Stofnun:

Guðmundur Árnason og sonur hans Árni Árnason stofnuðu sameignarfélagið ÁRVÍK sf. hinn 7. nóvember 1983. Sameignarfélaginu var breytt í hlutafélag þann 8. desember 1990. Skráð hlutafé var þá krónur 11.000.000 en hefur verið lækkað í kr. 4.000.000. Eignarhald fyrirtækisins er nú í höndum Árna Árnasonar og fjölskyldu hans.

Fyrirrennari ÁRVÍKUR hf. var inn- og útflutningsfyrirtækið G. Þorsteinsson & Johnson hf. sem var stofnað árið 1941. Guðmundur Árnason var framkvæmdastjóri þess fyrirtækis þar til árið 1983 þegar hann og Garðar Þorsteinsson áváðu að slíta samstarfi sínu. Garðar Þorsteinsson stofnaði nýtt fyrirtæki með sama nafni sem hann seldi síðar. Guðmundur Árnason stofnaði hins vegar ÁRVÍK sf. ásamt Árna syni sínum. ÁRVÍK hélt helmingi þeirra viðskiptasambanda sem áður heyrðu undir G. Þorsteinsson og Johnson hf.

Í árslok árið 2000 voru viðskiptasambönd á  byggingavörusviði félagsins og vörubirgðir þeim tengdum færð yfir til Húsasmiðjunnar. Í framhaldi af því flutti félagið í Garðabæ hinn 1. mars 2001 í eigin húsnæði að Garðatorgi 3. Í ársbyrjun 2016 urðu enn breytingar á rekstri félagsins þegar efnavörusvið félagsins var fært yfir til N1. ÁRVÍK sinnti eftir það eingöngu sölu og dreifingu á vörum til stangveiði.

Í júlí 2016 var húseign félagsins að Garðatorgi 3 færð yfir í sér félag Garðatorg ehf. með skiptingu á ÁRVÍK hf. Hlutafé ÁRVÍKUR eftir skiptinguna er kr. 6.000.000 en hlutafé Garðatorgs ehf. er kr. 5.000.000. Bæði félögin voru í eigu sömu aðila. Á árinu 2021 var Garðatorg ehf. sameinað ÁRVÍK hf. Fasteign félagsins á Garðatorgi 3 var svo seld hinn 15. desember 2021. Í framhaldi var aðsetur félagsins flutt að Fífumýri 13 í Garðabæ.

Hinn 1. mars 2019 sameinuðu Veiðiflugur og Árvík krafta sína í sölu á veiðivörum undir nafninu Árvík veiðivörur. Starfsemin er nú rekin frá Langholtsvegi 111, 104 Reykjavík. Veiðiflugur sér um smásöluhlið viðskiptanna í verslunininni á Langholtsveginum. Heildsöludreifing til verslana fer einnig fram þaðan. 


Framkvæmdastjóri:
:

Árni Árnason tók við framkvæmdastjórastöðu hjá ÁRVÍK hf. hinn 1. ágúst 1991, þegar faðir hans lét af störfum vegna aldurs og seldi hlut sinn í fyrirtækinu.

Árni Árnason útskrifaðist með MBA gráðu frá háskólanum í Minnesota árið 1974. Hann var hagfræðingur Verzlunarráðs Íslands frá árinu 1974 og síðar framkvæmdastjóri þess árið 1979 til ársins 1986, þegar hann hóf störf sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá BYKO hf. Árni kom til starfa hjá ÁRVÍK í maí 1991.

Stjórn:

Gunnlaugur Árnason er stjórnarformaður ÁRVÍKUR. Hann lauk stúdentprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1994 og BA prófi í heimildaljósmyndun, blaðamennsku og fjölmiðlafræði frá Fylkisháskóla Kaliforníu í San Francisco og Sonoma árið 1999. Gunnlaugur útskrifaðist með MA próf í alþjóðlegri fjölmiðlun frá Westminster-háskólanum í Lundúnum árið 2001. Hann var ritstjóri Viðskiptablaðsins á árunum 2005 til 2007. Þar áður vann hann um fimm ára skeið fyrir Reuters-fréttastofuna í Lundúnum. Hann er einn af tveimur eigendum breska útgáfufélagsins Normans Media, sem meðal annars á bresku fréttaveituna M2 Communications, og fjárfestingafélagið NorthStar Media Investments Ltd.

Halla Árnadóttir er meðstjórnandi í ÁRVÍK og var stjórnarformaður Garðatorgs ehf. þar til félagið var sameinað ÁRVÍK hf. á árinu 2021. Halla lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1997 og útskrifaðist frá Ferðaskóla Flugleiða vorið 1998. Hún lauk námi í viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík með BS gráðu í viðskiptafræði vorið 2001.  Hún hóf þá störf sem aðstoðarmaður starfsmannastjóra hjá Skeljungi hf. en starfar nú sem forstöðumaður hjá Origo á Íslandi.

Árni Árnason framkvæmdastjóri ÁRVÍKUR á einnig sæti í stjórn félagsins en hana skipa alls 3 stjórnarmenn.

Afgreiðslutími:

Skrifstofa okkar verður framvegis einungis opin samkvæmt samkomulagi. Við vísum á ÁRVÍK veiðivörur ehf.  á Langholtsvegi 111, 104 Reykjavík varðandi heildsölu- og smásöludreifinugu á vörum okkar. Síminn þar er 527 1060.

NÝJUSTU FRÉTTIR