Krókurinn


Krókurinn er silungafluga sem Gylfi Kristjánsson (1948-2007) hannaði að kvöldlagi sumarið 2001. Gylfi átti ekki langt að sækja hæfileikann til þess að hanna og hnýta flugur. Faðir hans, Kristján Gíslason (1921-1999),  hannaði hátt í eitt hundrað flugur, sem hafa jafnvel náð heimsathygli eins og flugan Krafla. Gylfi var búsettur á Akureyri þar til hann lést. Hann var menntaður gullsmiður.

Krókurinn dregur nafn sitt af Jóni „Krók“ Bjarnasyni frá Húsavík. Það var hann sem vígði fluguna á svæði fimm í Eyjafjarðará. Jón fékk fjóra fiska í beit á fluguna daginn eftir að hún var hönnuð. Veiðistaðurinn fékk upp frá því nafnið Króksbreiða. Það var á sama stað, á Króksbreiðunni, sem þeir feðgar, Gylfi og Kristján sonur hans, fengu í sömu vikunni hvor sína bleikju, sem reyndust vera 9 pund eftir rúmlega 20 mínútna viðureign í bæði skiptin. Þetta var sumarið 2004.

Krókurinn náði fljótt hylli silungsveiðimanna. Fréttin af veiði þeirra feðga vakti verulega athygli á flugunni. Góð reynsla annarra veiðimanna hefur aukið á hróður flugunnar. Þegar veiðibækur félaganna, sem hafa aðstöðu við Hlíðarvatn í Selvogi, eru skoðaðar sést, að Krókurinn stendur nú orðið ár eftir ár í baráttu um toppsætið sem aflahæsta flugan, sem beitt er við veiðar í vatninu.

Gylfi hnýtti Krókinn yfirleitt, að eigin sögn, á Kamasan B110 Grubber öngul í stærð 10 með 4 mm koparkúlu. Þessu „leyndarmáli“ Gylfa er hér bætt við uppskriftina sem birtist í Veiðimanninum vorið 2005: 

Uppskrift:

Öngull: Kamasan B110 Grubber öngull.
Tvinni: Svartur 8/0.
Stél: Fasanafjöður.
Stélkragi: Rautt dubbing brush crystal antron.
Búkur: Svart vinyl rib (medium).
Kúla: Kopar 3-4 mm.


Meðfylgjandi mynd, sem birt er með góðfúslegu leyfi Stefáns Kristjánssonar, bróður Gylfa, sýnir Krókinn eins og hún er rétt hnýtt. Skrautás ehf. – www.krafla.is – Höfðabakka 3, 110 Reykjavík var með flugur Gylfa og Kristjáns til sölu en nú hefur Stefán flutt sig um set og rekur nú verslunina Veiðiflugur á Langholtsvegi 111, 104 Reykjavík ásamt Friðjóni Mar Sveinbjörnssyni.

Gylfi keypti kynstur af Kamasan önglum hjá ÁRVÍK hf. til hnýtinga sinna. Fyrirtækið þakkar honum viðskiptin.

Heimildir:

(1) Gylfi Kristjánsson, viðtal. (2005). Skapari Króksins og Mýslu kynnir nýja silungaflugu. Veiðimaðurinn. Apríl, #176, bls. 30-33.
(2) Krafla.is. Kynningareinblöðungur frá Skrautás ehf. (ódags.).
(3) Feðgar settu í stórfiska í Eyjafjarðará: Veiddu 9 punda bleikjur á sama stað. Morgunblaðið,
23. júlí 2004.

NÝJUSTU FRÉTTIR