Taumatengi

Mörgum finnst þægilegt, í stað þess að hnýta tauminn fastan á línuna, að skeyta honum við línuna með lykkju. Þessi tenging gerir það einnig kleift að auðvelt og fljótlegt er að skipta um taum, ef óskað er, og setja t.d. á sökktaum í stað fljótandi eða hægsökkvandi taums.

Auðvelt er að hnýta lykkju á tauminn sjálfan. Sverari endi taumsins er tvöfaldaður og hnútur hnýttur með tvöföldum taumnum þannig að lykkja myndast á endanaum. Ákveða þarf stærð lykkjunar áður en hert er að hnútnum, því að eftir það verður ekki aftur snúið. Lausa endann má svo klippa við hnútinn og eftir situr snyrtileg lykkja.

       

Mynd 1                                                          Mynd 2

     

Mynd 3                                                           Mynd 4

Á flugulínuna sjálfa þarf hins vegar að setja taumatengi sem fást tilbúin fyrir mismunandi línuþyngd. Við seldum tvær gerðir frá Marryat, fyrir línuþyngd 2 til 5 (MR 103) og þyngd 5 til 8 (MR 104). Taumatengin voru glær og hentuðu því mjög vel fyrir glærar línur eins og „Trout Clear Intermediate“ línuna frá Northern Sport og flotlínur með glærum sökkenda t.d. „Wet Tip Clear“ frá Scientific Anglers. Í þessum línum er kjarninn harður glær nælon einþráðungur og þess vegna er mælt með notkun taumatengis þótt hægt sé að hnýta taum fastan á þessar línur, en fara þarf varlega svo að taumurinn skeri ekki kápuna í sundur, því að festan við kjarnann er e.t.v. ekki nægjleg.

                                                 Marryat taumatengi

Taumatengið er búið til úr fléttuðu efni og byggir á kínverskri uppfinningu. Hægt er að smokra línunni inní fléttuhólkinn, en fléttan grípur línuna þannig að hún gengur ekki til baka. Lykkjan er sett á þannig að fyrst er nál sett inn í fléttuna og endi fléttunnar hitaður til þess að forða því að fléttan rifni upp. Endi flugulínunar er þar næst skáskorinn til þess að hann komist auðveldlegar inn í fléttuhólkinn. Línunni er þrýst inn og fléttuhólknum þrýst á móti uns a.m.k. 5 cm af línu eru inni í hólknum. Að lokum er glær plasthólkur þræddur uppá fléttuna og yfir endann á fléttunni. Kínverjar notuðu þessa aðferð er þeir handtóku menn og tengdu þá saman á fingrunum.

Taumatengi

Lím á að vera óþarfi, ef fléttuhólkurinn passar vel á línuna, en rétt er að setja dropa af lími á samskeytin til öryggis, t.d. Zap-A-Gap en það verður ekki hart og þolir vatn. Í hverjum pakka frá Marryat voru þrjú taumatengi og plasthólkur til að loka samskeytum. Aftan á pakkanum er að finna myndaröð sem gerði þessa lýsingu skýrari.

Hjá Veiðiflugum á Langholtsvegi 111, Reykjavík er boðið upp á aðstoð við ásetningu taumatengja. Þar má kaupa fimm tengi í pakka eins og sýnd eru hér á myndinni að neðan. Verðið er kr. 2.995 en þeir setja einnig eitt stykki á flugulínuna fyrir veiðimenn og rukka einungis kr. 795 fyrir greiðviknina.

Hvernig eru svo tvær lykkjur tengdar saman. Myndirnar þrjár hér að neðan sýna það:

                         

Mynd 1                                                        Mynd 2

Mynd 3

Lykkjunni á taumnum er smeygt yfir lykkjuna á línunni og síðan er taumurinn dreginn í gegnum lykkjuna á línunni eins og myndirnar sýna: Þótt sumir telji það til ókosta að taumurinn leggist ekki alveg eins mjúkt á vatnið og þegar hann er fasthnýttur er lykkjan óneitanlega þægileg lausn. Þessa lausn hafa ýmsir framleiðendur nýtt sér með hugvitsamlegum hætti við framleiðslu á flugulínum bæði fyrir einhendur og tvíhendur, þar sem mismunandi flot- og sökkendum er skeytt við flotlínu með lykkju. Þetta getur verið sérstaklega þægilegt á Spey línum fyrir tvíhendur en slíkar línur eru t.d. til með fjórum endum, flotenda, glærum sökkenda og hraðsökkvandi endum með mismunandi sökkhraða.

Þótt þessar línur séu dýrari en heilar línur, sparast mikið við að sleppa fjárfestingu í aukaspólum, og línan er í reynd fjórar línur í einni. Það gerir ekki eins mikið til þótt Spey línan falli ekki dúnmjúkt á vatnið enda eru þessar línur yfirleitt notaðar í miklu vatni.

© ÁRVÍK hf. 2008 og breytt 2014 og lagfært 2024

NÝJUSTU FRÉTTIR