Sunray Shadow


Tvinni: Svartur 8/0.
Túpa (Tube): 3 cm löng létt plast-túpa.
Búkur (Body): Búkurinn er einungis túpan sjálf.
Undirvængur (Underwing): Brúnt hár af hjartarhala og yfir því fjórar til sex lengjur af páfuglsfönum (peacock herl).
Yfirvængur (Overwing): Svart hár af geit, hundi eða bjarndýri er nú yfirleitt notað. Hárið er haft tvisvar til þrisvar sinnum lengdin á túpunni. Upphaflega var yfirvængurinn hnýttur úr hári af colobus apa og kom það úr gólfteppi veiðifélaga Raymond Brooks í Noregi.
Haus (Head): Svart.

Colobus api

Þetta er upphaflega uppskriftin að Sunray Shadow flugunni en hún er nú til í mörgum útgáfum. Undirvængnum er þá gjarnan breytt og hann hafður hvítur, bleikur, gulur, rauður, blár eða grænn. Einnig hnýta menn gjarnan glithár (Krystal Hair eða Twinkle) efst í yfirvænginn. Þessar útgáfur má m.a. sjá á bls. 18 í júníhefti tímaritsins Fly Fishing & Fly Tying árið 2000.

Það var enskur veiðimaður, Raymond Brooks sem hannaði og hnýtti fluguna upphaflega þegar hann var við veiðar við Lærdalsána í Noregi en hann var með ána á leigu í u.þ.b. 30 ár frá árinu 1996. Hann gekk svo langt að afla sér hönnunarverndar eða einkaleyfis á flugunni sem skýrir e.t.v. hversu margar útgáfur eru til af þessari öflugu flugu. Hann lét þegar í upphafi hnýta fluguna sem verslunarvöru. Í fyrstu var það danskt fyrirtæki sem annaðist framleiðsluna en síðar fluttist hnýtingin til Singapore. 

Það er ekki flókið að hnýta Sunray Shadow fluguna og hún er sennilega eins auðveld og laxaflugur gerast í hnýtingu. Þó má benda þeim, sem eru að hefja hnýtingarferilinn, á grein í júlíheftinu árið 2013 af Fly Fishing & Fly Tying tímaritinu en á blaðsíðu 34 og 35 í því hefti er að finna lýsingu í myndum hvernig flugan er hnýtt skref fyrir skref. Þótt til séu sérstakar þvingur til hnýtinga á túpuflugum eins og hér er sýnd má einnig kaupa túputól eins og sýnt er hér að neðan. Það má festa í venjulega þvingu. Þessar vörur má finna í vefverslun ÁRVÍKUR.

Þvinga fyrir túpuflugur ST6593
    Túputól ST1390

    Sunray Shadow flugunni er mikið beitt við laxveiðar hérlendis. Flestir veiða hana með því að láta fluguna mynda gáru í yfirborðinu eða beita snöggum, hröðum inndrætti. Laxinn tekur þá iðulega fluguna af ákafa og kemur upp til árásar. Bretar beita hins vegar oft sökklínu og nota stuttan taum en íslenska aðferðin gerir veiðina meira spennandi.

    NÝJUSTU FRÉTTIR