Veitt af öryggi

Um nokkurt skeið hafði ég ætlað mér að setja niður nokkrar línur varðandi helstu öryggisatriði tengd fluguveiði. Smá óhapp sumarið 2016 varð áminningin um að ég skyldi ekki draga það lengur.

Ég var við veiðar við á í Borgarfirði í byrjun ágúst 2016. Þar er stundum vindasamt og vindur annað hvort upp eða niður ána. Í þetta sinn var hæglætisveður og hægur vindur af norðvestri. Allt í einu breyttist vindáttin og snörp vindhviða kom úr norðaustri. Það skipti engum togum. Línan, sem átti að fara hægra megin við mig úr bakkastinu, feyktist til og skilaði flugunni þannig að Kamasan þríkrækjan festist rækilega í vinstra eyranu. Einn krókurinn á þríkrækjunni fór í gegnum eyrað og þar sat flugan föst. Veiðfélagi minn gat auðveldlega tekið töngina mína og klippt agnhaldið af og losað fluguna úr eyranu.

Hér fylgir mynd af flugunni í eyranu og tönginni. Svona töng (multi tool) getur oft komið sér vel. Þær eru til frá ýmsum framleiðendum.

Flugan í eyranu.                                                  Gerber Multi Tool.

Það lærist fljótt að kasta flugu þannig að flugulínan lendi ekki í höfði manns. Ef vindur er á kasthöndina má jafnvel snúa baki í veiðivatnið og láta fluguna lenda á vatninu í bakkastinu. Þó er það svo að vindur feykir stundum línunni og flugan lendir þar sem henni var ekki ætlað. Þá er gott að vera með hatt, eða a.m.k. með húfu. Flugan lendir þá vonandi í höfuðfatinu.

Alvarlegra er þegar flugan lendir framan í andliti manns. Augun eru sérstakt umhugsunarefni í þessu sambandi. Ég hef séð myndir af mönnum með flugu í auganu og þær er að finna á netinu ef menn vilja skoða slík dæmi. Þess vegna er nauðsynlegt að vera ávallt með gleraugu við veiðar til þess að verja augun. Auðvitað er hjálp af öllum gleraugum en „poloroid“ gleraugu koma að sérstaklega góðum notum af því að þau taka glampann af vatninu og auðvelda veiðimanninum að sjá fiskinn í vatninu. Gott er að gleraugun séu með lokun til hliðanna til þess að mynda góða hlíf.

Hægt er að fá gleraugu með skiptanlegum linsum fyrir mismunandi birtuskilyrði. Gleraugun á meðfylgjandi mynd eru t.d. með linsum, sem auðvelda mönnum að sjá, þegar rökkva tekur. Þessar linsur gera mönnum einnig auðveldara að sjá rjúpuna í snjónum, sem er gott að vita fyrir þá, sem ganga til rjúpna, þá fáu daga sem leyft er.

Catch gleraugu með skiptanlegum linsum

Ef myrkrið skellur á við veiðarnar getur ennisljós einnig komið sér vel.

Ennisljós

Það þarf hins vegar ekki myrkur til svo að menn sjái ekki mikið frá sér. Uppi á Arnarvatnsheiði getur þokan skollið á þannig að jafnvel staðkunnugum er hætt við að villast. Og upp af Laugarvatni hef ég lent í snjóþoku þannig að áttavitinn varð nauðsynjatæki. Í framhaldi keypti ég GPS tæki, sem getur einnig verið þarfaþing, eins og kom á daginn þegar þokunni létti.

Veiðfélagi minn hafði þá útvegað sér slíkt tæki, þótt þau hefðu ekki verið leyfileg hér á landi í þá daga. Brot hans er fyrnt en það auðveldaði okkur að finna bílinn uppi á fjallinu. Við höfðum orðið viðskila í þokunni en sem betur fer sá ég veiðifélaga minn í fjarska þegar þokunni létti. Ég hefði aldrei fundið bílinn án GPS tækis en gengið gat ég til byggða eftir áttavitanum. Bílinn fundum við hins vegar auðveldlega með GPS tækinu. Auka rafhlöður ættu þó alltaf að vera með í farteskinu, og flauta getur reynst þarfaþing ef eitthvað kemur fyrir uppi á heiði.

Áttaviti

Við veiðar þarf iðulega að vaða og stundum vaða menn djúpt í vöðlum við erfiðar aðstæður. Vaðstafur er þá þarfaþing. Hann kemur sér einnig vel við önnur skilyrði. Vaðstaf notaði ég fyrst við veiðar í ánni Tyne á Englandi. Þegar leiðsögumaður minn ráðlagði mér að nota vaðstaf  taldi ég það óþarfi. Ég hefði fulla fótaferð. Hvers vegna hann ráðlagði vaðstafinn kom hins vegar strax í ljós þegar ég óð út í ána. Vatnið í ánni var svo litað úr mómýrunum að minnti á maltöl þannig að ég sá ekki 10 sm undir yfirborðið. Ég braut því odd af oflæti mínu og þáði stafinn. Síðan þá er ég alltaf með vaðstaf meðferðið við veiðar. Það þarf ekki straum eða dýpi til.

Fishpond vaðstafur.                                             Volero vaðstafur.

Á nokkrum stöðum þar sem ég veiði við Hlíðarvatn í Selvogi er grjótið á botninum þannig að manni er hætt við að falla í vatnið. Það getur verið fyndið, þegar ungir veiðimenn falla í vatnið og ég leyfði mér að hlæja að syni mínum þegar hann féll í á þar sem við vorum við veiðar á Ítalíu. Slípaðir ávalir steinarnir runnu til undir fótum hans. Mér hefndist fyrir hláturinn því að nokkru síðar missti ég sjálfur fótana og kom fljótandi niður ána og fram hjá þar sem hann stóð við veiðar. Mér varð ekki meint af en farsíminn minn beið þess aldrei bætur.

Hins vegar getur svona fall verið stórhættulegt fyrir eldri veiðimenn enda er þeim hættara við beinbroti. Í straumþungri á er heldur ekkert grín að missa fótana. Þá er eins gott að vera með belti um sig miðjan þannig að vatn fari ekki ofaní vöðlurnar og fylli þær. Ef menn missa fótana ber að láta sig fljóta á bakinu og reyna að ná landi eða grynningum þannig. Í straumþungum ám kann einnig að vera ráðlegt að vera í flotvesti.

 

Fishpond vöðlubelti

Aquaz flotvesti

Undir vöðluskóm er oft filt sem gerir mönum auveldara að fóta sig í vatni. Í regnvotu grasi er filtið hins vegar enginn kostur, nema síður sé. Á suma skó má einnig skrúfa málmbolta sem virka eins og mannbroddar. Þar sem hált er í vatni, t.d. á leirbotni, geta þessir broddar gert gæfumuninn. Menn þurfa þó að hafa í huga að þeir geta myndað hávaða í vatni sem fælir fisk enda berst hljóð hraðar og greinilegar í vatni en í lofti.

Flugnanet

Menn hugsa ef til vill flugnanet ekki sem öryggisatriði heldur til þæginda. Vissulega er gott að losna við rykmýið með netinu en bitmýið getur verið skæður óvinur við straumvatn.

Eitt sinn var ég við veiðar á Írlandi og það tók mig aðeins nokkrar mínútur að setja netið á mig og koma öðru neti til veiðifélaga míns. Þetta var þó nægilegur tími til þess að flugan náði að bíta hann óþyrmilega um allt andlitið þannig að bit var við bit. Slíku biti fylgir óþægilegur kláði sem gott er að vera laus við. Bitið gengur þó til baka en alvarlegri áföll, sem nefnd voru hér að ofan, geta verið varanleg og lífshættuleg. Það er því vissara að fara til veiða með gát.

Að endingu mætti hér nefna tvennt sem getur komið sér vel þegar haldið er til veiða fjarri byggðum. Þetta eru léttar talstöðvar, sem gera veiðifélögunum kleift að vera í sambandi, þótt þeir sjái ekki endilega til hvors annars og hins vegar „Survival Kit“ frá Gerber. Í þessum handhæga litla poka er að finna ýmislegt sem kemur sér vel ef vanda ber að höndum. Myndirnar hér að neðan sýna þessi atriði:

Árni Árnason                                        ÁRVÍK © 2016

NÝJUSTU FRÉTTIR