Black Sheep
Öngull (Hook): Tvíkrækja, t.d. Kamasan B280, stærðir 6 til 10.
Tvinni (Thread): Rauður 6/0 eða svartur. Ef rauður tvinni er notaður, má nota glært lakk á hausinn. Þannig hnýtir Haraldur fluguna.
Broddur (Tag): Ávalt silfur tinsel eða silfur vír, sex vafningar.
Afturendi (Butt): Búkurinn er allur svartur.
Vöf (Rib): Búkurinn er ekki vafinn.
Búkur (Body): Svart ullarband, en stundum dökkgrænt, sem verður svart, þegar blautt.
Kragi (Collar): flugan er ekki með kraga heldur skegg.
Skegg (Throat): Blálituð hanahálsfjöður (vatnsblátt eða fölblátt).
Vængur (Wing): Svartur undirvængur 2/3 og gulur yfirvængur 1/3 úr hári af hjartarhala.
Kinnar (Cheeks): Jungle cock fjöður.
Haus (Head): Rauður, rauður tvinni 6/0 eða lakkaður haus með rauðu lakki.
Hurðin á skrifstofu okkar stóð opin hinn 22. júní 2016 þegar fiskur á vegg vakti athygli Haraldar Stefánssonar, fyrrverandi slökkviliðsstjóra af Keflavíkurflugvelli, af stigapallinum. Það var heitt í veðri og við vorum að reyna að lofta út. Hann gekk inn á skrifstofuna og við tókum tal saman.
Haraldur (f.1937, d.2020) er kunnur í hópi veiðimanna og lagði m.a. fyrir sig að leiðsegja veiðimönnum við laxveiðar. Og það var við slíkt tækifæri að flugan Black Sheep varð til sumarið 1977. Hann var við veiðar við Norðurá með Joe P. Hubert, Bandaríkjamanni (1932-2017), sem margir eigna ranglega hönnun og fyrstu gerð Black Sheep flugunnar. Sá skilningur er ef vill skiljanlegur þar sem fyrsta umsögn Joe um fluguna, þegar hún var lögð í fluguboxið hans, að hún liti út eins og svarti sauðurinn í fjölskyldunni: ,,Halli, this fly looks totally out of place. It looks like the black sheep in the family!“
Þegar ég var að kanna heimildir um Black Sheep fluguna í bókasafni mínu, féll uppskrift af flugunni út úr bókinni Atlantic Salmon Flies eftir Joseph D. Bates, Jr., bók sem faðir minn átti. Faðir minn og Joseph Bates veiddu á sama tíma í Grímsá til margra ára. Miðinn var með rithönd föður míns og var uppskriftin augljóslega skráð eftir upplýsingum Haraldar. Uppskriftina er að finna á bls. 161 í bók Bates The Art of the Atlantic Salmon Fly sem kom út árið 1987. Þar eignar þó Bates nafna sínum Hubert fluguna.
Uppskrifað af Guðmundi Árnasyni
Veiðin í Norðurá hafði gengið treglega þegar Haraldur settist við þvinguna og hnýtti flugu með seiði áls eða álalirfu í huga. Álalirfur eru sem seiði ólík fullvöxnum ál. Seiðin eru gegnsæ og flöt. Állinn hrygnir í Þanghafinu (Saragossa-hafinu) en tekur vöxtinn út í ferskvatni, öfugt við laxinn. Lirfurnar berast á tveimur til þremur árum með Golfstraumnum hingað til Íslands og eru um 8 sm langar þegar þær ná landi. Það kom ekki til greina að hnýta fluguna sem túpuflugu. Það passaði ekki viðhorfum Joseph P. Hubert en hún er hnýtt „long tail“ til þess að líkjast álalirfunni.
Skemmst er frá því að segja að flugan bjargaði veiði manna við Norðurá í þetta skipti. Joe Hubert var svo hrifinn af flugunni að hann hannaði síðar seríu af flugum í flugnahóp sem kölluð var ,, the Sheep family“ þ.e. Silver Sheep, sem er afar góð fluga, Red Sheep, sem er síðsumarsfluga og Green Sheep, sem er sérstaklega góð í lituðu vatni. Sjálfur hnýtti Joe Hubert ekki flugur en lét hnýta fyrir sig flugnaseríuna í Suður Afríku. Á sínum tíma var útbúið töluvert kynningarefni um seríuna, bæði bæklingur og kynningarspjald.
Í færslum á netinu er sagt að Black Sheep hafi orðið til við Grímsá en það er rangt. Hins vegar er Black Sheep ein af þeim flugum sem gefa vel í Grímsá. Flugurnar á myndunum eru af Black Sheep, í tveimur stærðum sú til vinstri, hnýttar af höfundinum, og þrjár saman, hnýttar af Guðmundi Árnasyni, föður mínum. Þær bera þess merki að hafa komist í kynni við fisk.
Haraldur hnýtti flugur fram á síðustu ár en framleiðslan var engin fjöldaframleiðsla. Hann hélt einnig úti vefsíðu: www.blacksheep.is sem kann að falla niður nú við andlát hans. Hann lést 22. janúar 2020. Blessuð sé minning hans.
Árni Árnason