Að nálgast fisk

Við náum betri árangri ef við setjum okkur í spor bráðarinnar og reynum að hugsa eins og hún. En hvernig förum við að í tilviki fiskins? Hann er lítill hugsuður og skilur ekki eftir sig nein spor.

Það er einkum þrennt sem skapar kjöraðstæður fyrir silung og bendir okkur á hvar hann er að finna. Silungur þarf súrefni, hann þarf fæðu og í þriðja lagi öryggi sem góðir felustaðir veita. Silungur sækir þess vegna í þá staði þar sem vatn er súrefnisríkt t.d. þar sem vatsleysur eru í stöðuvatni. Þar getur silungurinn einnig kælt sig í kaldri uppsprettunni þegar vatnshitinn stígur í vatninu á sumrin. Silungur leitar einnig á þá staði sem færa honum fæðu með sem minnstri áreynslu, þó að því gefnu að hann hætti ekki lífi sínu við fæðuöflunina. Þess vegna fer silungur oft á stjá þegar skyggja tekur. Á daginn heldur hann til þar sem stutt er í skjól, ef hætta steðjar að, nema hann telji sig öruggan.

Mörg dæmi má nefna um staði þar sem þessir þrír þættir koma saman. Þá er t.d. að finna uppi á Arnarvatnsheiði. Þar renna ár á milli vatna og bera súrefni og fæðu af yfirborði úr einu vatni í annað. Silungur liggur þess vegna iðulega þar sem rennur inn í vatnið. Þar eru líka ákjósanlegustu felustaðir þar sem oft dýpkar snögglega eftir að rennur í vatnið. Silungurinn getur þannig sótt fæðu upp á yfirborðið en einnig forðað sér í flýti á dýpið verði hann var við hættu. Margt mætti rita um hvar fisk er að finna. Hér er þó ekki ætlunin að ræða það til hlítar heldur ræða stuttlega hvernig við nálgumst fiskinn, bæði fisk sem við höfum séð og/eða fisk sem við teljum að sé til staðar. Um hvort tveggja gildir það sama. Engar snöggar hreyfingar.

Hegri er ekki algengur fugl á Íslandi. Samt er það árvisst að gráhegri, ungfugl, hefur vetursetu í Garðabænum, enda er gata nefnd eftir honum á Arnarnesi, Hegranes. Hegrann má sjá t.d. í fjörunni í Arnarnesvogi og einnig á ís við Vífilsstaðavatn veiðandi silung við vakir á ísnum yfir veturinn þótt leyfi til veiða í vatninu  taki ekki gildi fyrr en 1. apríl ár hvert. Hegrinn er ekki þekktur fyrir asa í hreyfingum. Í skrúðgörðum erlendis má sem dæmi sjá hegra standa svo hreyfingarlausa að menn þurfa að nálgast fuglinn til þess að staðreyna hvort hann sé málmstytta eða lifandi fyrirbæri. Úti í villtri náttúrunni stendur hann líka „grafkyrr við vatnsbakka og bíður eftir bráð, annaðhvort með hálsinn teygðan fram eða kýttan“ (4, bls. 52). En hegrinn er snöggur þegar bráðin er komin í dauðafæri.

Þegar við nálgumst bráðina mættum við fara að dæmi hegrans. Engar snöggar hreyfingar nema í dauðafæri. Þetta er mikilvægast. Vissulegar hjálpar að klæðast þannig litum fötum að þau falli að umhverfinu. Grænt og brúnt eru góðir litir við veiðar hérlendis og ljósir litir í Karíbahafinu. Mestu máli skiptir þó að fara sér hægt. Helst ættu menn að sleppa því að vaða, en sé það nauðsynlegt, verða menn að vaða varlega. Glampi frá stöng, sem haldið er hátt, eða veiðihjóli, sem sól skín á, endurtekin falsköst eða vaðið óvarlega er miklu líklegra til að fæla fisk en það að veiðimaður sjáist. Ýmsir ráðleggja að menn læðist að bráðinni. Vissulega er engin ástæða til þess að láta sjá sig að óþörfu. Fiskurinn sér þannig upp úr vatninu að hann kemur auðveldlega auga á mann sem skríður á hnjánum. Fiskurinn fælist hins vegar skugga, sem hreyfist, þegar hann fellur af veiðimanni á vatnið. Þegar skugginn hreyfist flýr fiskurinn. Það er ekki skugginn sem fælir fiskinn heldur hreyfing skuggans. Hreyfingin uppljóstrar um viðveru veiðimannsins. Gæta þarf sérstakrar varúðar með sólina í bakið. Þá fellur skugginn af veiðimanni á vatnið og kemur upp um viðveru hans við hreyfingu.

Heimild: Understanding Trout Behavior, bls. 85, 86 og 103, sjá lið 1 í heimildarskrá.


Myndirnar þrjár hér að ofan eru úr bókinni Understanding Trout Behavior. Þær sýna hvernig fiskur sér upp úr vatni. Myndirnar teiknaði Rod Walinchus. Bókin er góð lesning fyrir þá sem vilja fræðast meira um efnið. Sjóndeildarhringurinn er því stærri sem fiskurinn liggur dýpra eins og myndin efst til vinstri sýnir (1, bls. 86). Sjónhornið er 97º og útsýnisglugginn verður þeim mun smærri eftir því sem fiskur er nær yfirborði. Fiskurinn sér hins vegar ekki það sem er undir 10º miðað við lóðréttan flöt og það sem er ofar virðist í halla 48,5º miðað við fuglinn sem flýgur beint fyrir ofan eins og sést á myndinni efst til hægri (1, bls. 85). Fiskurinn hefur þannig töluvert brenglaða mynd af umhverfinu ofan vatnsborðsins. Hann sér t.d. fyrst vængbrodda flugunnar sem berst að honum, og smátt og smátt meira, uns hann sér fluguna alla þegar hún hefur flotið inn í gluggann eins og þriðja myndin neðst fyrir miðju sýnir (1, bls. 103).

Þá vitum við hvernig fiskur sér veiðimann upp úr vatninu. Ljósbrotið veldur því einnig að við sjáum fisk ekki rétt í vatni. Fiskur virðist liggja utar og ofar í vatninu en raunin er. Ef unnt er að skoða veiðistað úr hæð án þess að trufla fiskinn eru það bestu aðstæður. Þó getur endurkast eða glampi á vatni valdið því að við eigum örðugt með að sjá fisk, jafnvel á grunnu vatni. Hér koma gleraugu að góðu gagni sem eru með síu sem veldur skautun á ljósi sem fer í gegn um glerið (polarized lenses). Catch gleraugun sem ÁRVÍK selur eru með skiptanlegum linsum, mismunandi skyggðum. Þau henta þannig við breytileg birtuskilyrði og auðvelda veiðimanni að sjá til botns. Þau eru einnig nauðsynleg vörn fyrir augun þegar flugu er kastað. Enginn ætti að stunda fluguveiðar án þess að vera með gleraugu.

Fiskurinn heyrir okkur ekki tala saman við veiðar. Hann heyrir ekki ofan í vatnið en hann finnur titring í vatni ef við vöðum óvarlega. Það er því til lítils að sussa á börn sem hoppa á vatnsbakkanum en leyfa þeim að halda áfram í snú-snú. Eftir fiskinum endilöngum liggur rák sem nemur vel titring. Á sumum fiskum er rákin svört og afar greinileg eins og á ýsu (4, bls 181). Á laxfiskum er hún einnig til staðar (4, bls. 116-123), ekki eins áberandi en látum það ekki blekkja okkur.  Hún virkar jafnvel. Fiskurinn heyrir hins vegar vel ofan í vatninu. Hann heyrir okkur renna til í grjóti og negldir vöðluskór geta verið skýrar viðvörunarbjöllur þótt þeir séu öryggisatriði við vissar aðstæður. Staðreyndin er sú að hljóð berst mun hraðar í vatni en ofan þess. Hraðinn er rúmlega fjórfalt meiri og eykst með hækkandi hita. Við 8º C er hraði hljóðsins í vatni 1435 m/sek en einungis 344 m/sek í lofti þótt hitinn sé orðinn 20º C (8, bls. 20). Fiskurinn nemur auðveldlega hreyfingu vatnsins ef við vöðum óvarlega.

Fiskar hafa einnig mjög næmt lyktarskyn. Ratvísi laxins er að hluta til skýrð með þessu næma lyktarskyni. Í silungsveiðinni skiptir lyktarskynið töluverðu máli, sérstaklega í vatnaveiðinni, þar sem silungurinn hefur nægan tíma til að skoða agnið. Margir vatnaveiðimenn gæta af þessum sökum þess vandlega að flugan sé laus við lykt frá þeim sjálfum og gæta þess að vera hreinir um hendur þegar þeir hnýta fluguna á. Loon framleiðir sápu í handhægum umbúðum sem veiðimenn mættu hafa í vestinu. Hún er umhverfisvæn og góð til þess að skola hendur eftir löndun á fiski. Sumir nudda jarðvegi á veiðistað á hendur sínar og skola þær í veiðivatninu til þess að tryggja að þeir samlagist náttúrunni. Þetta kann þó að vera til lítils ef sá sem hnýtti fluguna keðjureykti við vinnu sína þannig að flugan angar af tóbakslykt. Sumir silungar kunna þó að vera hneigðir til tóbaks. A.m.k. hef ég veitt silung í Hlíðarvatni sem hafði gleypt filter af sígarettu.

Fiskurinn sér einnig liti vel og á fyrsta aldursskeiðinu greinir silungur jafnvel útfjólublátt ljós, þótt sá hæfileiki sé orðinn miklu mun minni þegar silungurinn fer að lifa á lirfum og púpum (9, bls 84-88). Litur flugulínunnar gæti þannig skipt máli. Fiskurinn sér hins vegar einungis lit línunnar við viss tækifæri, þ.e. þegar ljósið fellur þannig á línuna í vissri sjónlínu. Það er því flest sem bendir til þess að mikilvægara sé að veiðimaðurinn sjálfur sjái línuna vel og viti hvar flugan liggur. Á enda línunnar er yfirleitt bæði taumur og taumefni þar fyrir framan. Þetta er næst flugunni og nokkrir metrar í flugulínuna. Niðri í vatninu sést taumurinn ekki ef hann er valinn með hliðsjón af lit vatnsins. Fölgrænn litur getur átt vel við í silungsveiði í næringarríku stöðuvatni þegar líður á sumarið en tær taumur á Þingvöllum snemma vors. Aðalreglan er sú að sjáir þú tauminn í vatninu sér fiskurinn hann líka. Í þurrfluguveiðinni gilda önnur lögmál þar sem fiskurinn horfir upp á tauminn fyrir ofan sig. Ef taumurinn flýtur í vatnsborðinu getur fiskurinn séð ljósbrotið sem hann myndar í vatnsskorpunni (1, bls. 131). Þess vegna er mikilvægt að nota taum sem sekkur, brýtur vatnsfilmuna, næst þurrflugunni og samlagast litnum á vatninu. Þá sést taumurinn ekki og flugan liggur sem varnarlaus bráð.

Ekki eru allir sammála þessari greiningu. Peter Hayes sýnir t.d. mynd í bók sinni af taum, sem sést í vatninu og af því að hann sést speglast hann einnig neðan á vatnsfletinum (5, bls.82). Fiskurinn sér þannig tvo tauma séð neðan frá. Þetta er að sjálfsögðu versta mál en hér skiptir litur taumsins líklega töluverðu máli. Hann ráðleggur þess vegna að láta tauminn fljóta frekar en að sökkva. Það getur einnig haft sína kosti, sérstaklega þegar þurrflugunni er lyft af vatnsborðinu fyrir næsta kast. Ef taumurinn er ofan í vatninu dregst flugan undir yfirborðið í kastinu og kann að fæla fiskinn. Þurrfluguönglar eru einmitt með augað upp þannig að flugunni megi lyfta beint upp af yfirborðinu. Hér skal ekki skorið úr hvað er réttast í fræðum þessum í þessu efni en hafi menn í huga það sem að framan segir við veiðar sínar aukast líkur á nánum kynnum við lónbúann.  

Heimildir:

(1) Goddard, J. og Clarke, B. (2001). Understanding Trout Behavior. Guilford: The Lyons Press.
(2) Goddard, J. og Clarke, B. (2005). The Trout and the Fly. Guilford: The Lyons Press.
(3) Grubb, T.C. (2003). The Mind of the Trout. Madison: The University of Wisconsin Press.
(4) Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (Án árs – [2006]). Íslenskir fiskar. Reykjavík: Vaka – Helgfell. [Vatnslitamyndir: Jón Baldur Hlíðberg].
(5) Hayes, P. (2013). Fly Fishing Outside The Box – Emerging Heresies. Machynlleth: Coch-y-Bonddu Books.
(6) Jóhann Óli Hilmarsson. (1999). Íslenskur fuglavísir. Reykjavík: Iðunn.
(7) Sholseth, T.J. (2003). How Fish Work. Portland: Frank Amato Publications, Inc.
(8) The New Encyclopædia Britannica in 30 Volumes: Macropædia: Volume 17. (1974). Chicago: Encyclopædia Britannica, Inc.
(9) Randall, J. (2014). Trout Sense. Mechanicsburg: Stackpole Books.

NÝJUSTU FRÉTTIR