Búðapúpan
Vestast í Staðarsveit á Snæfellsnesi eru Búðir við Búðaósa. Búðir eru forn verslunarstaður. Þar versluðu Brimakaupmenn á 16. öld og þaðan var stunduð umtalsverð útgerð. Þar bjuggu stundum á annað hundrað manns í þorpi þurrabúða. Útgerð þaðan var hætt eftir 1933. Búðir eru kirkjujörð og þar hefur á síðari árum verið rekinn gisti- og veitingastaður sem hefur getið sér gott orð.
Þegar í fornöld var skipalægi við Búðaósa. Forna nafnið er í Hraunhafnarósi en Hraunhöfn var heiti höfuðbólsins. Það stóð uppi undir fjallinu þar sem Bjarnarfoss, vatslítill foss sem sést víða að, fellur fram af háu bergi. Hraunhafnaráin rennur í Búðaósa sem hét Hraunhafnarós til forna. Um þetta má lesa í Landið þitt ÍSLAND eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson sem Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. gaf út árið 1984.
Fyrir tíu til fimmtán árum var Engilbert Jensen að veiða í Búðaósum austanverðum. Hann hafði þá hnýtt púpueftirlíkingu af rælni í tilraunaskyni. Púpan hafði enga ákveðna fyrirmynd en var almenn eftirlíking af ýmsu sem Engilbert hafði fest í minni af langri veiðireynslu. Hann reyndi púpuna fyrst á þessum stað og veiddi vel. Engilbert gaf púpunni nafnið Búðapúpan.
Púpan hefur reynst Engilberti vel, sérstaklega við veiðar í ósum. Engilbert mælir með að reyna hana í bleikjuveiði þar sem bleikja gengur upp í ósa á aðfalli. Hér að neðan má finna uppskrift að því hvernig hnýta má púpuna og mynd af henni. Engilbert hnýtti púpuna og tók myndina sjálfur.
Uppskrift:
Öngull (Hook): Kamasan B170, stærðir 14 og 16
Tvinni (Thread): Brúnn Uni 8/0
Vöf (Rib): Gulur Kevlar þráður
Afturbolur (Abdomen): Ryðrautt flos, indverskt
Vænghús (Wing Case): Mandarin duck, Wood duck eða lituð stokkönd, gul
Haus (Head): Brúnn eða ryðrauður
Púpan er síðan öll lökkuð með glæru lakki, t.d. Hard Head, glæru lakki frá Loon.