Fluga árinnar
Engilbert Jensen er einn flinkasti fluguhnýtari sem ég þekki. Við höfum veitt saman í vötnum og ám, bæði hér og erlendis. Og margt spjallið höfum við átt um veiðar og viðskipti. Það var því með nokkurri eftirvæntingu þegar hann boðaði komu sína og sagðist hafa hannað flugu sem hann vildi tileinka ÁRVÍK.
Uppskrift að flugunni er svona:
Öngull (Hook): Einkrækja, Kamasan B190, stærð 1 til 2/0 eða tvíkrækja, B280, stærð 6 til 8.
Tvinni (Thread): Svartur 8/0.
Vöf (Rib): Kopar og þrír snúningar aftast.
Búkur (Body): Koparlitað „dubbing“.
Skegg (Throat): Hringvafið svart „hen hackle“
Vængur (Wing): Svartur „Temple dog“. Vængur er settur ofaná hringvafið skeggið. Tvö horns kopar „strands“ er bætt í vænginn.
Kinnar (Cheeks): „Jungle cock“.
Haus (Head): Svartur.
Mér fannst flugan strax falleg og veiðileg. Ég hef reynt fluguna við nokkuð fjölbreyttar aðstæður og hefur hún reynst mér vel í ám á Vesturlandi og í Borgarfirði þegar líða tekur á sumar. Einkum er það sjóbirtingurinn sem sýnir henni áhuga og nokkrir hafa verið svo hrifnir að þeir gleyptu hana af áfergju.
Engilbert hnýtti fluguna fyrst sem tvíkrækju og hefur sú útgáfa einnig reynst vel. Myndirnar hér að neðan af tvíkrækjunum eru teknar af Engilbert. Á seinni stigum bætti hann „jungle cock“ kinnum á fluguna og varð hún enn veiðilegri fyrir bragðið.
Árni Árnason