Vífilsstaðavatn
Vífilsstaðavatn vill oft gleymast þegar talað er um veiðivötn á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess. Í Vífilstaðavatni er bæði bleikja og urriði. Veiðivonin þar er ekki síðri en í öðrum vötnum á svæðinu.
Vífilsstaðavatn opnar faðminn á móti veiðimönnum heilum mánuði fyrr en Elliðavatn. Veiðin hefst þar 1. apríl ár hvert og veiðitímabilið stendur fram til 15. september. Veiðileyfi eru seld á hóflegu verði í golfskála G.K.G. við Vífilsstaðaveg. Handhafar Veiðikortsins geta veitt að vild í vatninu.
Meðfylgjandi loftmynd af Vífilsstaðavatni er fengin hjá Loftmyndum ehf. Á myndinni er merkt við helstu veiðistaðina að mati Engilberts. Það segir hins vegar ekki að ekki megi reyna undir Hlíðinni.
Að lesa bílinn
Ég byrja á því að „lesa bílinn“ þegar ég hef veiðar í Vífilsstaðavatni. Það er gott fyrir veiðimenn að vera vel læsir á vatn. En það er ekki síðri kostur að vera vel læs á nátturuna. Ég byrja því að lesa bílinn og skoða flugurnar sem setjast á framrúðuna á meðan ég er að taka mig til. Og það bregst yfirleitt ekki að silungurinn er einmitt að taka þessar sömu flugur.
Sem ungur maður var ég afskaplega kappsfullur veiðimaður og þá óð ég um allt Vífilsstaðavatn og taldi að ekki væri hægt að setja í fisk öðru vísi en að vera búinn að vaða upp að höndum. Eftir að ég róaðist lærði ég meira á náttúruna og þá jókst veiðin hjá mér umtalsvert. Það fyrsta sem ég lærði varðandi Vífilsstaðavatn er sú staðreynd að vatnið hlýnar fyrst þar sem það er grynnst. Þar tekur lífið fyrst við sér á vorin og þar er mesta veiðivonin. Þess vegna veiði ég mest við suðurenda vatnsins þar sem mest er um grynningar. Vesturbakkinn hefur einnig gefið mér ágæta veiði. Stærsta bleikjan sem ég hef veitt í vatninu var rúmlega 40 sentimetra löng. Ég fékk hana út af bryggjunni á vesturbakkanum.
Varúð, vaðfuglar
Ég hef ekki veitt í vöðlum í Vífilsstaðavatni í mörg ár. Mér nægir að vera í vaðstígvélum og kasta stutt út, eða meðfram landinu, enda hefur það mjög oft komið fyrir að ég veiði fisk langt fyrir aftan aðra veiðimenn. Ég neita því ekki að vöðlurnar eru oftast nær með en yfirleitt læt ég nægja að geyma þær í bílnum.
Flugurnar
Í apríl og maí veiði ég mest á margvísleg afbrigði mýpúpunnar, enda eru stórir flákar í vatninu þaktir mýpúpuhylkjum, þannig að veiðimaðurinn þarf ekki að velkjast í neinum vafa um hvað fiskurinn er að éta. Mýið kviknar fljótt á grynningunum og þótt lofthitinn sé kannski ekki mikill má oft sjá flugu. Ef það er ísbrák á vatninu hefur mér oft reynst vel að kasta uppá ísinn og oft tekur hann þegar ég dreg fluguna fram af ísnum. Ástæðan fyrir því er sú að oft frjósa mýpúpurnar þegar vatnið leggur og bleikjan tekur þær síðan þegar þær losna úr klóm íssins þegar hann bráðnar.
Í byrjun júní færi ég mig oft yfir í Peacock, Pheasant Tail, Héraeyra og Caddis flugur (vorflugur). Ég mæli með því að menn séu duglegir við að skreyta Peacock-púpuna og reyna til dæmis gulan lit í stað þess rauða. Mér hefur sýnst guli liturinn vera gjöfulli, ef eitthvað er. Vífilsstaðavatn er kjörið fyrir þá sem vilja æfa sig með þurrflugu og þá er farsælast að byrja þegar örlítil gára er á vatninu.
Púpurnar
Hér eru nokkrar af púpunum sem hafa gefið mér góða veiði í Vífilsstaðavatni. Myndirnar eru teknar af Þorsteini G. Gunnarssyni, ritstjóra Flugufrétta. Þær eru birtar með góðfúslegu leyfi hans, en ég hnýtti púpurnar..
Fáar flugur hafa gefið mér jafn góðan afla eins og Toppflugupúpan, enda þekja hylkin utan af þessari púpu oft stóra fláka vatnsins.
Hér er Héraeyra sem margir þekkja. Þessi fluga hefur reynst vel í Vífilsstaðavatni, sem og öðrum stöðuvötnum, einnig í straumvötnum.
Hér er skemmtileg útgáfa af Peacock. Hausinn er gulur og búkurinn er allur „palmeraður“ eða vafinn með svartbekkjóttri fjöður sem síðan er snöggklippt nema rétt fremst.
Rautt afbrigði Peacock púpunnar.
Snotur epoxy-púpa.
Þessi litla gula vorflugupúpa leynir á sér. Hún hefur oft gefið mér góða veiði í Vífilsstaðavatni um miðbik sumars.
Í skjóli við þúfurnar
Ég legg áherslu á að veiðimenn við vatnið haldi sig á bakkanum og veiði með augun og eyrun opin og reyni að átta sig á lífríkinu og eðli þess. Vatnið er grunnt og í því er töluverður gróður. Margir veiðimenn bölva gróðrinum og segja að ekki sé hægt að veiða í vatninu meiripart ársins vegna gróðurs. Þetta er náttúrulega argasta vitleysa, því að fiskurinn leitar í gróðurinn, bæði vegna þess að þar er mest af ætinu og þar hefur fiskurinn skjól. Ég mæli þess vegna eindregið með því að menn kasti meðfram gróðrinum. Ég lofa að það ber árangur.
Við suðurenda vatnsins eru nokkrar gróðurtorfur í vatninu þar sem ég geng að fiski vísum. Hann liggur hlémegin við torfurnar og tínir upp í sig pöddur sem losna úr gróðrinum. Ég hef stundað það að kasta á þessar torfur með góður árangri. Yfirleitt tek ég einn fisk, færi mig þá að næstu torfu þar sem ég endurtek leikinn og þannig koll af kolli þar til ég fer aftur að þeirri fyrstu. Það bregst ekki að önnur bleikja er komin í plássið.
Ofangreind frásögn er að mestu leyti byggð á viðtali við mig sem Þorsteinn G. Gunnarsson tók. Viðtalið birtist í Flugufréttum hinn 14. apríl 2006 (319. tölublað).
Í desember 2008
Engilbert Jensen