Rjúpan

Ég var fyrir margt löngu við veiðar í Kjarrá. Þetta var snemma á veiðitímanum og það var ekki mikið um lax í ánni og aflinn var í samræmi við það hjá mér og félögunum. Síðasta morguninn datt mér í hug að reyna flugu, sem ég hafði lengi átt í boxinu og faðir minn hafði hnýtt og gefið mér. Þetta var flugan Baby Doll. Hún er mjög einföld. Hvítur búkur á straumfluguöngli og svartur haus. Flugan leið yfir Neðri Rauðabergshylinn og hitti í fyrsta kasti fyrir lax sem tók hana af áfergju.

Ég hafði aldrei beitt þessari flugu áður og hef heldur ekki reynt hana oft síðar. Hún var hins vegar kveikjan að flugunni Rjúpunni þegar ég fór að velta fyrir mér hvort ekki mætti nota haminn af rjúpunni sem ég hafði veitt og hamflett í hnýtingar. Útfærslan varð flugan Rjúpan.

Til stóð að hnýta gott eintak fyrir þessa frásögn en tíminn var naumur. Ég tók því notað eintak og stillti upp en flugan ber þess merki að bleikjan á Arnarvatnsheiðinni hefur kjamsað á henni. Vonandi gefst tími fljótlega til þess að mynda betra eintak.

Uppskriftin er svona:
 
Öngull (Hook): Kamasan B800 nr. 6 til 10.
Tvinni (Thread): Hvítur 6/0.
Stél (Tail): Úr vængfjöður af rjúpu.
Vöf (Rib): Silfurvír.
Búkur (Body): Hvítt flos. Undir flosið er vafið silfruðu dual tinsel aftur og fram og límt með Zap-A-Gap lími.
Kinnar (Cheeks): Jungle cock.
Haus (Head): Svartur.


Þessi fluga hefur gefist mér afar vel á Arnarvatnsheiði í bleikju. Það hefur alltaf staðið til að þróa fluguna áfram, t.d. setja á hana orange litað skegg. Þar gæti Karrinn verið kominn til leiks. Þá má hugsa sér að sleppa út kinnunum og hnýta á silfur-þverhausa fyrir álímd augu eins og við seljum frá Stonfo.

Árni Árnason

NÝJUSTU FRÉTTIR