Aquanova – Nýjar flugulínur

Aquanova Undanfarin misseri hefur ÁRVÍK hf. leitað að fyrirtæki sem framleiðir verulega góðar flugulínur sem henta íslenskum aðstæðum hvað varðar veðurfar og erfiðara efnahagsumhverfi. Lausnin er fundin. Nú getum við boðið Aquanova-flugulínur frá Kanada á hreint ótrúlegu verði. Og þær standast allar kröfur um gæði. ÁRVÍK annaðist áður fyrr heildsöludreifingu á flugulínum frá Scientific Anglers (SA) til margra ára þar til SA sagði öllum umboðsmönnum sínum í Evrópu upp á árinu 2009 og setti dreifinguna undir einn aðila í Noregi. ÁRVÍK á enn töluvert til af því fjölbreytta úrvali frá SA sem íslenskum veiðimönnum stóð til boða á sínum tíma. Þótt heildsöludreifingunni hafi verið hætt eru þessar línur enn fáanlegar í netverslun ÁRVÍKUR og verður svo á meðan birgðir endast. ÁRVÍK gekk, í ljósi þessara breyttu aðstæðna, frá samkomulagi við kanadíska fyrirtækið Northern Sport í ársbyrjun 2011 um að selja Aquanova-flugulínur þess hérlendis. ÁRVÍK mun annast heildsöludreifingu á vörum þess í verslanir. Línurnar eru einnig fáanlegar í netverslun ÁRVÍKUR. Northern Sport hefur rúmlega aldarfjórðungsreynslu í framleiðslu á flugulínum. Meginstarfsemi Northern Sport hefur falist í framleiðslu á flugulínum, sem seldar eru undir merkjum annarra fyrirtækja um allan heim, en minni áhersla hefur verið lögð í sölu á línum undir eigin vörumerki. Þetta er nú að breytast. Flugulínur fyrir íslenskar aðstæður þurfa að vera framleiddar með kjarna og kápu sem kuldi hefur lítil sem engin áhrif á. Flugulínur, sem framleiddar eru fyrir heitt loftslag, geta hringast illilega upp í kulda og verið nánast ónothæfar þótt þær geti verið hreinn draumur í Karíbahafinu. Þá skiptir minnið í línunni miklu máli. Línan hringast upp í vistinni á hjólinu en hún má ekki vera föst í þeirri lögun eftir að veiðin hefst. Aquanova-línugerðirnar þrjár, sem ÁRVÍK selur, standast þessar kröfur og stóðust reynslupróf við verstu aðstæður, loftkulda og 4°C vatnshita, þegar ísa var að leysa í vor. Starfsmenn ÁRVÍKUR reyndu Aquanova-flotlínuna á Vífilsstaðavatni þegar ísinn var að fara af vatninu. Línan lagðist þráðbein á vatnið og flaut hátt á vatninu enda er línan 25% léttari að eðlisþyngd en vatn. Auðvelt var að kasta línunni. Hún rann vel í lykkjunum. Skýringin er sú að Teflon® er í kápunni. Það er gott sleipiefni frá DuPont og auðveldar þrif. Það þekkja þeir sem vinna með þannig húðaðar vörur. Viðnámið í línunni er þess vegna lítið sem gerir löng nákvæm köst möguleg. Línan er 32 metrar á lengd. Verð hennar í smásölu er 5.900 krónur. Aquanova-sökklínan, sem varð fyrir valinu, er beinsökkvandi lína með sökkhraða frá fimm til tíu sentimetrum á sekúndu. Þetta er sökkhraði sem hentar við flestar aðstæður og vel allri vatnaveiði. Línan er beinsökkvandi sem þýðir að endinn næst agninu sekkur hraðast og fyrst. Veiðmaðurinn nær þannig beinu sambandi við fiskinn. Þetta er sérstaklega gott í vatnaveiðinni og auðveldar veiðimanninum að greina grannar tökur. Flestar sökklínur sökkva með belginn fyrst. Fyrir bragðið tapast það nána samband sem þarf að vera milli veiðimanns og fisksins. Þeir, sem vilja vera í sambandi, gera þess vegna rétt í að fá sér Aquanova-sökklínu. Hún er 27 metra löng. Verð hennar er 4.900 krónur. Þriðja línugerðin, sem ÁRVÍK reyndi og býður af Aquanova-línunum, er flotlína með sökkenda. Kápan hefur hlotið Teflon® meðferð eins og hinar Aquanova-línurnar sem ÁRVÍK selur. Sökkhraðinn á endanum er fjórir til tíu sentimetrar á sekúndu. Línan er 27 metrar að lengd. Verðið er 4.900 krónur. Allar þrjár gerðirnar eru ,,weight forward“ sem þýðir að línurnar eru framþungar. Flotlínurnar eru fáanlegar í þyngdum 3 til 9 en sökklínan í þyngd 5 til 9. Línuþyngd 4 er væntanleg af sökklínunni í sumar. Það skal viðurkennt að umbúðirnar eru ekki þær fallegustu á markaðnum en það er innihaldið sem skiptir öllu máli. Það svíkur engan og mun koma þægilega á óvart. ÁRVÍK hf. © 2011

NÝJUSTU FRÉTTIR