GÁ.is

Öngull: Kamasan B280 stærðir 10 til 6.
Tvinni: Svartur 8/0.
Broddur: Ávalt gull.
Stél: Hausfjöður af gullfashana
Loðkragi: Svartur storkur
Vöf: Ávalt gull
Búkur: 1/3 flatt gull, 2/3 vínrautt flos.
Skegg: Svört hæna.
Yfirvængur: Kóngablár íkorni.
Undirvængur: Gulur íkorni.
Kinnar: Frumskógarhani (jungle cock)
Haus: Svartur.

Fluguhnýtarinn landskunni, Stefán Hjaltested, hefur haft þá venju að hnýta flugur til minningar um látna veiðifélaga. Seinni part júnímánaðar sumarið 2008 kom Stefán í heimsókn til mín á vinnustað og færði mér þrjár flugur sem hann hafði gefið nafnið GÁ.is til minningar um föður minn en hann lést hinn 23. maí 2008. Einnig fylgdi með eitt eintak af flugunni KK.is en Kristján Kristjánsson hljómlistarmaður sem oft var kenndur við Litlu Fluguna lést einnig fyrr á árinu.

Fluguféttir greindu frá þessum flugum í 450. tölublaði, hinn 5. september 2008. Er uppskriftin hér að ofan fengin þaðan. Með fréttinni fylgja myndir af flugunum, en þær víxluðust. Það kom mér ekki á óvart, eins og ég tjáði ritsjórum Flugufrétta, því að flugan KK er nokkuð lík klassískri flugu, Logie, sem var í miklu uppáhaldi hjá föður mínum. Veiddum við oft vel á þá flugu, m.a. við Svarthöfða í Borgarfirði en þangað var ferðinni heitið hjá mér nokkrum dögum síðar eftir að Stefán færði mér fluguna. Lofaði ég honum að reyna fluguna þar.

Ég setti fluguna undir við Efra horn sem er efsti veiðistaður við Svarthöfða. Það var greinilegt að fiskurinn sýndi flugunni áhuga, enda elti hann fluguna áður en hann ákvað að taka hana í annarri tilraun. Var þetta fallegur nýgenginn lax (3 kg, 68 cm) sem ég færði Sveinbirni Blöndal í Laugarholti þá um kvöldið er hann kom í heimsókn. Var það skemmtileg tilviljun því að faðir minn og Sveinbjörn þekktust lengi og hafa átt margt samtalið um fluguveiði og fluguhnýtingar.

Árni Árnason

NÝJUSTU FRÉTTIR