Nauðsynlegt er að vera með hanska þegar þetta er reynt og varast ber að meiða sig á handfangi spólunnar sem getur slegist óþyrmilega í fingur manns þegar lítil hemlun er á hjólinu og fiskur rýkur af stað. Til eru hjól þar sem handfangið snýst ekki með hjólinu í báðar áttir.Online hjólið frá Marryat er dæmi um slíkt og á því hjóli er hemluninni stjórnað frá handfanginu.

Marryat Online

Vinstri – hægri. Fluguhjól sem framleidd eru fyrir Bandaríkjamarkað eru yfirleitt sett upp þannig að vinstri hönd sé beitt til þess að vinda línuna inn á hjólið. Bandaríkjamenn eru ekki allir örvhentir heldur er þar í landi sú venja að kasta með hægri hendinni og vinda línuna inn með þeirri vinstri hjá þeim sem eru rétthentir. Hér á landi færa menn hins vegar flestir stöngina yfir í vinstri hendi þegar vinda þarf línuna inn með þeirri hægri.

Á flestum hjólum er einfalt að breyta hemluninni og útfæra hjólið annaðhvort fyrir vinstri eða hægri hönd. Það er gert með því að snúa við virkni hemlunarinnar sem oft má gera með því að snúa við einu tannhjóli. Það þarf hins vegar að ákveða hvora uppsetninguna menn vilja nota áður en línan er spóluð á hjólið. Skipti menn um skoðun má hins vegar alltaf taka alla línuna og undirlínuna niður af hjólinu og spóla inn að nýju fyrir hina höndina.

Efni og smíð. Ál er algengasta efnið í fluguhjólum en aðferðin við smíðina ræður mestu um hversu vandað hjólið verður. Lengi vel tíðkaðist að hella bráðnu áli í smíðajárnsmót þegar hjólin voru steypt. Frá miðjum sjötta áratug síðustu aldar og langt fram til loka þess níunda voru öll Hardy-hjólin framleidd með þessum hætti. System 2 hjólin frá Scientific Anglers eru framleidd með svipaðri aðferð, nema bráðnum málminum er þrýst inn í afar dýr og sérstaklega hert pressumót úr stáli. Stærð hjólsins verður mun nákvæmari. Þess vegna er lítillar slípunar og eftirmeðferðar þörf til þess að allir hlutir passi vel saman. Hjólin verða heldur ekki eins brothætt. Þriðja aðferðin og sú kostnaðarsamasta er að smíða hjólið úr óbræddum álmálminum (bar stock) beint. Málmurinn er stífur við þessar aðstæður og unnt er að sníða hann í þynnur og móta. Þessi aðferð breytir ekki sameindauppbyggingu málmsins og gerir kleift að smíða mjög sterkt hjól. Loks má nefna að unnt er að húða yfirborð hjólsins með rafhúðun (anodize) þegar þessi aðferð er notuð. Þá veitir húðunin afar góða vernd gegn rispum og tæringu. Hjól, sem ætluð eru fyrir veiðar í söltu vatni og sjó, eru húðuð þannig.

Hjól, sem framleidd eru úr grafíti með sprautusteypu, eru frekar létt og mun ódýrari en þau sem eru úr málmi. Þau eru hins vegar ekki eins endingargóð og ekki eins nákvæm smíð og álhjólin. Hlutar þeirra þurfa einnig að vera talsvert þykkir til þess að öðlast nægan styrk. Hjólin eru einnig heilsteypt þannig að brotni t.d. fótstykkið getur hjólið verið ónýtt.

Hjólásinn. Hin seinni ár hefur það orðið algengara að smíða hjól með sverum hjólás (Large Arbor). Þessi hönnun er þó ekki ný af nálinni. Hardy var t.d. farið að gera tilraunir með slíka útfærslu þegar árið 1911. Kostir þessarar hönnunar eru einkum að línan hringast ekki eins vegna aukins þvermáls ássins, hjólið snýst hægar í hemluninni og fljótlegra er að ná línunni inn. Hjólin eru hins vegar umfangsmeiri, bæði að þvermáli og breidd, heldur en hjól með einum mjóum ási. Þau eru auk þess þyngri en slík hjól, enda er spólan í reynd með tveimur ásum. Large Arbor hjólin taka einnig minna af undirlínu heldur en jafnstór hjól hefðbundin, en undirlínan býr til sverari ás fyrir flugulínuna til þess að hringast upp á. Þá er það einnig kostur að undirlínan er jafnframt til reiðu, upp á að hlaupa, ef fiskur tekur strikið.

SA Large Arbor

Varahlutir og viðhald. Yfirleitt er unnt að fá aukaspólur með öllum betri hjólum. Við hönnun System-hjólanna frá Scientific Anglers hefur þess einnig verið gætt að spólur á nýrri hjól passi á eldri gerðir. Þá hefur verið unnt að fá varahluti í hjólin. Þetta skiptir máli af því að vandað fluguhjól getur enst í margar kynslóðir ef það er þrifið eftir veiðiferð og látið þorna. Rétt er að smyrja hjólið reglulega, t.d. með Reel Lube frá Loon, en gæta ber þess að smurfeitin fari ekki á diskabremsuna. Feitin eyðileggur hemlunina.

Úrvalið. Að lokum verður hér gerð grein fyrir framboði á fluguhjólum frá tveimur seljendum, Scientific Anglers og Marryat. Flestir veiðimenn ættu að geta fundið hjól við sitt hæfi í því úrvali sem þessir seljendur bjóða.

System 2 hjólin frá Scientific Anglers hafa verið mest seldu diskabremsuhjólin í heiminum. Þau eru ætluð til veiða á stærri fiski. System 2L hjólin hæfa einnig vel til slíks og sérstaklega til sjóbirtings- og silungsveiði, enda eru þau minni um sig og léttari, en taka að sama skapi ekki eins mikla undirlínu. Engu að síður eru þau mikið keypt til laxveiði, enda tekur 89L hjólið línuþyngd 9 og 164 metra (180 yd) af 20 punda (9 kg) undirlínu sem hæfir vel aðstæðum hér á landi. System 1 hjólið er gott silungsveiðihjól á afar hagstæðu verði.

SA System 2
SA System 2L
SA System 1

Scientific Anglers býður einnig upp á létt hjól úr grafíti, Concept, á hagstæðu verði. Þetta eru hjól sem margir byrjendur velja. Þau eru bæði fáanleg í hefðbundinni útfærslu í tveimur stærðum og einnig með sverum hjólás (large arbor) í tveimur stærðum. Þessi hjól eru öll með diskabremsu.

Nýjustu hjólin frá Scientific Anglers eru Large Arbor hjól í þremur stærðum. Þau eru nákvæmnissmíð úr álstöngum (bar stock) og húðuð með rafhúðunartækni til þess að gera þau endingarbetri.

Marryat ávann sér sérstakt orð hér á landi fyrir rúmum tveimur áratugum fyrir ótrúlega létt álhjól sem framleidd eru í Japan. Þau eru enn sígild. Þau fást svört, en einnig gull- og bronslituð. Þau eru smíðuð úr álstöngum og rafhúðuð og hemillinn er margreyndur.

Fyrir nokkrum árum hóf Marryat framleiðslu á svipuðu, en ívíð efnismeira hjóli í Sviss. CMR hjólið er einnig framleitt úr álstöngum og rafhúðað. Framleiðslan búin þeirri nákvæmni sem Svisslendingar eru þekktir fyrir.

CMR
CMR Online

Fyrir nokkrum árum kom Marryat fram með nýja útgáfu af CMR hjólinu, CMR Online, sem vann til verðlauna sem besta nýja hjólið á EFTTEX-sýningunni 2003. Hönnunin er mikil bylting þar sem hemillinn er í handfanginu og auka má og minnka hemlunina með fingrunum um leið og línan er spóluð inn. Á sama tíma getur spólan snúist í báðar áttir.

Þá má ekki gleyma Large Arbor hjólunum frá Marryat sem hafa fengist í þremur stærðum fyrir línuþyngd 3 til 9, og nú í MX gerð sem rúmar línuþyngd 11 og 155 metra (170 yd) af 30 punda (13,6 kg) undirlínu. Þessi hjól hafa fengið afar góðar viðtökur fyrir vandaða smíð og fallega hönnun.

Large arbor
Large arbor MX
Hatch

Á árinu 2008 tók Árvík að sér dreifingu á nýjum fluguhjólum framleiddum af Hatch í Bandaríkjunum. Hatch hjólin eru sérstök gæðasmíði. Hemlunin er innilokuð diskahemlun þannig að óhreinindi komast ekki í hemlunina. Hjólin eru úr heilsteypt úr áli og rafhúðuð. Skrúfan, sem festir spóluna, er áföst henni þannig að ekkert týnist þegar skipt er um spólu. Hjólsætið er jafnvel hluti hljólsins þanniga að þau henta sérstaklega vel til veiða í sjó eða söltu vatni. Þau eru gæðagripir sem auka ánægjuna við veiðina.  

Á sérstöku skjali er gerð nánari grein fyrir ofangreindu úrvali hjóla. Þar er tilgreint hvernig hemlunin er, hversu þung hjólin eru og hversu mikið þau taka. Loks er þess getið úr hverju hjólin eru smíðuð eða steypt.

NÝJUSTU FRÉTTIR