Halla


Öngull (Hook): Kamasan B100N nr. 10 til 16
Tvinni (Thread): Svartur Giorgio Benecchi 10/0
Afturbolur (Abdomen): Vinyl rib, small eða medium eftir stærð eða svartur vír.
Frambolur (Thorax): Fanir af páfuglsfjöður (peacock).
Vænghús (Wing Case): Magic Shrimp Foil, brown pearl strips frá Siman. 
Haus (Head): Svartur

Flugan, sem uppskriftin og myndin er af hér að ofan, á sér nokkra forsögu. Það var hinn 10. júní 2018 að Hlíðarvatnsdagurinn var haldinn en þá buðu félögin, sem hafa aðstöðu við vatnið, gestum að koma og renna fyrir fisk án endurgjalds. Einn gestanna veiddi væna bleikju á einfalda vinyl rib flugu. Það kveikti hjá mér hugsun að hanna einfalda flugu og nota til þess vinyl rib.

Nánari útfærsla var að gerjast með mér uns ég fór í Vesturröst og keypti Magic Shrimp Foil til þess að nota í fluguna. Hönnunin var einföld. Afturbolurinn vafði ég með vinyl rib til þess að mynda afturbolinn. Flugan á myndinni er hins vegar hnýtt með svörtum vír. Fanir af páfuglsfjöður fóru í frambolinn en brúna perlulengjurnar voru notaðar til þess að mynda vænghúsið. Það gefur frá sér grænan glampa sem mér datt í hug að gæti vakið athygli bleikjunnar og fengið hana til þess að taka fluguna þegar hún er að fara upp úr vatninu. Sú varð raunin.

Í stuttri eftirlitsferð við Hlíðarvatn hinn 5. júlí 2018 renndi ég aðeins í vatnið í leiðinni og reyndi fluguna. Ég fékk strax töku og þurfti nú að gefa flugunni nafn. Þegar ég var að bóka aflann í veiðihúsi Stakkavíkur varð mér litið á mynd á veggnum, sem er af stofnendum félagsins og „konum þeirra“. Þar stóð Halla móðir mín á pallinum en hún hafði ósjaldan stungið upp á flugum sem ég gæti notað þegar ekkert gaf við Svarthöfðann þegar ég var þar við veiðar með foreldrum mínum. Það var kominn tími til þess að nefna flugu í höfuðið á henni.

Síðar um sumarið reyndi ég fluguna svo í Þorsteinsvík í Þingvallavatni hinn 21. ágúst 2018. Það var sama sagan. Bleikjan tók fluguna þegar hún var að fara upp úr vatninu. Ég þurfti ekki frekari vitna við að hér var komin einföld fluga sem bleikjan gein við. En var þetta einstök hönnun? Annað kom á daginn.

Ingibergur Georgsson, en hann er flinkur fluguhnýtari, leit til mín í ÁRVÍK til skrafs og ráðagerða og sýndi mér m.a. nokkrar af flugunum sínum. Og viti menn. Þarna var systir flugunnar minnar komin. Hún var nánast eins en hann notaði grænt holographic efni í vænghúsið. Það gefur flugunni svipaðan grænan glampa. Hér að neðan er mynd af flugu Ingibergs í aðeins mismunandi útgáfum en hann hafði ekki gefið sinni nafn.

NÝJUSTU FRÉTTIR