VEITT og SLEPPT

– hvenær og hvernig –

Tilgangur veiðimennskunnar hefur frá örófi alda verið að afla fiskjar. Svo er enn en viðhorfin og veiðiálagið hefur breyst. Veiðiálagið er nú mun meira en áður var. Þeir dagar, sem lögin um lax- og silungsveiði heimila til laxveiði, eru yfirleitt fullnýttir og yfir veiðitímann er algengt að tveir séu um stöng. Náttúrulegi laxinn á einnig í vök að verjast vegna aukins fiskeldis sem fjölgar laxalús, eykur hættu á erfðblöndun og útbreiðslu fisksjúkdóma. Náttúrulegum óvinum hefur einnig fjölgað, svo sem sel. Álagið er því mun meira en áður. Fyrir þetta líður stórlaxinn meira en smálaxinn.

Lax sem hefur verið tvö ár í sjó gengur yfirleitt fyrstur í árnar. Viðmið í þessu sambandi er lax sem er yfir fjögur kg, eða átta pund, eða þyngri og þá yfir 70 sm langur. Á Vesturlandi er hann að ganga í júní og byrjun júlí og hann hrygnir líka fyrstur á haustin. Hann er í ánni allt sumarið og verður því fyrir meira áreiti veiðmanna en laxinn sem hefur verið eitt ár sjó. Hann gengur síðar.

Laxinn kemur í árnar til þess að hrygna og ala afkvæmi, ekki til þess að nærast. Laxinn tekur þess vegna ekki agn veiðmanna vegna næringargildis heldur eru ástæðurnar aðrar. Það er alkunna að lax tekur betur þegar hann er nýkominn í á. Þótt könnun sýni tóman maga er sennilegt að enn eimi eftir af næringarnáttúrunni hjá þeim löxum sem taka í júní. Stórlaxinn, sem gengur fyrstur, verður fyrir þessu áreiti. Hann er síðan í ánni allt sumarið, æðrulaus. Haustið breytir hins vegar viðmótinu. Þegar komið er að hrygningu er yfirráðasvæðið hans. Hann verndar hrygningarsvæðið og gætir hrygnu sinnar. Minni laxar vilja vera með en eru reknir burt. Allt agn, sem kemur inn á svæðið, er óvelkomið. Laxinn ræðst á það eða vill færa það til en verður fyrir bragðið bráð veiðimanna. Það er þess vegna sem haustið er stórlaxatími og þá veiða margir stórlaxa sem festir eru á vegg. Það eru réttu viðbrögðin af því að þessir laxar hafa verið í ánni allt sumarið og eru lélegur matfiskur.

Það er af þessari ástæðu sem Veiðimálastofnun hefur hvatt til þess að veiðmenn sleppi stórlaxi. Sumarið 2001 slepptu veiðmenn 12% af veiddum laxi hérlendis. Á árinu 2004 var 16% smálaxa sleppt aftur og 25% stórlaxa. Víða erlendis er hlutfallið mun hærra. Í Kanada og Rússlandi er hlutfallið orðið um og yfir helmingur af skráðri veiði eins og fram kom í grein eftir Árna Ísaksson veiðimálastjóra í Morgunblaðinu 19. júlí 2001. Sumarið 2010, en það er næstbesta laxveiðsumarið til þessa, var 21.463 löxum sleppt en það var 28,8% veiðinnar. Og þetta hlutfall fer áfram vaxandi með vaxandi kröfum til sleppinga og var orðið 34% árið 2013 samkvæmt skýrslu Veiðimálastofnunar fyrir það ár.

Deildar meiningar eru um það hvort betra sé að sleppa stórlaxi eða friða hann á hrygningartímanum á haustin. Vissulega er það svo að grútleginn stórlax er lélegur matfiskur. Það hefur því lítinn tilgang að drepa slíkan fisk nema sem veggskraut. Eyþór Sigmundsson bendir þess vegna á í viðtali við Morgunblaðið þann 14. júlí 2002 að réttast sé að friða stórlaxinn á hrygningartímanum. Þetta telur hann mega gera með því að útiloka ákveðna staði í ánum frá haustveiðinni þar sem hrygningin hefst fyrst. Í þessu sambandi nefnir hann Norðurá ofan Beinhóls; Kjarrá ofan Neðra Rauðabergs; Langhyl í Laxá á Ásum; Tunguá, þverá Grímasár; efri hluta Vesturár og Austurár í Miðfirði og þannig mætti áfram telja. Líklega mun reynast erfitt að fá veiðiréttareigendur til þess að fallast á slíka tilhögun nema í óefni sé komið. Veiðimenn geta hins vegar upp á eigin spýtur tekið upp hjá sjálfum sér að hætta veiði þegar laxinn er kominn svo nálægt hrygningu en sá tími er ekki alveg sá sami um allt land.

Það að sleppa hrygningarfiski hefur áhrif á hrygninguna en áhrifin á laxgengd næsta árs eru afar lítil. Innan við 5% af hrygningarstofninum skilar sér aftur í ána að ári og oftast miklu minna eða ekkert. Þess vegna er ekki hægt að geyma laxinn milli ára segir Jón Kristjánsson, fiskifræðingur í viðtali við Fluguféttir 24. maí 2002. Hann bendir einnig á að það sé spurning hversu mikið árnar bera af seiðum. Það er spurningin um eitthvað að eta og vaxtarrými. Í þessu sambandi hlýtur það að skipta máli hverjir leggja til seiðin. Eru það lífsreyndir göngufiskar eða alin seiði í sleppitjörnum? Í þessum samanburði virðist vænlegra að veðja á náttúruna. Í grein í Flugufréttum þann 21. mars 2003 kemur fram að náttúruleg laxveiði er nánast hrunin og hlutfall eldisfiska verður stöðugt hærra hlutfall í heildarveiði í Laxá í Aðaldal. Þegar laxinn kemur til baka til þess að hrygna heimsækir hann fyrst sleppitjörnina en náttúrulegir hrygningarstaðir eru fisklausir. Í þessu ljósi virðist maðurinn vera farinn að taka fram fyrir hendur á náttúrunni í stað þess að vernda hana og láta hana í friði. Fjölbreytileikinn í náttúrinni er viss trygging. Stórlax og smálax kann að taka þátt í hrygningu með sömu hrygnunni. Hrygnurnar hrygna með hléum yfir nokkurt tímabil þannig að nokkrir vonbiðlar geta komist að. Hvað lifir á endanum má Guð einn vita. Eitt er víst að val náttúrunnar er vafalaust viturlegra en mannsins.

Þótt ég veiði mér og mínum til matar, hætti að veiða lax í lok ágúst og hafi þá skoðun að láta náttúruna velja göngufiska komandi ára geri ég ekki lítið úr viðhorfi þeirra sem vilja sleppa þeim fiski sem þeir veiða í þeim tilgangi að vernda vöxt og viðgang stofnsins. Þetta á að vísu ekki við í vatnaveiði af því að þar getur offramboð fiska miðað við fæðuframboð leitt til smærri fiska og kynþroska fyrr. Þar getur því þurft að grisja vötn til þess að ná upp góðri veiði. Um göngufiskinn gegnir öðru máli. Þegar hann hættir að ganga er voðinn vís.

Þótt menn hætti að veiða lax á haustin er sá tími hins vegar ákjósanlegur fyrir bleikjuveiði í ám og vötnum og sérstaklega til sjóbirtingsveiði en sjóbirtingur getur verið að ganga á suðaustanverðu landinu framundir jól. Í þessu sambandi væri e.t.v. athugandi að lengja haustveiðina þegar birtingurinn er spikfeitur og sprettharður í skiptum fyrir vorveiðina þegar niðurgöngufiskurinn má ekki við miklu eftir vetrardvölina í ánni og er ekki sérlega góður til matar.

Þeir sem ætla sér að sleppa fiski ættu að nota agnhaldslausa öngla. Ef öngullinn er með agnhaldi má klemma agnhaldið niður með töng. Þetta er gert til þess að auðveldara sé að ná önglinum úr fiskinum. Aldrei skal nota sporðsnöru (tailer) til þess að fanga fiskinn og best er að halda honum í vatninu þar til honum er sleppt. Yfirleitt má ná öngli auðveldlega úr fiski ef hann er agnhaldslaus. Einnig eru til sérstök áhöld (sjá mynd) sem unnt er að renna niður eftir línunni að önglinum og ná önglinum út. Aldrei ætti að láta fisk koma upp á land og veltast í fjörunni áður en honum er sleppt. Sérstaklega á þetta við um lax að vori en þá er hreistrið mjög viðkvæmt og spurning er hvort hann lifir af þau særindi.

Sumir vilja nota háf til þess að fanga fiskinn. Allt gott um það en netið þarf að vera fínriðið og hnútalaust og rétt er að bleyta það í vatninu áður en fiskurinn kemur í það. Net með hnútum og hart viðkomu getur farið mjög illa með hreistur fiskjarins. Þótt slíkir háfar séu í góðu lagi fyrir þá sem veiða og verka geta þeir farið afar illa með hreistur á fiski. Yfirleitt er best að nota tiltölulega sterkan taum, taka ákveðið á fiskinum og nota sem minnstan tíma í að þreyta hann. Missi maður fiskinn er það ekki mikið mál og fiskur getur yfirleitt losað sig við flugu úr munnvikinu. Ef baráttan dregst á langinn myndar fiskurinn mikla mjólkursýru í vöðvum og það getur dregið hann til dauða.

Þegar mjög heitt er í veðri lækkar súrefnisinnihald vatnsins. Viðmiðunarmörk í þessu efni eru um það bil 14 gráður á Celcius. Ólíklegt er að fiskur lifi af sleppingar við hitastig sem er hærra en þetta.

Þegar fiski er lyft upp úr vatni á aldrei að lyfta honum upp á sporðinum. Þá er hætta á því að hryggjarliðir dragist í sundur og fiskurinn lamist eins og Ásbjörn Blöndal nefnir í ráðleggingum sínum í grein á flugur.is. Dr. Jónas Jónasson nefnir á heimasíðu sinni aðrar hættur, sem eru einnig til staðar, sé fiski haldið uppi á sporðinum en þær eru að æðar í sporðinum rofni sem dregur laxinn til dauða á löngum tíma. Ennfremur nefnir Jónas að blóðþrýstingur geti aukist svo í tálknum fiskjarins að tálknblöðkurnar spryngi og laxinn drepist á næstu klukkustundum.

Aldrei ætti að snerta tálkn fiskjar sem á að sleppa. Gerist það hins vegar er líklegast að fiskurinn syndi burtu en drepist fljótlega á eftir. Varast ber einnig að skemma slímlag fiskjarins. Slímlagið er verndarlag á hreistrinu. Það er þunnt á nýgengnum fiski og skaddast við minnstu snertingu. Tapi hreisturhúðin eiginleikum sínum er hætta á að ónæmiskerfið veikist og sveppasýkingar geri vart við sig.

Þegar fiski er sleppt á að beina honum á móti straumi þannig að súrefni komist í tálknin. Sumir strjúka fiskinum um kviðinn en almennt má segja að því minni sem meðhöndlunin er þeim mun betra. Ekki skal nota hanska við meðhöndlun á fiski heldur berar, blautar hendurnar.

Sumir vilja gjarnan láta taka af sér mynd með fiskinum. Það er yfirleitt unnt með fiskinn í vatni og óþarfi að láta hann kveljast ofan vatns nema rétt þegar myndin er tekin. Margir vilja færa veiddan fisk til bókar um lengd og þyngd. Reyndir veiðimenn geta giskað á þessar stærðir af nægilegri nákvæmni en á milli lengdar og þyngdar er ákveðið hlutfall. Þetta hlutfall er vissulega aðeins breytilegt eftir tegundum fiskjar og staðháttum en mælistika Atlantic Salmon Federation er nægilega rétt til þess að nota við bókun afla. Fer hún hér á eftir yfirfærð í cm og pund (500 gr):

cmpund
502,5
553,5
605,0
656,5
708,0
759,5
8011,0
8513,0
9016,0
9518,5
10021,5
10524,0
11027,0

Það er haft eftir Lee Wulff að laxinn sé of verðmætur til þess að veiðast bara einu sinni. Slepping á löxum kann að valda litlu um aukna laxagengd. Hins vegar er ljóst að stórlaxinn er inni í veiði allt veiðitímabilið eins og Guðni Guðbergsson og Þórólfur Antonsson minntu á í grein í Veiðimanninum í júní 1996. Þetta mikla veiðiálag getur valdið því að hlutdeild hans í hrygningu minnkar og getur smám saman valdið breytingu á erfðasamsetningu laxastofnanna. Að veiða og sleppa yfir sumarið eða að sleppa því að veiða lax langt fram á haustið getur í þessu samhengi skipt öllu máli. Valið er þitt.

Heimildir:

Alastair Gowans. (1999). „Dead or alive?“. Fly Fishing and Fly Tying, (apríl), 16-18.

„Atlantshafslaxinn í íslenskum ám í hættu“. (2002). Fréttablaðið, (16. júlí).

„Á að stofna til allsherjarþings?“. (2002). Morgunblaðið, (14. júlí).

Árni Ísaksson. (2002). „Laxveiðin í sumar“. Morgunblaðið, (19. júlí).

Ásbjörn Blöndal. (2002). „Veiddum fiski sleppt – ráðleggingar“. Aðgengilegt á http://www.flugur.is (sótt 8. janúar 2002).

„Er Láxá í Aðaldal að breytast í hafbeitará?“. (2003). Flugufréttir, 145 (21. mars).

John Goddard. (2001). „Net loss, net gain“. Fly Fishing and Fly Tying, (janúar/febrúar), 8-10.

Jonathan Kenton. (1998). „Catch and Release – A point of view“. Salmon, Trout and Sea Trout, (nóvember), 28-29.

„Jón Kristjánsson gagnrýnir „veitt og sleppt““. (2002). Flugufréttir, 101 (24. maí).

Dr. Jónas Jónasson. (2003). „Að sleppa stórlaxi“. Aðgengilegt á http://www.frances.is (sótt 31. mars 2003).

Guðni Guðbergsson og Þórólfur Antonsson. (1996). „Að veiða og sleppa“. Veiðimaðurinn, 150 (júní), 50-55.

Kristján Guðjónsson (1996). „Veiða og sleppa“. Veiðmaðurinn, 150 (júní), 66-69.

Peter Lapsley. (2002). „The catches in catch-and-release“. Fly Fishing and Fly Tying, (september), 32-35.

Árni Árnason apríl 2003

NÝJUSTU FRÉTTIR