Herdís


Öngull (Hook): Kamasan B175, stærðir 12 til 16
Tvinni (Thread): Svartur 8/0
Vöf (Rib): Koparvír
Afturbolur (Abdomen): Svart flos
Frambolur (Thorax): Svart flos
Vængstubbur (Wing Case): Fanir úr brjóstfjöður af skógarönd
Haus (Head): Svartur

Höfundur flugunnar, Jón Sigurðsson (1956-2015), kenndur við Bíldudal, var mikilvirkur hnýtari og firna flinkur veiðimaður. Hér á heimasíðunni er t.d. að finna mynd af honum með góðan afla úr Sauðlaugsdalsvatni við Látrabjarg eftir þriggja daga veiði í september 1998. Aflinn hefur vakið undrun margra.

Ég hef oft beitt flugunni Herdísi fyrir mig í veiði. Jón hnýtti þær flugur ávallt fyrir mig þannig að ég hef aldrei þurft að lesa uppskrift af flugunni en þessa uppskrift að ofan fann ég í bók Jóns Inga Ágústssonar, Veiðiflugur Íslands. Mig grunar að vængstubburinn eigi að vera fanir úr brjóstfjöður skógardúfu en þær dúfur eru gráar. Ég veit ekki til þess að skógarendur séu til í Evrópu, eða til yfir höfuð.

Jón hnýtti flugur sínar á Kamasan-öngla og var mikill aðdáandi þeirra öngla. Kamasan-húfan var í uppáhaldi. Ef hann týndi húfunni var hann friðlaus þar til hann hafði fengið nýja senda. Ég taldi þess vegna rétt að breyta uppskriftinni og tiltaka öngulinn sem hann hélt mest upp á.
 
Herdís er góð eftirlíking af gyðlu (nymfu) en margar þeirra eru dökkar á litinn. Gyðlur eru jafnan góðar silungaflugur og er Herdís þar engin undantekning. Hún gengur vel í vatnaveiði, svo sem í Elliðavatni, Hlíðarvatni, Þingvallavatni og Sauðlaugdalsvatni en þangað sótti hann mest. Herdísi mætti nota til skiptis á móti flugunum Tailor og Pheasant Tail sem einnig eru kynntar hér á heimasíðunni.

Á myndinni er flugan Herdís eins og Engilbert Jensen hnýtti hana. Ég átti myndina tiltæka í myndasafni mínu. Ég vona að mér fyrirgefist að hafa ekki farið í fluguboxið og náð í eintak sem Jón hnýtti sjálfur.

Árni Árnason

NÝJUSTU FRÉTTIR