Finna fiskar til?

Vísindamenn, jafnt sem veiðimenn, hafa spurt sig ofangreindrar spurningar árum saman án þess að komast að endanlegri niðurstöðu. Það var því með nokkurri forvitni sem ég hóf að lesa bók með þessu heiti á ensku eftir Dr. Victoriu Braithwaite. Bókin er byggð á athugunum hennar. Bókin kom út árið 2010 hjá Oxford University Press.

Bókin er 194 blaðsíður og ekki hraðlesin. Dr. Braithwaite fer í gegn um alls konar athuganir og svarið við spurningunni liggur ekki ljóst fyrir af lestrinum. Það er fyrst á blaðsíðu 183, næst síðustu blaðsíðu bókarinnar, að höfundurinn spyr beint út „Do fish feel pain?“ og hún svarar „Yes, they do.“ Svarið er þó því miður ekki nægilega augljóst af því sem á undan er skrifað.

Auðvitað líður fiskum ekki vel á þurru landi eða á dekki fiskibáta frekar en okkur ef við erum of lengi í kafi í vatni. Þá er ljóst að fiskar geta orðið fyrir streitu sem hefur áhrif á kjötgæðin í nokkurn tíma á eftir en sú tilfinning líður hjá. Bókin svarar því þó aldrei vel hvort fiskar skynji sársauka og finni til. Í lok þriðja kafla tekur hún þó fram að fiskar skynji sársauka en það sé þó ekki ljóst hvort fiskar finni til eða þjáist vegna þeirrar reynslu.

Dr. Braithwaite tiltekur tvennt sem hún telur að veiðimenn misskilji. Í fyrsta lagi synda veiddir fiskar burt frá veiðimanninum og auka þannig á þrýsting og afleiddan sársauka á þeim stað þar sem öngullinn festist. Veiðimenn halda að fiskar gerðu þetta ekki ef þeir finndu til. Aðrir vísindamenn telja þessi viðbrögð fiskinum eðlislæg að forða sér þegar hreyfimöguleikar þeirra eru heftir hvað svo sem sársauka líður. Í öðru lagi nefnir hún þá staðreynd að hægt sé að veiða sama fiskinn oftar en einu sinni, jafnvel margoft, sem virðist gefa til kynna að fiskinum finnist ekki mjög óþægilegt að láta veiða sig. Sjálfur hef ég veitt sama fiskinn tvisvar. Í seinna skiptið örþreyttan eftir innan við 10 mínútna hvíld. Laxinn tók sömu fluguna, á sama stað, og virðist því hvorki læra að forðast agnið né öngulinn á grundvelli þessarar reynslu. Dr. Braithwaite segir hvötina til þess að sleppa úr prísundinni yfirgnæfa sársaukann við það að togast á við veiðimanninn og nefnir þessu til stuðnings dæmi frá dýrum, sem við vitum að finna til, svo sem dýr, sem naga af sér fótinn, til þess að sleppa úr gildru. Ekki er ég viss um að þessu sé saman að jafna, en svarið við spurningunni af  hverju lax lætur endurveiða sig, enn örþreyttur, það fann ég ekki. Þá hef ég veitt fisk sem reyndist hafa kokgleypt maðkaöngul löngu fyrr og stóð girnið út úr munni hans en öngullinn var ryðgaður innvortis. Þessi reynsla var fiskinum ekki áminning að halda sig frá flugunni minni og var  sjóbirtingurinn með magafylli af æti.

Í bókinni víkur Dr. Braithwaite nokkrum orðum að því að veiða og sleppa. Afstaðan, sem hún tekur, er að þessi háttur sé í andstöðu við siðfræðina og heimspekina sem tengist veiðum á viltum dýrum. Það eigi að drepa bráðina fljótt og fumlaust eftir að hún veiðist. Að veiða bráð og sleppa henni sé ónáttúrulegt. Þetta viðhorf hennar virðist hins vegar hafa áhrif á afstöðu hennar til viðfangsefnisins. Ég er henni fullkomlega sammála að það á að aflífa fiskinn strax og honum er landað ef veitt er til matar. Allir veiðimenn ættu að eiga rotara (e. priest) til þess að veita þeim náðarhöggið. Í þeim tilvikum að menn vilji sleppa fiskinum þarf að gæta að nokkrum mikilvægum atriðum. Um þau má lesa í annarri grein hér á heimasíðunni. Hún fjallar um það hvernig ber að standa að því að sleppa fiski eftir veiði.

Þótt ýmsir vilji leggja sitt að mörkum til þess að tveggja ára fiskur úr sjó endurheimti sinn fyrri sess í samsetningu laxastofnsins, er því ekki að leyna, að nokkur hópur manna hefur óbeit á því að veiða og sleppa. Guðmundur Guðmundsson, líffræðingur, heldur t.d. þessari skoðun á lofti á www.vísir.is. Hann segir: ,,Það er enginn sómi í því né heldur ætti það að vera skemmtun fólks að ginna fisk með flugu eða öðru agni til þess eins að draga hann á kjaftinum um öll vötn. Þegar fiskurinn hefur að lokum verið dreginn upp á grynningar, særður, uppgefinn og úttaugaður, er hann sporðtekinn og lyft upp úr vatninu til að festa megi afrekið á mynd. Við svo búið er fiskinum dembt aftur út í vatnið og veiðimaðurinn snýr sér að því að krækja í annan (og vonandi stærri!) fisk.“

Þeir, sem kunna til verka, fara ekki að eins og Guðmundur lýsir. Aldrei á að sporðtaka fisk. Það getur stórskaðað fiskinn. Hryggjarliðir fisksins geta dregist í sundur og fiskurinn þannig lamast. Lax má losa með losunargaffli án þess að taka hann upp úr vatninu. Hann syndir þá burt af eigin rammleik, frelsinu feginn líkt og veðhlaupahestur, sem er sleppt út í haga eftir veðhlaup. Báðir jafna sig eftir áreynsluna og eru jafngóðir á eftir.

Losunargafflar fyrir mismunandi öngulstærðir


Dr. James D. Rose, sem er prófessor í dýrafræði og líffræði við Wisconsin háskólann í Bandaríkjunum, hefur lengi stundað rannsóknir á taugalíffræði fiska. Niðurstöður hans eru á allt annan veg en Dr. Braithwaite. Hann bendir á að stórir skammtar af sýru og eitri, t.d. býflugna, sem mundu valda mönnum miklum sársauka, hafi furðanlega lítil áhrif á fiska. Þá sýna niðurstöður að skurðaðgerðir á fiskum hafa ekki meiri áhrif en svo að þeir séu farnir að hegða sér samkvæmt venju nokkrum mínútum eftir aðgerð. Ástæðan er sú að fiskar hafa ekki til að bera þann hluta heilans, heilabörkinn (e. cerebral cortex), sem gerir það að spendýr finna til sársauka. Enda þótt fiskar finni ekki til sársauka og hafi ekki tilfinningar, verða þeir fyrir streituálagi við skaðlegar aðstæður.  Dr. Rose undirstrikar þess vegna að mikilvægt sé að hyggja að velferð þeirra og sýna þeim nærgætni.

Fyrstu niðurstöður Dr. Rose komu fram árið 2002 og hann hefur haldið rannsóknum sínum áfram. Dr. Braithwaite getur rannsóknar hans frá árinu 2002 í bók sinni án þess að vísa til þeirra í heimildaskrá og hafnar þeim án rökstuðnings. Þessi afgreiðsla á rannsóknum hans virðist ekki mjög vísindaleg enda læðist að manni sá grunur að Dr. Braithwaite hafi gefið sér niðurstöður sínar fyrirfram og skrifi bókina til þess að styðja þegar fengna niðurstöðu. Þetta er skoðun Dr. Rose og félaga hans frá 2014 er þeir segja rannsóknir hennar og fleiri „mission oriented“ og telja rannsóknir hennar skilja sig frá þeirri óháðu nálgun sem vænst er að rannsakendur beiti í venjulegu vísindastarfi. Hvað er rétt í þessu skal ég ekki fullyrða.

Dr. Rose bendir á í upphaflegu grein sinni 2002 að fiskar hafi þróast aðskilið frá spendýrum. Þess vegna sýna taugalífræðilegar samanburðarrannsóknir að heili spendýra hafi til að bera margs konar þroska og eiginleika sem ekki er að finna í fiskum eða eingöngu að takmörkuðu leyti hjá þeim. Maðurinn finnur til sársauka vegna þeirrar stöðvar í heilanum, sem við köllum heilabörkinn, eins og áður segir. Fiska skortir nýbörkinn (e. neocortex) sem er sá hluti heilabarkar sem spendýr ein hafa og er nauðsynlegur til þess að skynja sársauka sem tilfinningu. Tilraunir staðfesta þetta, sbr. dæmin hér að framan. Viðbrögð fiska, þegar öngull festist í þeim, eru þess vegna  flóttaviðbrögð en ekki viðbrögð vegna sársauka. Fiskur sýnir sömu flóttaviðbrögð þegar skuggi fellur á vatn, og fiskur forðar sér verði hann var titrings í vatni. Þá er eðlislægt að hætta kunni að vera á ferðum.

Rannskóknir leiða í ljós, hins vegar, að fiskar upplifa streitu og bregðast við henni ómeðvitað. Fiskar upplifa þó streitu án þess að komast í tilfinningalegt uppnám. Dr. Rose ráðleggur þess vegna mönnum að einbeita sér að því að fækka þeim tilvikum þar sem fiskar upplifa aðstæður sem vekja streitu eða stefna verlferð þeirra í hættu í stað þess að hafa áhyggjur af ýmyndaðri tilfinningarlegri streitu sem sé fiskum lífræðilega um megn. Mönnum sé nær að nýta bestu vísindalega þekkingu til þess að bæta heilsu fiska og lífskilyrði þeirra.

Dr. Brian Key, sem er yfirmaður Brain Growth and Regeneration rannsóknarstofunnar við Háskólann í Queensland í Ástralíu kemst nýlega (2016) að svipuðum niðurstöðum og Dr. Rose. Rannsóknir hans leiða til þeirrar niðurstöðu að fiska skorti líffræðilega þá tauga- og heilastarfsemi sem geri þeim kleift að skynja sársauka. Hann bendir á að sársauki er skynjaður í heilanum. Taugaboðin þurfa að berast þangað. Ef einstaklingur verður fyrir mænuskaða og lamast fyrir neðan mitti hættir hann að hafa tilfinningu í líkamanum neðan skaðans, t.d. í fótum.

Dr. Key segir nauðsynlegt að kanna þrennt hjá manninum til þess að ákveða hvort fiskar geti fundið til sársauka: (1)  finna þarf út hvar í heilanum sársauki er skynjaður, (2) skilgreina þarf þá taugalíffræðilegu eiginleiga þessa svæðis sem tengjast skynun sársauka, og (3) meta síðan hvort fiskar hafi svipaða heilastarfsemi sem geri þeim kleift eða ókleift að finna til sársauka. Dr. Key ályktar að það sé raunhæft að halda því fram að fiskar finni ekki til sársauka þar sem þá skorti þá tauga – og heilastarfsemi sem geri slíka skynjun mögulega. Hann bendir á að fiskar haldi áfram að hegða sér eðlilega hvað varðar fæðuöflun, hreyfingu og makaleit þótt deyfinál hafi verið stungið í gegnum höfuð þeirra og inn í framhluta heilans. Rafstuð virðist sömuleiðis ekki valda sársauka.

Dr. Key viðurkennir að vísindasamfélagið búi ekki eins og er yfir tækjum til þess að „sanna“ í vísindlegri tilraun að fiskar finni ekki til. Þær sannanir sem fyrir liggja styðja þó eins og best verður á kosið að fiskar finni ekki fyrir sársauka.

E. Don Stevens, sem er prófessor Emeritus við Háskólann í Guelph í Kanada, kemst að eftirfarandi niðurstöðu í umsögn sinni um grein Brian Key. Látum það vera lokaorðin:

We know that fish can „be in pain“ in the sense that nociceptors can be activated. Key argues (and I agree) that it does not follow that a fish „being in pain“ is the same as a fish „knowing it is in pain.“

Í íslenskri þýðingu er niðurstaðan þessi: Við vitum að fiskar geta „upplifað sársauka“ í þeim skilningi að skilvitleg viðbrögð taugakerfisins hafa verið virkjuð. Brian Key heldur því fram (og ég er sammála honum) að af því leiðir ekki að fiskurinn „finni til sársauka“ þótt hann „verði fyrir sársaukalegri reynslu“.
 
Þrátt fyrir ofanritaðar rannsóknir og niðurstöður munu bæði leikir sem lærðir vafalítið halda áfram að deila um það hvort fiskar finni til. Ég vil þó láta þá von í ljós að sú umræða megi vera byggð á rökræðum en ekki gífuryrðum og sleggjudómum.

Heimildir:

Braithwaite, V. (2010). Do fish feel pain?, New York, NY: Oxford University Press.

Guðmundur Guðmundsson. (2015). „Veitt og kvalið“, Visir.is, Skoðun: 12. júní 2015.

Key, B. (2016). „Why fish do not feel pain“, Animal Sentience, 2016.3.

Rose, J. D. (2002). „The neurobehavioral nature of fishers and the question of pain“, Reviews in fisheries Science. 10: 1-38.

Rose, J. D., Arlinghaus, R., Cooke, S. J., Diggles, B.K., Sawynok, W., Stevens, E. D., og Wynne, C. D. L. (2014). „Can fish really feel pain?“, Fish and fisheries. 15:97-133.

Stevens, E. D. (2016). „Why is fish „feeling“ pain controversial? Commentary on Key on Fish Pain“, Animal Sentience,2016.X
 

Árni Árnason

NÝJUSTU FRÉTTIR